Jóhannes Sigurðsson
Vísnasafn Hörgársveitar
Jóhannes Sigurðsson
fæddist á Neðstalandi 12. júní 1876. Foreldrar hans voru Sigurrós Sigurðardóttir og Sigurður Mikaelsson Árnasonar skálds á Skútum í Glæsibæjarhreppi. Jóhannes var föðurbróðir Þorleifs á Hamri.
Kona Jóhannesar var Guðný Jónsdóttir (f. 9. ágúst 1880, d. 16. júní 1976). Hún var ættuð úr Eyjafirði en ólst upp frá sjö ára aldri á Þverá í Öxnadal. Þau giftu sig 31. desember 1899 og voru í vinnumennsku á Þverá til vorsins 1901, en fengu þá til ábúðar jörðina Hóla og bjuggu þar til vors 1908, er þau fluttust að Engimýri. Vorið 1934 fluttust þau svo að Neðri-Vindheimum á Þelamörk, bjuggu þar í eitt ár, en þá tók Jóhannes sonur þeirra við búskapnum en þau dvöldu þar fram á sjötta áratuginn er þau fluttu til Akureyrar. Jóhannes dó 7. október 1959. Grein um hann má finna í Tímaritinu Súlum 1989.
Minni samgangur á milli bæja á Þelamörkinni en í Öxnadal:
Hver með sinni baugabjörk
býr og lætur nægja,
það er ekki á Þelamörk
þotið á milli bæja.
Þessi vísa er stundum höfð öðruvísi, þ.e. að fyrriparturinn er seinnipartur og öfugt:
Það er ekki á Þelamörk
þotið á milli bæja.
Hver með sinni baugabjörk
býr og lætur nægja.
Hvora útgáfuna kjósa menn frekar?)
Vorvísur:
Víkja um síðir verða skalt
vetrartíðin svala.
Vorið blíða vekur allt,
vermir hlíð og bala.
Sólin háum himni frá
hlýju stráir víða.
Blómin smáu ekru á
öll úr dái skríða.
Roðna drangar, rósin grær
rjóð á vanga tíðum.
Strýkur fangið blíður blær,
blómin anga í hlíðum.
Þá er yndi út að sjá
allt í lyndi falla.
Græna rinda, geiminn blá,
geisla á tinda falla.
Andans sjóður auðgast þá,
angar gróður víða.
Hlusta fljóð og firðar á
fuglaóðinn blíða.
Eygló blíða yljar lund,
ei þarf kvíða barið.
Fíflar prýða græna grund.
Gott er tíðarfarið.
Enginn kvarta ætti þá,
ekki er margt til baga.
Viðkvæmt hjarta værð mun fá,
vors um bjarta daga.
Árdagsstundin yljar brá,
ama úr lundu togar.
Blómin grundu glitra á,
glampa sund og vogar.
Hreiðrið:
Mig langar til að eignast unga
eftir vetrarstríðið þunga,
en vor var kalt, ég verpti seint.
Bjó mér skýli í bolla lágum,
byrgði það með punti háum.
Að öllu var farið afar leynt.
Á eggjunum sat ég allan daginn,
allir hlutir gengu í haginn,
bóndinn færði í búið brauð.
Fann ég gróðurilminn anga,
okkur þótti gott til fanga,
nú var að taka af nógum auð.
Bærinn var á bóndans engi.
Búskapurinn stóð ei lengi.
Engum treysta manni má.
Sá ég karl á svæði ganga,
sveðju bar í mundu langa,
býli stefndi okkar á.
Hátt upp reiddi hann hrottatundur,
hreiðrið okkar skar í sundur,
hörmung var að horfa á.
Eggin sundur öll hann tætti,
ekki dregið var af mætti.
Aleigu missti ég mína þá.
Síðan hef ég sveimað víða,
sorgin ekki hjá vill líða,
get því hvergi fundið fró.
Illa búinn undir vetur,
enginn vill, né hjálpað getur.
Krókna hlýt í köldum snjó.
Vetur:
Ekki er sólaryl að fá
eða um skjól að tala.
Nöpur gjóla norðri frá
næðir um hól og bala.
Hylur móa, mel og börð,
mörgum óar viður.
Kerling góa er köld og hörð
kyngir snjóum niður.
Nú er tíðin heldur hörð,
horfin blíðan langa.
Alltaf hríðar, engin jörð,
allir á skíðum ganga.
Yfir næðir nakinn mel
norðan- skæður bylur,
foldar æðar frjósa í hel,
fönnin svæði hylur.
Hestar ráfa vítt um völl,
varla strá þeir taka.
Grösin dáin eru öll
undir bláum klaka.
Sjást á flóum svellin blá,
sölnuð gróin jörðin,
horfin lóa Fróni frá,
fölnuð móabörðin.
Nú er varla sól að sjá,
söngvar allir þegja.
Blessuð fjallablómin smá
blikna, falla og deyja.
Sumri hallar, svöl er tíð,
sólar varla nýtur.
Skreytir fjalla- freðna hlíð
feldur mjallahvítur.
Þoku hangir hríðin grá,
haglið vanga lemur,
hamradranga hrímar á,
haustið langa kemur.
Til lóunnar:
Lóan flýgur langt um daga,
ljóðin syngur gleðisnauð.
Hún er að kveðja heimahaga,
hreiðrið sitt og blómin dauð.
Dagar styttast, dimmar heldur,
dögg á kalda jörðu slær,
hlíðin gránar, hélan veldur,
haustið er að færast nær.
Þín á haustin sárt ég sakna,
sakleysinginn litli minn.
Það er sælt að sofna og vakna
sönginn fagra viður þinn.
Flýttu þér, það fer að snjóa,
ferð er löng um breiðan ál.
Þú kemur aftur kæra lóa,
kannske fyrir sumarmál.
Stökur frá efri árum:
Burt er æskurósin rjóða,
raunahrukkur falla á kinn,
lítið hefur líf að bjóða,
leiður finnst mér heimurinn.
Man ég æsku unaðsdaga,
þá allt mér ganga fannst í hag,
en til hvers er að kveina og klaga,
komið undir sólarlag?
Þrekið eytt og orðinn skar,
eg má þreyttur róla.
Allt er breytt sem áður var,
ekki á neitt að stóla.
Ellin þjakar á svo ber,
allt til baka læðist.
Óðum hrakar aumum mér,
engin staka fæðist.
Hárið grátt og gisið er,
geymist fátt á litið.
Æskumáttur óðum þver,
orðið smátt er vitið.
Síðustu vísur Jóhannesar:
Ósköp finnst mér lífið leitt,
lítið á að byggja.
Málið farið, augað eitt,
ekkert með að tyggja.
Orðinn hár er aldur minn,
allt fer guðs að vilja.
Hygg ég að í hinsta sinn
hér við munum skilja.