Arnsteinn Stefánsson

Arnsteinn Stefánsson

Stóra-Dunhaga, fæddur 7. desember 1923.

Oft kemur mínum anda nær

efni í brag.

Litla vísu ég gerði í gær,

hún er gleymd í dag.

 

Fréttir og/eða fyrirsagnir frétta í blöðum geta stundum verið yrkisefni. Fréttablaðið skýrði frá því að bændur í Ástralíu væru að rækta sauðfjárstofn sem ropaði minna en fé það sem þeir almennt hafa nú. Á þessi nýi stofn að menga loftið minna en sá er þeir nú hafa:

Í Ástralíu ýmislegt er skrýtið

eftir því sem blaðið segir hér.

Að rækta kindur þær er ropa lítið

reynt var ei í búskapnum hjá mér.

 

Svo varð til limra um sama efni:

Við ropum of mikið því miður,

mér finnst það afleitur siður,

ef losa þarf vindinn,

lítil er syndin

að lauma honum þá bara niður.

 

Fyrirsögn í Vikudegi: “Aðeins má ríða austanmegin í Eyjafjarðarsveit” Í fréttinni var rætt um gerð reiðvega í sveitinni.

Margur er víst ekki feginn,

ég það skil og veit,

ef aðeins má ríða austanmegin

í Eyjafjarðarsveit.

 

Jafnréttismálin eru víða rædd. Á sjálfu Alþingi var viðruð sú skoðun að réttast væri að leggja niður þann sið að klæða ungbörn sitt með hvorum lit, þ.e. drengi í blá föt en stúlkur í bleik, eins og alsiða er.

Ennþá stunda þingmenn þrátt

þarfamálin ræða,

nú má hvorki í bleikt né blátt

barnaskinnin klæða.

 

Eftir að hafa hlustað á ræðu stjórnmálamanns:

Málunum kann hann sniðugt snúa,

því snúningur er hans fag.

Hann sýndist nærri því sjálfur trúa

því er sagði hann okkur í dag.

 

Í fréttapistli úr Skagafirði fyrir nokkrum árum var sagt frá því að barnsfæðingar væru orðnar svo fátíðar þar um slóðir að til vandræða horfði:

Argur karl þótt orðinn væri skar

iðulega kátur lék við frúna,

en nú er þetta af sem áður var.

Aumt er að vera Skagfirðingur núna!

 

Mörg eru afabörnin mín orðin:

Ellin þó að að mér stafi

ennþá kætist hugur minn,

ég frétti að ég væri orðinn afi

og ekki víst í fyrsta sinn.

 

Eitthvert hlé hefur orðið á “framleiðslunni” þegar þessi varð til.

Nú er eymdin yfir mér,

einhver bót þótt verða kunni,

gengisfelling orðin er

á afabarnaframleiðslunni.

 

Nokkrar vísur tengdar sveitinni minni, Hörgárdalnum:

Þegar ekki þokan grá

þrengir fjallasalinn

alltaf fagurt er að sjá

inn í Hörgárdalinn.

 

Gróður klæðir grænan reit,

gleðjast sprund og halur,

undurfríða sé ég sveit,

svona er Hörgárdalur.

 

Loga slær á laut og hól,

ljómar fjallasalur,

vina minna vernd og skjól

vertu Hörgárdalur.

 

Nú er bjart til sólarsalsins,

sindra fjöll í árdagsskini,

hlýleg ásýnd Hörgárdalsins

heilsar mér sem gömlum vini.

 

Ég var að slá þegar þessar vísur urðu til:

Glampar sól á hæð og höll,

hlý og fögur sýnum

hýreyg brosir hlíðin öll,

huga lyftir mínum.

 

Um mig straumur indæll fer,

öllum hrindir leiða,

þegar faðminn móti mér

máttug fjöllin breiða.

 

Vorvísur:

Vorsins blíða við mér hló,

víkur hríðarmakkinn,

grónum hlíðum, grund og mó

grænan sníður stakkinn.

