Jón Þorláksson

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Jón Þorláksson

f. 1744, d. 1819

 

Verslunarstjóri nokkur ætlaði að taka hryssu af Jóni upp í skuld. Þá orti hann vísuna fyrir neðan og sagði svo sjálfur frá málalokum: "Faktorinn fór í burt og vísan með honum, - ég líka og Bleikkolla með mér."

Varla má þér, vesalt hross,

veitast heiður meiri

en að þiggja kaupmanns koss

og kærleiksatlot fleiri,

orðin húsfrú hans.

 

Þegar þú leggur harðan hóf

háls um ektamanns,

kreistu fast og kyrktu þjóf,

kúgun Norðurlands.

 

 

Hryssu tjón ei hrellir oss,

hress er eg, þó dræpist ess,

missa gjörði margur hross,

messað get eg vegna þess.

 

 

Fátæktin var mín fylgjukona,

frá því eg kom í þennan heim.

Við höfum lafað saman svona

sjötigi vetur, fátt í tveim.

Hvort við skiljum nú héðan af,

hann veit, er okkur saman gaf.