Sveitarstjórn fundur nr. 133
Sveitarstjórn Hörgársveitar
133. fundur
Fundargerð
Mánudaginn 31. janúar 2022 kl.15:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í húsnæði félagsmiðstöðvar í Þelamerkurskóla
Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, María Albína Tryggvadóttir og Jónas Þór Jónasson.
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.
Þetta gerðist:
1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 26.01.2022
Fundargerðin er í 10 liðum og þarfnast 7 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.
a) Í lið 1, Moldhaugar/Skútar, aðal- og deiliskipulag
Kynningartímabili skipulagslýsingar fyrir breytingu á aðalskipulagi vegna framkvæmdaáforma á Moldhaugnahálsi lauk þann 3. janúar sl. og bárust níu erindi á kynningartímabili lýsingarinnar.
Sveitarstjórn samþykkti að unnin verði aðalskipulagstillaga með hliðsjón af athugasemdum sem bárust vegna skipulagslýsingarinnar og að tillagan verði kynnt fyrir almenningi skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samhliða kynningunni fari fram kynning á drögum að endurskoðuðu deiliskipulagi skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, enda liggi fyrir drög að endurskoðuðu deiliskipulagi þar sem brugðist hefur verið við athugasemdum sem fram komu á fundi skipulags- og umhverfisnefndar í desember 2021. Haldinn verði almennur kynningarfundur um skipulag á Moldhaugum/Skútum um miðjan febrúar 2022.
b) Í lið 2, Glæsibær/Hagabyggð, aðal- og deiliskipulag
Kynningartímabili skipulagslýsingar vegna breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi fyrir annan áfanga Hagabyggðar í Glæsibæjarlandi lauk þann 12. janúar sl. og bárust sex erindi á kynningartímabili lýsingarinnar.
Sveitarstjórn samþykkti að unnin verði aðalskipulagstillaga með hliðsjón af athugasemdum sem bárust vegna skipulagslýsingarinnar.
c) Í lið 3, Dalvíkurlína 2, skipulagslýsing
Kynningartímabili skipulagslýsingar fyrir breytingu á aðalskipulagi vegna Dalvíkurlínu 2 lauk þann 19. janúar sl. og bárust 12 erindi á kynningartímabili lýsingarinnar.
Sveitarstjórn samþykkti að unnin verði aðalskipulagstillaga með hliðsjón af athugasemdum sem bárust vegna skipulagslýsingarinnar og að hún sé kynnt fyrir almenningi skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælt er með að umhverfisskýrsla með aðalskipulagsbreytingunni verði unnin sameiginlega fyrir alla lagnaleiðina.
d) Í lið 4, Leikskólalóð, tillaga að deiliskipulagi
Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Lónsbakkahverfis sem felur í sér að lóð leikskólans Álfasteins verði stækkuð, byggingarreitur leikskólabygginga stækkaður og bílastæðum við leikskólann fjölgað.
Sveitarstjórn telur að skipulagstillagan teljist óveruleg breyting með hliðsjónum af viðmiðum sem fram koma í gr. 5.8.2. í skipulagsgreinargerð nr. 90/2013 og samþykkti skipulagstillöguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti að fallið verði frá grenndarkynningu erindisins á grundvelli 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
e) Í lið 5, Hjalteyri, afmörkun lóða
Lögð fram hugmynd að afmörkun lóða fyrir radíóstöð og fiskeldishús úr Verslunarlóðinni á Hjalteyri (L152373) sem Guðmundur H. Gunnarsson hefur unnið að beiðni sveitarfélagsins. Auk þess er lögð fram tillaga að afmörkun lóðar fyrir sumarbústaðinn Kárastaði úr Verslunarlóðinni.
Sveitarstjórn samþykkti að fyrrgreindar lóðir verði skráðar í Þjóðskrá í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að afmörkun. Sveitarstjórn samþykkti að skráðar verði lóðir við Búðargötu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sveitarstjórn samþykkti að fyrrgreindar lóðir verði að skráningu lokinni leigðar til eigenda hlutaðeigandi húsa.
f) Í lið 6, Mið-Samtún, afmörkun lóðar
Lagt fram erindi ásamt uppdrætti frá eiganda Mið-Samtúns þar sem óskað er eftir afmörkun lóðar fyrir íbúðarhús á bújörðinni. Erindinu fylgir uppdráttur frá Búnaðarsamandi Eyjafjarðar dags. 04.01.2022.
Sveitarstjórn samþykkti erindið, enda liggi fyrir skriflegt samþykki eigenda aðliggjandi landeigna vegna lóðarmarka sem sýnd eru á uppdrættinum og kvöð um aðkomu og lagnaleiðir verði þinglýst á umliggjandi land samhliða stofnun lóðar.
g) Í lið 8, Skipulag sorphirðu til framtíðar
Lögð fram ný lög um meðhöndlun úrgangs ofl. Jafnframt var lögð fram fundargerð samráðsfundar sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu um úrgangsmál. Umræður urðu um breytingar á lögum og reglum og skipulag sorphirðu til framtíðar í samræmi við þær.
Sveitarstjórn samþykkti að haldið verði áfram samstarfi við nágrannasveitarfélögin um skipulag úrgangsmála.
