Reglur um félagslega heimaþjónustu
Hörgársveit
Reglur um félagslega heimaþjónustu
sbr. 29. gr. laga um nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra
1. gr.
Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla viðkomandi til sjálfshjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður. Hún er fyrir alla aldurshópa.
2. gr.
Félagsmála- og jafnréttisnefnd Hörgársveitar hefur yfirumsjón með þessari þjónustu í umboði sveitarstjórnar.
3. gr.
Með félagslegri heimaþjónustu er átt við aðstoð við
- almennt heimilishald,
- persónulega umhirðu,
- félagslegan stuðning.
Skilyrði þess að fá félagslega heimaþjónustu er að viðkomandi búi í heimahúsum og geti ekki hjálparlaust séð um heimilishald, persónulega umhirðu og nauðsynlegar athafnir dagslegs lífs vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, fötlunar eða öðrum ástæðum sem félagsmála- og jafnréttisnefnd metur gildar. Að jafnaði er ekki veitt þjónusta sem aðrir heimilismenn geta annast.
4. gr.
Áður en heimaþjónusta er veitt, skal þörf fyrir hana metin í hverju einstöku tilviki. Umsóknum um heimaþjónustu skal beina til skrifstofu Hörgársveitar. Þeim er þaðan vísað til matshóps á búsetudeild Akureyrarbæjar, sem metur þjónustuþörf og aðstæður hverju sinni. Matshópurinn ákvarðar umfang og eðli þeirrar þjónustu sem veitt er. Matshópnum er heimilt að fara fram á vottorð læknis, valdi fötlun eða veikindi þjónustuþörfinni. Ennfremur er heimilt að óska umsagnar annarra fagaðila sem til þekkja.
5. gr.
Hörgársveit ræður starfsfólk til starfa við félagslega heimaþjónustu. Innheimt eru þjónustugjöld fyrir þjónustuna skv. gjaldskrá sem félagsmála- og jafnréttisnefnd setur og hlotið hefur afgreiðslu sveitarstjórnar.
6. gr.
Telji umsækjandi um þjónustu á rétt sinn hallað skv. reglum þessum er honum heimilt að vísa málinu til félagsmála- og jafnréttisnefndar innan 4ra vikna frá honum barst vitneskja um ákvörðun. Nefndin skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun í málinu svo fljótt sem unnt er.
7. gr.
Umsækjandi getur skotið ákvörðun félagsmála- og jafnréttisnefndar varðandi félagslega heimaþjónustu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu, sbr. 65. gr. laga nr. 40/1991. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun félagsmála- og jafnréttisnefndar.
8. gr.
Unnt er að óska þess að mál sé tekið til meðferðar á ný ef afgreiðsla á umsókn hans hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ákvörðun hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Beiðni um endurupptöku skal beina til sveitarstjórnar, innan 3ja mánaða frá birtingu ákvörðunar. Meti sveitarstjórn að lagaleg skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi, er erindi um endurupptöku vísað til félagsmála- og jafnréttisnefndar til málsmeðferðar. Efnisatriði máls skulu ekki lögð fyrir sveitarstjórn.
9. gr.
Reglur þessar gilda frá og með 1. nóvember 2011.
Samþykkt í félagsmála- og jafnréttisnefnd 10. október 2011
Samþykkt í sveitarstjórn 19. október 2011