Jóhannes Örn Jónsson
Vísnasafn Hörgársveitar
Jóhannes Örn Jónsson
(Örn frá Steðja)
fæddur í Árnesi í Tungusveit í Skagafirði 1. október 1892, dáinn 15. október 1960. Foreldrar hans voru Jón Jóhannesson og Ólína Ólafsdóttir. Jóhannes var kvæntur Sigríði Ágústsdóttur (f. 18. júní 1908, d. 30. sept. 1988) frá Kjós í Trékyllisvík, systur Símonar Jóhannesar Ágústssonar prófessors. Þau Jóhannes og Sigríður bjuggu í Fagranesi í Öxnadal 1930 1934 en fluttust þá að Neðstalandi í Öxnadal og bjuggu þar í eitt ár til 1935 og fluttust að Steðja á Þelamörk og bjuggu þar til ársins 1960. Þaðan fluttust þau til Akureyrar.
Jóhannes var mikill grúskari og þjóðsagnasafnari. Hann gaf út bækurnar, Sagnablöð og Sagnablöð hin nýju. Hann var einnig góður hagyrðingur.
Þau Jóhannes og Sigríður áttu fjögur börn, m. a. Ævar Jón Forna, sem var uppfinningamaður og hefur starfað fram undir þetta á Orkustofnun/Íslenskum orkurannsóknum og er þekktur fyrir lúpínuseyðið sem hann hefur barist fyrir að fá viðurkennt sem krabbameinslyf.
Áritað á bók um myndlist Sigurðar Guðmundssonar málara, sem Jóhannes gaf Frímanni í Garðshorni í fimmtugsafmælisgjöf:
Heiður, þökk og heill þér ber.
Hálfrar aldar kveðja.
Geymi listagarpsins kver
geislabrot frá Steðja.
Um Ref bónda (Braga Jónsson frá Hoftúnum):
Mikilvirkur, málheppinn
myndir skýrar tekur.
Sálarstyrkur sundkappinn
sífellt yrkir Refur minn.
Katla í Holti:
Finnst í heimi fornaldar
fáheyrt smánarundur,
þegar Katla beinin bar
brotin öll í sundur.
Húsfreyjan, sem Holti á
hirti staðinn þarna,
dreymin var með dökka brá
dulræn kvennastjarna.
Reyndi granna róg og slægð,
rýran bar því hróður,
vegna galdra orðróms ægð,
enda finnsk að móður.
Auri margskyns ausin var
ekkjan bús við stigi.
Eftir reifun ritsmíðar
reiknast má það lygi.
Gyrtir sára glæstum kólf
glæpi lítt að spara.
Sóttu að henni svolar tólf,
seiðnorn með til vara.
Ræddi Katla sinn við son:
Sækir að mér leiði.
Okkar friðar engin von.
Illt er nú á seyði.
Trauðla dugar töfrabragð
til að gleðja sýnir,
því að grimmlegt galdraflagð
gegnum jörðu rýnir.
Látum hníga lífstré mitt,
launin koma síðar,
fái dulist fjöregg þitt
fálu Mávahlíðar.
Móðurástar máttug sól
mildar kalda hjarnið.
Freistar lengst að finna skjól
fyir kæra barnið.
Hér varð engu hraðla breytt,
hjálp, sem orkað gæti.
Fylgsni nýttist aðeins eitt
undir Kötlu sæti.
Lítið þarna leyndist flet,
lokað bláu tjaldi.
Svanni þangað soninn lét,
síst þótt kæmi að haldi.
Heyrði nú frá húsastétt
hreim af raddablaki.
Inn var síðan þröngvast þétt
þungu fótataki.
Bægifæti borið fljóð,
bólgið grimmd og þykkju,
fyrir manna flokknum tróð
faldin blárri skikkju.
Hér var ójafnt hervaldslið,
hjálp var ekki að dreyma.
Enginn Kötlu lagði lið,
lítt var manna heima.
Styrjar-Gríður stefnulaust,
studd af leiðarnautum,
höfuð Kötlu heiftug laust
hafselsfeldi blautum.
Kötlu gerðist örðug önd
undir skinni Gríðar,
samt 'ún ekki hreyfði hönd,
hugprúð fyrr og síðar.
Sonur hennar, fundinn fljótt,
fjötrum var þá strengdur.
Sagnamálið segir ljótt:
Síðar var 'ann hengdur.
Áður en Katla kvaddi heim
kvalin grjóti þungu,
forspár orð með finnskum hreim
féllu af hennar tungu:
"Sé ég í húmi sýnir.-
Sannast draumarnir mínir.
Bölvaldur ykkar bíður
beggja, Arnkell og Gríður.
Niður þú nösum stingur
náttsvarti Mávhlíðingur.
Allir, sem þátt hér eiga,
ógæfudrykkinn teyga.
Fagnið ei fölskum sigri
fjandmannahópur digri.
Læsið í ljósu minni
lífsorð mín hinsta sinni.
Heyrið nú skapahljóminn,
harðan og kaldan dóminn,
hróp minnar heitu vonar:
Hefnt verður Kötlu-sonar."
Kötlu galdraklækjarót
krota fjaðrapennar.
Þó er dekkra myndamót
meginfénda hennar.
Fyrir þessi fólskumorð
fráleitt sakir bættust.
Hennar síðstu andlátsorð
örugglega rættust.
Staka:
Tældur var ég tvítugur,
tryggða gullið mélað.
Þegar ég var þrítugur,
þrjár ég hafði vélað.