Stundum og stundum ekki á Melum
Leikfélag Hörgdæla frumsýnir farsann Stundum og stundum ekki eftir þá kumpána Arnold og Bach 5. mars nk. á Melum í Hörgárdal. 15 leikarar taka þátt í uppsetningunni auk fjölda annarra sem koma að tæknimálum, hönnum og smíði sviðsmyndar, búningahönnun, förðun o.fl. Hallmundur Kristinsson hannar leikmynd, Ingvar Björnsson sér um ljósahönnun og Guðmundur Óskar Guðmundsson hefur yfirumsjón með smíðavinnu. Saga Jónsdóttir leikstýrir og heldur um þræði af útsjónarsemi og fagmennsku.
Stundum og stundum ekki var frumsýnt á Íslandi í Iðnó árið 1940. Rúmum þrjátíu árum síðar var stykkið sýnt í eilítið breyttri útgáfu hjá Leikfélagi Akureyrar við góðan orðstír árið 1972.
Á sínum tíma þótti verkið fara langt út fyrir yfir velsæmismörk sökum fáklæddra leikara en ekki þótti við hæfi að sjá í bert hold á sviði. Nú eru allir hvattir til að mæta og leggja mat á siðferðiskennd Leikfélags Hörgdæla.
Verkið fjallar um Hörgdal, embættismann hjá ríkinu, sem árum saman hefur starfað hjá útbreiðslumálaráðuneytinu af samviskusemi og dugnaði. Hörgdal er heiðarlegur maður sem má ekki vamm sitt vita en engu að síður, eða kannski þess vegna, er ítrekað gengið fram hjá honum við ráðningar í æðri stöður. Frændsemi og bitlingar enda lagðir til grundvallar stöðuveitingum frekar en vel unnin störf. Kunnuglegt? En í fyllingu tímans er rósemdarmanninum Hörgdal nóg boðið og þegar tækifæri til að láta að sér kveða fellur honum skyndilega í skaut taka hjólin að snúast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Þrátt fyrir aldur verksins á það einkar vel við í dag, kannski einkum og sérílagi í ljósi atburða síðustu vikna og mánaða í landinu okkar.
Stundum og stundum ekki er farsi í sinni bestu mynd. Misskilningur á misskilning ofan, kostulegir karakterar og hröð atburðarrás þar sem eitt leiðir af öðru þar til allt er orðið ein hringavitleysa. Svo er það spurningin, hvernig verður leyst úr allri flækjunni?