Öxnadalur
Við Bægisá hefst Öxnadalur. Hann er langur og þröngur, og há fjöll og brött á báðar hliðar. Eru um 35 km fram í botn frá Bægisá. Undirlendi er alls staðar sáralítið. Víðast eru þar aðeins hallandi skriðugrundir. Þó eru nokkrir bakkar hjá Steinsstöðum og síðan í framdalnum.
Neðsta fjallið austan við dalinn er Landafjall, 1.236 m. Nær það milli mynni Bægisárdals og Þverárdals. Það er hátt og skriðurunnið mjög hið efra, en klettabelti mikil uppi undir brúnum. Skiptast þar smáskörð og klettahausar. Fremst á fjallinu upp af bænum Þverá er Þverárhnjúkur, og skilur Húsárskarð hann frá meginfjallinu. Mjög er fjallið þunnt milli Bægisárdals og Öxnadals, enda liggja þeir mjög samsíða. Fjöldi smálækja fellur úr Landafjalli. Venjulega eru þeir vatnslitlir, en í rigningatíð og vorleysingum hleypur í þá feiknavöxtur, og ryðja þeir þá fram aur og grjóti. Eru skriðugrundirnar með hlíðarfótunum af þeim skapaðir. Í fjallinu fyrir ofan Steinsstaði er fossinn Gljúfrabúi, er Jónas Hallgrímsson kveður um í Dalvísum sínum.
Fjallið vestan Öxnadals andspænis Landafjalli er því næsta ólíkt. Það er að vísu engu síður bratt en miklu lægra og klettalaust að kalla. Það er lítt lækjum grafið, enda er hlíð sú öll þurr. Nyrst endar fjallið í mjóum hálsi, og hverfur hann loks í flata mela þar sem Sporður heitir, milli Öxnadalsár og Hörgár. Nyrsti hluti hálsins heitir Staðartunguháls, og svo nefna sumir raunar allt fjallið fram að Drangafjalli. En annars kallast einstakir hlutar þess eftir bæjum, svo sem Skjaldarstaðahlíð, þar er fjallið hæst og brattast. Bakkaháls og Auðnaháls. Mjög er snjólétt í öllum þessu fjalli. Lítils háttar birkileifar í Miðhálsstaðalandi, andspænis Syðri-Bægisá. Þær eru friðaðar.
Nokkru fyrir innan Skjaldarstaði er hamraskál mjög hrikaleg í hlíðinni. Úr henni hefur fallið hólahrúgald niður í á. Heitir það Hraunshöfði. Er þar skriðuhætt mjög ofan úr skálinni, sem Hraunshöfðaskál heitir.
Hjá bæjunum Steinsstöðum og Bakka breikkar Öxnadalurinn allmikið, enda opnast þar skammt fyrir framan þverdalir tveir. Þverárdalur að austan en Vatnsdalur að vestanverðu. Þverárdalur gengur til suðausturs og síðan til suðurs; er hann um 10 km að lengd. Að sunnanverðu heitir dalurinn Hóladalur. Dalurinn er um 5-600 m yfir sjó. Fyrir botni hans eru há sveigmynduð fjöll, og eru þar hjarnfannir nokkrar í botninum. Báðum megin dalsins eru há fjöll og hnjúkótt; þó eru austurfjöllin hærri, klettóttari og skriðumeiri. Austur úr honum gengur Þverdalur, er Lambárdalur heitir, þröngur og gróðurlítill, en nokkru innar sama megin er Hvítilækur, klettagil allmikið. Allur má dalur þessi kallast grösugur, einkum Hóladalur.
Vatnsdalur gengur til suðvesturs. Hann er um 8 km á lengd. Nafn hans dregur hann af Hraunsvatni, sem fyllir allan neðri hluta dalsins. Er það hátt á annan km á lengd og um ½ km á breidd nyrst, þar sem það er breiðast. Liggur það brekkan á milli í dalnum. Það er hvarvetna hyldjúpt, um 60 m, en hæð vatnsflatarins yfir sjó er 492 m, en hátt í 300 m yfir botni Öxnadals hjá Hrauni. Allmikill silungur er í vatninu, en fremur er hann magur, enda mun þar lítið um æti.
