Sveitarstjórn fundur nr. 165
Föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 14:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri
Þetta gerðist:
1. Ársreikningur Hörgársveitar 2023, fyrri umræða
Ársreikningur Hörgársveitar lagður fram til fyrri umræðu.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi Hörgársveitar fyrir árið 2023 til síðari umræðu.
2. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 26.3.2024
Fundargerðin er í 7 liðum og þarfnast 5 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.
a) Í lið 1, Glæsibær, Hagabyggð – deiliskipulag áfangi III (2301004)
Kynningartímabili vinnslutillögu aðal- og deiliskipulags lauk 28. febrúar 2024 en var framlengt til 13. mars að beiðni Skipulagsstofnunar. Alls bárust 15 erindi vegna kynningarinnar þar sem gerðar eru nokkrar athugasemdir við skipulagsáformin. Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um innkomin erindi og leggur til við sveitarstjórn að brugðist verði við fram komnum athugasemdum á eftirfarandi hátt.
Aths. 1) Samræmi við svæðisskipulag og landsskipulagsstefnu varðandi nýja þéttbýlisstaði.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki tímabært að skilgreina Hagabyggð sem þéttbýli í aðalskipulagsbreytingunni sem hér um ræðir.
Aths. 2) Varðveisla landbúnaðarlands.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að ákvæði laga og skipulags um verndun landbúnaðarlands lúta að landi sem skilgreint er sem landbúnaðarland í gildandi aðalskipulagi, og ákvæði t.d. jarðalaga um lausn úr landbúnaðarnotum eiga við þegar sveitarstjórn tekur ákvörðun um að breyta landnotkunarflokki lands úr landbúnaðarsvæði (L) í annan landnotkunarflokk. Svæðið sem hér um ræðir hefur verið skilgreint sem skógræktar- og landgræðsusvæði (SL) frá gildistöku Aðalskipulags Hörgársveitar 2012-2024 og ákvörðun um að breyta flokkun landsins úr landbúnaðarsvæði (L) hefur þvi þegar verið tekin.
Aths. 3) Umferðaröryggi (vegnr. 816).
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd felur sveitarstjóra að koma á fundi með Vegagerðinni og ræða hvort og hvaða ráðstafana æskilegt sé að taka til vegna umferðaröryggis á þjóðvegi 816.
Aths. 4) Útfærsla fráveitu.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd kallar eftir að ítarlegri umfjöllun um fráveitu verði bætt við deiliskipulagið þannig að a.m.k. komi fram hvaða tækni verður notuð og hvernig tryggt verði að ekki hljótist lyktarmengun og mengun af affallsvatni hreinsistöðvar á svæðinu.
Aths. 5) Þrengt að búrekstri – nábýli og landnæði.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki að skipulagsáformin sem hér um ræðir þrengi að möguleikum til búrekstar í nágrenninu, enda eru 700-1000 m milli skipulagssvæðisins sem hér um ræðir og næstu bújarðar í rekstri. Auk þess bendir nefndin á að í aðalskipulagi kemur fram fyrirvari varðandi stöðu búrekstrar gagnvart nábýli við íbúðarbyggð.
Aths. 6) Hagkvæm uppbygging sveitarfélagsins.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd telur að með að fjölga íbúum sveitarfélagsins sé stuðlað að fjárhagslegri sjálfbærni þess, auknum fjölbreytileika samfélagsins auk þess sem hún bendir á að í skipulagsáformunum sem hér um ræðir felist búsetukostir sem ekki er hægt að bjóða upp á annarsstaðar.
Aths. 7) Fordæmisgefandi ákvörðun.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að mótuð verði stefna um íbúðarbyggð í dreifbýli sem bætt verði inn í aðalskipulag í yfirstandandi endurskoðun skipulagsins.
