Barnavernd

Hörgársveit á aðild að barnaverndarnefnd Eyjafjarðar, sem hefur aðsetur á fjölskyldudeild Akureyrarbæjar

Aðsetur: Glerárgata 26, Akureyri

Sími: 460 1420 og 460 1433

Bréfsími: 460 1440

Almennt

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Börn eru börn samkvæmt lögum fram að 18 ára aldri. Starfsfólk nefndarinnar kannar aðstæður barna sem talin eru búa við óviðunandi aðstæður og beitir tiltækum ráðum til úrbóta, svo sem ráðgjöf, tilsjónarmönnum, persónulegum ráðgjöfum, stuðningsfjölskyldum og vistun.

Mikilvægi samvinnu

Mál einstakra barna og fjölskyldna þeirra berast ýmist þannig að fólk leitar eftir aðstoð eða að almenningur og aðilar sem vinna með börnum tilkynna að grunur leiki á að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt að öðru leyti eða að það stofni heilsu sinní í hættu.

Sá sem tilkynnir nýtur nafnleyndar óski hann þess (nema opinberir starfsmenn, s.s. læknar, hjúkrunarfræðingar, starfsfólk leik- og grunnskóla, lögregla o.fl.). Í öllum tilvikum meta starfsmenn barnaverndar mál með tilliti til þess hvort þörf er á stuðningsúrræðum.

Áhersla er lögð á samvinnu við foreldra. Samstarf er haft við ýmsa aðila. Þar má nefna samvinnu við Barnaverndarstofu varðandi greiningu, meðferð og fósturáðstafanir. Einnig er samvinna við Barnahús um könnun kynferðisbrotamála gegn börnum og meðferð vegna þeirra og við Barna- og unglingageðdeild

Tilsjónarmaður aðstoðar foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni sem best.

Persónulegur ráðgjafi veitir barni ráðgjöf og leiðbeiningar í þeim tilgangi að styrkja það félagslega, siðferðilega og tilfinningalega, svo sem í sambandi við vinnu, menntun og tómstundir.

Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni, eða barni og foreldri, til vistunar í nokkra daga í mánuði í því skyni m.a. að létta álagi af barni eða fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í forsjárhlutverkinu.