KRÆKLINGAHLÍÐ
Strandlengjan frá Glerá að Hörgárósum og hlíðin þar upp frá milli fjalls og fjöru heitir Kræklingahlíð. Dregur hún, að sögn Landnámu, nafn af sonum Öndótts kráku, er námu þar land. Kræklingahlíðin er grösug sveit og frjósöm, en jarðir eru fremur litlar.
Vestan að suðurhluta Kræklingahlíðar rís hátt fjall, með skálum og rimum á milli; kallast það einu nafni Hlíðarfjall. Nyrst á því er Stórihnjúkur um 912 metra hár. Fyrir norðan Stórahnjúk tekur fjallið að lækka, og er Litlihnjúkur nokkru norðar um 781 metrar á hæð. Síðan lækkar fjallsröðulinn ört og dregst fram í langan háls, er Moldhaugaháls heitir. Hverfur hann að lokum nokkru fyrir innan Hörgárósa það er við bæinn Hlaðir sem er næstysti bærinn í dalnum.
Mjög er þéttbýlt í Kræklingahlíð. Tvær eru bæjaraðirnar, og þó einstakir bæir á milli þeirra. Efri röðin er miklu þéttari, og liggur hún með fjallinu. Víða liggja þar tveir til þrír bæir samtínis. Neðri röðin, sem er með sjónum, er allmiklu strjálli.
Nyrst úti í Hörgárósum skagar eyri allmikil út í sjóinn. Er það Gáseyri, og er fremsti hluti hennar oft nefndur Toppeyri. Þar fyrir ofan eyrina var hinn forni verslunarstaður að Gásum.
Heimild: Lýsing Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson, frá Hlöðum, fyrri hluti sem kom út 1949.