Aths. 8) Umhverfisstefna – sjálfbær landnýting, skóglendi opið almenningi, skila landi jafn góðu eða í betra ásigkomulagi til komandi kynslóða.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd telur að í skipulagstillögunni felist margir þættir sem eru jákvæðir með tilliti til stefnu sveitarfélagsins í umhverfismálum, t.a.m. felist mikil gæði í nálægð byggðarinnar við skóg, fjöru og lítt snortna náttúru. Áformin gangi því ekki gegn umhverfisstefnu sveitarfélagsins. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að gera grein fyrir samspili skipulagsáformanna við umhverfisstefnu sveitarfélagsins.
Aths. 9) Eyrarvíkurvegur sem tengivegur.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að Eyrarvíkurvegi verði breytt úr tengivegi í héraðsveg í yfirstandandi aðalskipulagsbreytingu.
Aths. 10) Umhverfismat áætlana.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að áhrifamat vegna skipulagsáformanna koma fram í greinargerðum aðal- og deiliskipulags og að bætt verði við matið í samræmi við umfjöllun nefndarinnar um innkomnar athugasemdir, t.d. varðandi útfærslu fráveitu, grenndaráhrif gagnvart búrekstri, og samræmi við umhverfisstefnu Hörgársveitar.
Aths. 11) Hámarks hæð húsa fimm metrar.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki að sex metra hámarkshæð bygginga á skipulagssvæðinu muni vera íþyngjandi fyrir ásýnd þess eða grenndaráhrif. Lægri hámarkshæð myndi aftur á móti þrengja verulega möguleika á að hafa millipall/nýtanlegt ris í húsum líkt og skipulagstillagan leggur til.
Aths. 12) Nálægð við frístundasvæði Glæsibær Hagaskógur.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að almenningur eigi samkvæmt lögum umferðarrétt um svæðið og að uppbyggingaráform í Hagabyggð breyti engu í þeim efnum. Auk þess bendir nefndin á að skipulagssvæðið liggi ekki upp að landeigninni Glæsibær Hagaskógur (L187134). Nefndin telur því ekki að gengið sé á hlut eigenda frístundabyggðarinnar með þessum skipulagsáformum.
14) Eyðing skógar m.t.t. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að vöxtur trjágróðurs á svæðinu hefur ekki náð sér á strik að sama skapi og ofar í hlíðinni og því telji hún gróðurinn ekki hafa mikið varðveislugildi. Ennfremur kemur fram í deiliskipulagstillögu að byggðin verði aðlöguð að þeim trjágróðri sem þó er til staðar á svæðinu. Skipulags- og umhverfisnefnd telur því að varanleg eyðing skógarins á skipulagssvæðinu (6 ha) teljist forsvaranleg m.t.t. 19. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 til að mæta húsnæðisþörf í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn samþykkti að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá til þess að skipulagstillögurnar verði uppfærðar í samræmi við ofangreint.
b) Í lið 2, Lónsbakkahverfi, aðal- og deiliskipulagsbreyting (2312004)
Kynningu aðal- og deiliskipulagstillögu á vinnslustigi fyrir Lónsbakkahverfi lauk 20. mars sl. og bárust 11 erindi. Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um innkomin erindi og leggur til við sveitarstjórn að brugðist verði við fram komnum athugasemdum á eftirfarandi hátt.
Aths. 1) Bílastæði á lóðum L3 og L4.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfinsnefnd leggur til við sveitarstjórn að bílastæði verði skilgreind á lóðunum L3 og L4.
Aths. 2) Fjölbýlishús á lóð L3.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki heppilegt að gera ráð fyrir fjölbýlishúsi á lóðinni L3.
Aths. 3) Nálægð íbúðarlóða við sláturhús.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir að fjarlægð við fjölbýlishús sé sambærileg við aðrar lóðir sem fyrir eru í þéttbýlinu og telur ekki ástæðu til að breyta skipulagstillögunni vegna nálægðar við sláturhús.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að aðkomuleiðir að nýjum lóðum við Lónsveg verði endurskoðaðar með hliðsjón af innkomnum athugasemdum sem og númerum lóðanna.
