Sögustaðir
Margir merkir sögustaðir eru í Hörgársveit.
Gásakaupstaður
Gásir eru gamall verslunarstaður sem talið er að lagst hafi af í lok 14. aldar. Fornleifauppgröftur fór þar fram á árunum 2001-2006. Vísbendingar eru um að verslun hafi átt sér stað allt fram á 16. öld.
Hvergi á Íslandi er talið að jafnmiklar mannvistarleifar frá verslunarstað á miðöldum séu varðveittar. Stofnað hefur verið sjálfseignarstofnunin Gásakaupstaður, sem er í eigu flestra sveitarfélaga við Eyjafjörð og nokkurra annarra aðila. Hún mun byggja upp ferðaþjónustu á Gásakaupstað á næstu árum. www.gasir.is
Skipalón
Á Skipalóni bjó landnámsmaðurinn Eysteinn Rauðólfsson, en hann nam Þelamörk frá Bægisá til Kræklingahlíðar.
Þar bjó Þorsteinn Daníelsson (1796-1882) athafnamaður og smiður. Hann byggði Lónsstofuna árið 1824, íbúðarhúsið sem enn stendur á Skipalóni og smíðahús árið 1843 sem einnig stendur enn og var lagfært fyrir allnokkrum árum. Þorsteinn stundaði þilskipaútgerð og verslun.
Hlaðir
Við Hlaðir er Ólöf Sigurðardóttir skáldkona (1857-1933) kennd. Steindór Steindórsson (1902-1997) kennari og síðar skólameistari Menntaskólans á Akureyri kenndi sig lengst af við Hlaði. Hann var mikilsmetinn náttúrufræðingur og eftir hann liggja fjölmargar bækur. Hér á heimasíðu Hörgárbyggðar er lýsing hans af sveitinni.
Hraun
Hraun í Öxnadal er fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845). Jörðin er í eigu hlutafélagsins "Hraun í Öxnadal ehf." Endurbyggingu á íbúðarhúsinu, sem er frá árinu 1933, lauk haustið 2006. Þar eru minningarstofur um Jónas og fræðimannsíbúð.
Bægisá
Á Bægisá bjó sr. Jón Þorláksson (1744-1819). Hann var skáld en langþekktastur fyrir að þýða ljóðið Paradísarmissi eftir enska skáldið Milton. Skömmu síðar bjó þar sr. Arnljótur Ólafsson (1823-1904), atkvæðamikill alþingismaður og þekktur fyrir hagfræðikunnáttu sína.
Myrká
Sagan af djáknanum á Myrká er mergjuð þjóðsaga. Áður var Myrká kirkjustaður en nú er þar engin kirkja en kirkjugarður.
Skriða
Í Skriðu er vagga trjáræktar á Norðurlendi. Þar var fyrsti trjágarður gerður hér á landi, árið 1825. Það voru Þorlákur Hallgrímsson og synir hans Björn og Jón sem komu honum upp. Reynitrén í Skriðu eru rakin til meiðsins helga í Möðrufellshrauni sem sagnir eru um allt frá kaþólskum tíma til loka 19. aldar. Til er lýsing Jónasar Hallgrímssonar á garðinum í Skriðu frá því laust eftir 1840.