 

Vaknar sól og við mér hlær,

vorsins klukkur tifa,

fannir bráðna, grasið grær,

gaman er að lifa.

 

Sé ég vart er dagur dvín,

draumur í hjarta falinn,

vorkvöld bjart um veröld skín,

vefur skarti dalinn.

 

Sindra fjöll í árdagseldi,

á sig foldin breiðir skart,

lúta fyrir vorsins veldi

vetrarhríð og myrkrið svart.

 

Kveður lóa klökk í mó,

kann ei snjóum gleyma,

hefur nóg í nefið þó,

því nú fer að gróa heima.

 

Önnur vísa um lóuna:

Suður á túni syngur lóa,

um sína eign þar heldur vörð.

Sólin gyllir grund og móa,

glitrar dögg á votri  jörð.

 

 

Að sumri:

Tíbrá merlar tún og engin,

tindar skarta fögrum línum,

norðanáttin niður gengin,

nú er bjart í dalnum mínum.

 

Daggarperlum grætur grund,

glitra á stráum lætur,

mér er ljúfust morgunstund

milli dags og nætur.

 

Hress í anda helst ég kýs

að heilsa degi nýjum,

hátt í austri eygló rís

yfir gullnum skýjum.

 

Haust:

Blómaangan enginn hér

yfir ganga lætur,

hrím á vanga haustið ber

hljóðar langar nætur.

 

Haustið kallar, hér má sjá

hörsl um allar brúnir,

háa fjallahnjúka á

hvítar falla rúnir.

 

Það er kveld og komið haust,

kvöl það veldur stráum,

loga eldar endalaust

uppi á feldi bláum

                (stjörnubjart og norðurljós á himni)

 

 

Vetrarvísur:

Undir gráum gaddi smá

gisna strá og fúna,

sólin háum himni frá

hlýjar fáum núna.

 

Finn ég lítið foldarskart

fönn af hrýtur steinum,

frostið bítur hauður hart,

harkan slítur einum.

 

Þetta napra hríðarhregg

hamlar morgungöngum,

ef ég hefði ekki skegg

yrði kalt á vöngum.

 

Og svo ein um þorrann!

Ennþá tíðin ergir sig

eins og mislynd kona,

þorri karlinn þreytir mig

þegar hann lætur svona.

 

Að engu hef ég hæðst jafnmikið og mér sjálfum. Hér er lítið sýnishorn:

Ekki fríkkar fés á mér

þótt frakkur úr mér breiði

og hárið sem nær ekkert er

yfir skallann greiði.

 

Minn er varla hagur hár

hvar sem á er litið,

orðinn bæði gamall, grár,

og gengið frá mér vitið.

 

Nú er orðið margt til meins,

má svo þessu lýsa:

Ég er bara orðinn eins

og illa kveðin vísa.

 

 

Nú er víst miklu meira en nóg komið. En hvernig væri að hæla sér svo aðeins í lokin?

Þó að ég sé gamalt grey,

gagnslítill til verka

og burðasmár, þá bregst mér ei

brageyrað mitt sterka.

 

 

Hártíska ungu mannanna:

Hárið víða sítt má sjá,

er sveinum veitir yndi.

Mig það stundum minnir á

merartagl í vindi.

 

En tíðum reynist eitthvað að,

enda mjög að vonum.

Mörgum erfitt þykir það

að þekkja mann frá konum.

 

Ráð við því þó oftast á,

ef ég bara þori.

Það er: að grípa undir þá

eins og lömb á vori.

 

 

Hvað er ánægjulegast á lífsleiðinni?

Að eiga fljóð, sem eru góð,

engum bjóða þvaður,

lítinn sjóða saman óð

syngja ljóðin glaður.

 

Atvinnumál á Húsavík voru í fréttum í október 2011:
Aumt er á Húsavík ástandið,
í atvinnumálunum lítið gengur,

Alcoa er hætt við álverið

og ekkert tittlingasafn þar lengur.

 

 

 

Til baka í yfirlit vísnasafnsins