Sveitarstjórn samþykkti að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá til þess að skipulagstillögurnar verði uppfærðar með hliðsjón af ofangreindum athugasemdum og að vísa svo breyttum skipulagstillögum í auglýsingu skv. 1. mgr. 31. og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
c) Í lið 3, Landsnet umsókn um framkvæmdaleyfi v. Dalvíkurlínu 2 (2401004)
Fjallað um umsókn frá Landsneti hf. um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Dalvíkurlínu 2, ásamt fylgigögnum. Sveitarstjórnarfulltrúar hafa kynnt sér gögn málsins, þar með talið breytingu á aðalskipulagi. Framhald umræðu frá 23. janúar 2024. Framkvæmdin er tilkynningarskyld samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en er ekki háð mati samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn hefur meðal annars kynnt sér tilkynningu og önnur gögn sem framkvæmdaaðili lagði fram til Skipulagsstofnunar og ítarlegt álit stofnunarinnar á framkvæmdatilkynningu og fellst nefndin á sjónarmið sem þar koma fram. Fullt samræmi er milli lýsingar á framkvæmd og umræddum gögnum sem framkvæmdaraðili lagði fram til stofununarinnar.
Breytt aðalskipulag vegna Dalvíkurlínu 2 var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 8.4.2024 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingarinnar. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna þann 20. mars 2024. Fyrir liggur að Landsnet hf. hefur náð samkomulagi við mikinn meirihluta landeigenda á lagnaleiðinni en þó ekki alla. Sveitarstjórn hefur gengið úr skugga um að fyrirhuguð framkvæmd og lýsing hennar er í samræmi við nýsamþykkt aðalskipulag og fellur vel að staðháttum, m.a. með því að línan verður lögð í jörð og hefur því ekki önnur áhrif á umhverfið svo sem ásýnd eða landnýtingu utan strengstæðis og við framkvæmdina verður tekið tillit til annara lagna sem ligga í eða við lagnaleið Dalvíkurlínu 2. Með hliðsjón af viðmiðum sem fram koma í Vatnaáætlun Íslands 2022-2027 telur sveitarstjórn einsýnt að ástandi vatnshlots Hörgár muni ekki hraka við framkvæmdina sem um ræðir. Einnig telur sveitarstjórn einsýnt að ráðgerð þverun veiðivatna innan sveitarfélagsins hafi ekki áhrif á verndarhagsmuni sem taldir eru upp í 33. gr. laga um lax- og silungsveiði og teljist framkvæmdin því ekki háð leyfi Fiskistofu innan sveitarfélagsmarka Hörgársveitar.
Sveitarstjórn samþykkti að fallist verði á umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi, þó með því skilyrði að framkvæmdaleyfi verði í upphafi aðeins gefið út vegna jarða þar sem liggur fyrir samkomulag milli Landsnets og landeigenda eða Landsnet hefur öðlast umráð yfir framkvæmdasvæði, enda er framkvæmdin framkvæmdaleyfisskyld, sbr. 5. gr. reglugerðar 772/2012 um framkvæmdaleyfi.
Venjuleg skilyrði verði að öðru leyti í framkvæmdaleyfi, svo sem um fyrirkomulag framkvæmda, hún verði í samræmi við umsókn framkvæmdaaðila, samþykkt skipulag, umsögn Skipulagsstofnunar og að gættum almennum skilyrðum.
Berist staðfesting frá Landsneti um að samkomulag hafi náðst við landeigendur eða félagið hafi öðlast heimild til umráðatöku framkvæmdasvæðis til að ráðast í framkvæmdina í samræmi við umsókn um framkvæmdaleyfi og skipulag, skuli skipulags- og byggingarfulltrúi gefa út af hálfu sveitarfélagsins viðauka við útgefið framkvæmdaleyfi, þar sem fram komi að það gildi einnig vegna þeirra jarða eða framkvæmdasvæða sem það á við hverju sinni.
