Hörgársveit
Hörgársveit er næsta sveitarfélag norðan Akureyrar. Sveitarfélagamörkin við Akureyri eru við Lónið, á móti Akrahreppi við Grjótá á Öxnadalsheiði og á móti Dalvíkurbyggð eru mörkin skammt norðan við Fagraskóg. Hörgársveit varð til við sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar 12. júní 2010. Hörgárbyggð varð til 1. janúar 2001 þegar Glæsibæjarhreppur, Öxnadalshreppur og Skriðuhreppur sameinuðust.
Íbúar Hörgársveitar voru 865 talsins þann 1. október 2024
Hörgársveit er að stærstum hluta dreifbýli þar sem hefðbundinn búskapur er stundaður. Lítil þéttbýli eru Lónsbakki, rétt norðan Lónsins, og Hjalteyri, nyrst í sveitarfélaginu. Á Lónsbakka eru göturnar Skógarhlíð, Birkihlíð og Reynihlíð.
Grunnskóli sveitarfélagsins er Þelamerkurskóli á Laugalandi. Við skólann er íþróttahús og sundlaug, Íþróttamiðstöðin á Þelamörk. Á Lónsbakka er leikskóli sveitarfélagsins, sem heitir Álfasteinn.
Í sveitarfélaginu eru tvö félagsheimili, Hlíðarbær í Kræklingahlíð sem er í eigu Reglu Musterisriddara og Melar í Hörgárdal sem er í eigu Leikfélags Hörgdæla. Leikfélag Hörgdæla hefur sýnt leikverk að Melum að jafnaði annan hvern vetur við mikla aðsókn og góðan orðstír. Í sveitarfélaginu eru fjórar kirkjur, sem þjónað er af sóknarprestinum á Möðruvöllum. Kirkjurnar eru að Möðruvöllum, Bægisá, Bakka og Glæsibæ.
Möðruvellir er fornt höfuðból. Þar var stofnað munkaklaustur af Ágústínusarreglu 1296 sem stóð fram að siðaskiptum. Þar var fyrsti gagnfræðaskóli á Íslandi stofnaður 1880.
Fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar er að Hrauni í Öxnadal. Þar eru nú fræðimannsíbúð og minningarstofur um Jónas. Stofnaður hefur verið fólkvangur á meginhluta jarðarinar.
Mikill fornleifauppgröftur stóð yfir á Gásum á árunum 2001-2006. Þar eru rústir kaupstaðar frá gamalli tíð. Sjálfseignarstofnunin Gásakaupstaður hyggst á næstu árum byggja þar upp ferðaþjónustu með áherslu á miðaldir, sjá hér heimasíðu hennar.
Um staðhætti og landslag í hverjum hluta sveitarfélagsins má lesa með því að smella á heiti á viðkomandi hluta þess hér fyrir neðan. Heimildin er bókin Lýsing Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum, fyrri hluti, sem kom út árið 1949.
- Þelamörk