Fram af vatninu eru sléttar grundir, en brátt hækkar dalbotninn mjög, og mikill hluti hans er raunar þröngt drag, gróðurlaust að mestu. Snjóþungt er í Vatnsdal, og fannir liggja í honum ofanverðum allt sumarið. Hlíðarnar að vatninu eru yfirleitt snarbrattar, en vestur úr dalnum gengur lítill dalhvilft, er Kiðlingsdalur heitir, en Kiðlingshnjúkur milli hans og Vatnsdals. Norðan að Hraunsvatni eru háir hólar. Dálítil á fellur í Hraunsvatn. Einnig fellur árspræna úr því, en spölkorn frá vatninu rennur hún út í grunna tjörn og hverfur þar með öllu og kemur ekki í ljós fyrr en hún fellur niður í Öxnadalsá, nema aðeins á einum stað í gili miklu, sem hún fyrrum hefur grafið í gegnum öxlina fyrir neðan dalinn. Heitir hún Hraunsá. Fjallið milli Vatnsdals og Hörgárdals er hvort tveggja í senn, sérkennilega og hrikalegasta fjall við allan Eyjafjörð. Þegar kemur suður fyrri Auðnaháls hækkar fjallið snögglega, og verður það að örþunnri hamrabrík á milli dalanna. Brík þessi er skorin sundur í mjóa tinda og dranga, sem rísa við himin líkt og turnar á hamraborg þessari. Hæstur þeirra og sérkennilegastur er Hraundrangi, 1.075 m. Uppi á honum segir þjóðsagan, að geymdur sé peningakútur, sem hver megi eiga, sem nái. Sunnan við hann er allmikill flatur hnjúkur, sem heitir Drangakista. Niður af hömrum Drangafjallsins, er svo nefnist fjallið oft allt einu nafni, en sumir kalla þó suðurhluta þess Háafjall, eru lausagrjótsskriður miklar og brattar. Skammt fyrir sunnan drangana breikkar fjallið nokkuð um skeið. Þar eru skálar nokkrar, og er Sandskál þeirra mest. Þegar dregur suður með Kiðlingsdalnum, mjókkar fjallið á ný, og er það síðan örmjó hamrabrík alla leið fram undir Vatnsdalsbotn.
Undir Drangafjalli fyrir neðan mynni Vatnsdals og yfir þveran Öxnadal gengur hólahrúgald mikið. Eru þeir skildir frá suður að Hraunsvatni, þvert yfir dalinn og hátt upp í hlíðar við mynni Hóladals. Er hólagarður þessi 2-3 km á breidd. Yfirleitt eru hólarnir stórgerðir, grýttir, með bröttum brekkum og djúpum lautum, en einna hæstir og hrikalegastir eru þeir þó fyrir mynni Vatnsdalsins, en niður með Hraunsá, suður af bænum Hrauni, skapast í þeim urðarhraun mikið. Hólahrúgald þetta er að líkindum gamlar jökulöldur úr öllum dölunum þremur, sem þarma mætast. Að einhverju leyti kunna þeir þó að vera skapaðir af framhruni úr fjöllunum, einkum Drangafjalli. Norðan við hólana uppi undir hlíð Drangafjalls, rís upp einstakur hnjúkur, sem Einbúi heitir. Ber allmikið á honum. Hólarnir kallast Hraunsstapar að vestan en Hólahólar að austan.
Fyrir framan Hóla breytir Öxnadalur allmjög um svip. Neðri hluti dalsins var að vísu þröngur, en nú þrengist hann enn meir. Dalbotninn, sem áður var að miklu leyti fláandi skriðugrundir, er nú að mestu flatur, og liðast áin um hann furðulygn. Sýnilegt er, að hér hefur fyrrum verið stöðuvatn fyrir framan Hólana. Hlíðar eru snarbrattar og mjög skriðurunnar og gróðurlitlar. Allmikill hjalli eða hvilft er þó í fjallinu suður frá Hraunsá suður fyrri ofan Þverbrekku. Er þar stöðuvatn lítið uppi, sem Þverbrekkuvatn heitir.
Næst fyrir sunnan Hóladal heitir Hólafjall, en síðan er fjallið venjulega nefnt einu nafni Fagranesfjall allt fram að Gloppugili. Þar er snarbratt mjög og giljum grafið og skriðurunnið. Er þar harla torfært víða, einkum er frjósa tekur á haustin. Mjög er hlíðin sú öll gróðursnauð. Hólahrúgald allmikið gengur fram úr fjallinu hjá Geirhildargörðum. Víða er þar snjóflóða- og skriðuhætt, og er svo einnig að vestanverðu í dalnum.