Axel Grettisson, Jónas Þór Jónasson og sveitarstjóri véku af fundi við afgreiðslu þessa liðar.
d) Í lið 5, Skútar/Moldhaugnaháls – beiðni um breytingu á deiliskipulagi (2403019)
Skútaberg ehf. sækir um heimild sveitarstjórnar til breytingar á deiliskipulagi Skúta þar sem byggingarreitur nr. 3 yrði stækkaður og byggingarmagn aukið lítillega. Meðfylgjandi er afstöðumynd unnin af H.S.Á teiknistofu dags. 27.09.2023 sem sýnir stækkun byggingarreits.
Sveitarstjórn samþykkti erindið. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda sjálfs og samþykkti að fallið verði frá grenndarkynningu sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
e) Í lið 6, B. Jensen, Lóni, byggingarreitur fyrir verslun (2403021)
B. Jensen Lóni, óskar eftir að fá skilgreindan byggingarreit undir verslun samanber uppdrátt sem fylgir með erindinu. Í erindinu felst að gerð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi svæðisins.
Sveitarstjórn samþykkti erindið. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda sjálfs og samykkti að fallið verði frá grenndarkynningu sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
f) Í lið 7, Hvammsvegur 3 Hjalteyri, umsókn um frístundahúsalóð (2403022)
Kolbrún Sara Larsen og Hallgrímur Jónsson óska eftir að fá lóðinni Hvammsvegi 3 á Hjalteyri úthlutað.
Sveitarstjórn samþykkti að Kolbrúnu Söru Larsen kt. 100780-5349 og Hallgrími Jónssyni kt. 090782-4019 verði úthlutuð frístundahúsalóðin Hvammsvegur 3 á Hjalteyri, sem er leigulóð.
3. Fundargerð skólanefndar Tónlistarskóla Eyjafjarðar frá 145. fundi
Fundargerðin lögð fram ásamt ársreikningi 2023.
4. Fundargerðir stjórnarfundar og aðalfundar SBE
Fundargerðirnar lagðar fram ásamt ársreikningi 2023.
5. Fundargerð stjórnar SSNE
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerðir stjórnar Norðurorku frá 296. og 297. fundi
Fundargerðirnar lagðar fram.
7. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 946. fundi
Fundargerðin lögð fram.
8. Erindi frá lögreglustjóra, v. Bjarmahlíðar, styrkbeiðni.
Erindið lagt fram.
Sveitarstjórn samþykkti að styrkja Bjarmahlíð. Upphæðin rúmast innan fjárhagsáætlunar.
9. Berghóll B, niðurrif
Lögð fram tilboð frá Furu ehf. og Hringrás ehf. um niðurif, förgun og frágang vegna húsa og lóðarinnar Berghóll B í Lónsbakkahverfi.
Sveitarstjórn samþykkti að ganga til samninga við Hringrás ehf um verkefnið.
10. Lækjarvellir, samningur um úthlutun lóðar
Lögð fram samningsdrög um úthlutun lóðarinnar Lækjarvellir 20.
Afgreiðslu frestað.
11. Tvö erindi frá nemendum Þelamerkurskóla
Lagt fram erindi frá Umhverfisnefnd Þelamerkurskóla þar sem óskað er eftir því að sveitarstjórn beiti sér fyrir því að skólinn fái lífræna tunnu. Einnig var lagt fram erindi frá nemendum í 5. og 6. bekk þar sem óskað er eftir nýjum eplaskera í ávaxtarkassa þeirra þar sem núverandi eplaskeri er ekki að sinna sínum tilgangi lengur.
Sveitarstjórn þakkar fyrir erindin og samþykkti að verða við þeim og kaupa lífræna tunnu og eplaskera.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 15:35