2. Fundargerð rekstrar- og framkvæmdanefndar frá 24.01.2022
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 34. fundi
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerðir stjórnar SSNE frá 32. og 33. fundi
Fundargerðirnar lagðar fram.
5. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 905. fundi
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð stjórnar Norðurorku frá 269. fundi
Fundargerðin lögð fram.
7. Fundargerð aukafundar hluthafa Greiðrar leiðar frá 29.12.2021
Fundargerðin lögð fram.
8. Þelamerkurskóli, breyting á skóladagatali
Óskað er eftir breytingu á skóladagatali Þelamerkurskóla er varðar dagsetningu á árshátíð skólans.
Sveitarstjórn samþykkti þá breytingu á skóladagatali Þelamerkurskóla að árshátíð skólans verði 7. apríl í stað 3. febrúar 2022.
9. Varmadæluvæðing
Rætt um frekari aðkomu sveitarfélagsins. Afgreiðslu vísað til næsta fundar sveitarstjórnar.
10. N4, hugmynd að samstarfssamningi
Lögð fram tillaga að samstarfssamningi milli fyrirtækisins og sveitarfélaga á svæðinu.
Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið fyrir sitt leyti en frestar afgreiðslu þess þar til almenn afstaða sveitarfélaganna liggur fyrir.
11. Molta ehf., forkaupsréttur á hlutafé
Fyrir liggur kaupsamningur þar sem Fjárfestingarfélagið Urðir ehf. kaupir af Tækifæri ehf. eignarhlut í Moltu ehf.(Bæði félög eru í eigu KEA). Samkvæmt samþykktum Moltu ehf eiga aðrir hluthafar forkaupsrétt á hlutafé í Moltu.
Sveitarstjórn samþykkti að nýta ekki forkaupsrétt Hörgársveitar á hlutafénu.
12. Húsnæðisáætlun Hörgársveitar 2022
Lögð fram tillaga að húsnæðisáætlun til umræðu og afgreiðslu, en tillagan hefur verið yfirfarin af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Sveitarstjórn samþykkti húsnæðisáætlunina eins og hún liggur fyrir.
13. Lög um farsæld barna, samþætting þjónustu, innleiðingarferli
Lagt fram minnisblað varðandi samstarf um innleiðinguna. Sveitarstjóri fór yfir stöðu málsins.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vinna áfram að málinu í samstarfi við nágranna-sveitarfélögin, í takt við umræður á fundinum.
14. Laun sveitarstjórnar og nefnda
Sveitarstjórn samþykkti að laun sveitarstjórnarfulltrúa og nefndarmanna frá 1. janúar
2022, verði sem hér segir:
Oddviti: 21% af þingfararkaupi á mánuði og 4,5% af þingfararkaupi fyrir setinn fund.
Aðrir fulltrúar í sveitarstjórn: 7,5% af þingfararkaupi á mánuði og 3% af þingfarar-kaupi fyrir setinn fund
Varamenn í sveitarstjórn: 3% af þingfararkaupi fyrir setinn fund
Formaður nefndar: 4,5% af þingfararkaupi fyrir setinn fund
Aðrir nefndarmenn: 3% af þingfararkaupi fyrir setinn fund.
15. Fundardagar sveitarstjórnar jan. – maí 2022
Lögð fram fundaáætlun sveitarstjórnar janúar til maí 2022.
16. Samþykktir um stjórn Hörgársveitar breytingar, fyrri umræða
Sveitarstjórn samþykkti að gerðar verði eftirfarandi breytingar á gildandi samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar:
5. gr.
- 1. Að sjá um að lögbundnar skyldur séu ræktar og hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélagsins sbr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga.
- 8. Að samþykkja og hafa eftirlit með gerð og framkvæmd samstarfsverkefna og þjónustusamninga sbr. IX. Kafla sveitarstjórnarlaga.
14. gr.
Þátttaka með rafrænum hætti.
Sveitarstjórnarmönnum/nefndarmönnum í sveitarstjórn, nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins er heimilt að taka þátt í fundi með rafrænum hætti, séu þeir staddir í sveitarfélaginu eða í erindagjörðum innanlands á vegum þess. Fer um framkvæmd slíkra funda skv. leiðbeiningum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.
40. gr.
Í A.-lið 40. gr.
- 3. Félagsmála- og jafnréttisnefnd. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 5. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og skv. 13. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 152/2020. Félagsmálanefnd fer jafnframt með stjórn og samræmingu húsnæðismála sveitarfélagsins sbr. 6. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998.
Í B.-lið 40. gr.
- 2. Þing SSNE. Tveir aðalmenn og tveir varamenn.
- 3. Fellur út og aðrir liðir færast upp um einn tölulið
6. Fellur út og aðrir liðir færast upp um einn tölulið
11. Fellur út og aðrir liðir færast upp um einn tölulið
9. Almannavarnarnefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi-eystra. Einn aðalmaður og einn varamaður.
Í C.-lið 40. gr.
10. Fellur út og aðrir liðir færast upp um einn tölulið
Sveitarstjórn samþykkti að vísa samþykktinni með áorðnum breytingum til síðari umræðu.
17. Trúnaðarmál
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 19:30