Allmikið skarð er í Hólafjalli er Kirkjufellsdrag heitir. Skilur það fremsta hluta, næst Gloppuskarði, fram meginfjallinu. Fjöll þessi eru 1.200-1.300 m há. Við enda Fagranesfjalls er hamragil mikið og djúpt, sem Gloppugil heitir. Fellur árspræna úr því, og hefur hún skapað mikla malarskriðu. Upp af gilinu er Gloppuskarð, breitt, en ekki ýkjadjúpt. Liggur drag þess í botninn á dalverpi, er Melrakkadalur heitir. Gloppufjall heitir síðan fjallið austan Öxnadals að Vaská, er kemur úr þverdal úr austri. Norðurhlíð hans sunnan í Gloppufjalli heitir Gloppukinnar, en andspænis þeim er Rauðskriðukinnar. Gloppukinnar enda við Melrakkadal, sem liggur að baki Gloppufjalli til norðurs, en Rauðskriðudalur liggur suður frá Rauðskriðukinnum nokkru vestar. Eftir það heitir dalurinn Vaskárdalur.
Ekki eru fjöllin vestan Öxnadal svipþýðari en austurfjöllin. Milli Öxnadals og Vatnsdals eru fyrst örþunn fjallsbrík, sem fer smám saman hækkandi, uns úr henni verður hamrahnjúkur, mikill og snarbrattur, svo að næstum sýnist hann slúta fram yfir dalinn; heitir hann Þverbrekkuhnjúkur, 1142 m. fyrir framan hann er Bessahlaðaskarð, en síðan tekur við annar hnjúkur engu svipminni; heitir hann Bessahlaðahnjúkur að norðan en suðurbrúnin Gilshnjúkur. Sunnan undir honum er Gilsskarð, breitt en hömrum girt á báðar hliðar. Sunnan þess heitir Heiðarfjall að Öxnadalsheiði. Vestur úr Gilsskarði er allmikill flatneskja, og liggja þaðan daladrög í allar áttir að kalla má. Til norðurs eru drög í Bessahlaðaskarð og Vatnsdal; til vestur liggja drög í Grjótárdal í Hörgárdal og Víkingsdal; en til suðurs í Grjótárdal á Öxnadalsheiði. Öll eru daladrög þessi grunn og auðfarið ofan í þau, nema helst Víkingsdalinn. Hann er mjög hömrum girtur og torvelt að komast niður í hann, er drag hans þröngt hlið milli brattra hamraveggja. Auðfarið er þarna yfir í fjallið til Hörgárdals, þótt mjög sé fjallgarðurinn grafinn sundur.
Suður frá mynni Gilsskarðs gengur allbreiður hjalli, Gilshjalli; hallar honum til suðurs, uns hann endar fyrir ofan Bakkasel. Hnjúkurinn fyrir ofan hann er hömróttur með smágilskorum; heita þar Heiðarskörð. Niður úr gilsskarði fellur Gilsá; ekki er hún vatnsmikil, en að henni liggur samt eitt stórkostlegasta hamragil hér um slóðir, sem hún hefur grafið gegnum hjallann. Er ægilegt að standa þar á brúninni og horfa fram af hengifluginu, sem er óslitið frá hjallabrún niður í dalbotn. Hlíðin að vestanverðu í dalnum er um margt lík Fagranesfjalli, nema ekki jafn giljótt. Nokkru fyrir norðan Gil er hólahrúgald eitt að vestanverðu í dalnum, heitir þeir Varmavatnshólar. Munu þeir draga nafn af kaldavermsliskílum, sem koma undan hólunum og kallaðir eru Varmavatn, en jarðhiti er þarna enginn. Fremsti bær í Öxnadal er Bakkasel.
Fyrir framan Vaská þrengist dalurinn mjög. Heitir austurhlíðin Almenningur frá Vaská, en Seldalur að vestan frá Bakkaseli. Nokkru suður af Bakkaseli er hlíðin þar á móti nær eintómir hamrar, frá brún og niður undir á, en þó með allbreiðum skeiðum milli hamrabelta ofantil. Heitir þar Sveigur, enda bungar fjallið þar allmjög fram. Nær hann fram að hólagirðingu, er liggur um þveran dalinn, nokkru neðar en þverá, er Lambá heitir og fellur í Öxnadalsá að vestanverðu. Í dalbotninum er allmikið flatlendi milli tveggja árspræna, sem eru upptök Öxnadalsár. Heita þar Þorbjarnartungur. Vestan að Seldal liggur Seldalsfjall, og er Kaldbakshnjúkur nyrst á því, fyrir sunnan og ofan Bakkasel, 1.063 m.
Vestur frá Bakkaseli gengur dalur mikill gegnum fjallgarðinn, allt til Norðurárdals í Skagafirði. Er það Öxnadalsheiði, sem frá fornu fari hefur verið greiðasta og fjölfarnasta leiðin milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Suður úr henni gengur Kaldbaksdalur, en norður úr henni nokkru vestar er Grjótárdalur, og er þá komið á sýslumörk.
Heimild: Lýsing Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson, frá Hlöðum, fyrri hluti sem kom út 1949.