Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 3
Mánudaginn 13. desember 2010 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Sílastaðir 2, deiliskipulag
Tillaga að deiliskipulagi vegna ferðaþjónustuhúsa að Sílastöðum 2 var auglýst 25. október 2010, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 22. september 2010 og ákvörðun sveitarstjórnar 20. október 2010. Athugasemdafrestur rann út 8. desember 2010. Engin athugasemd barst.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.
2. Aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026, breyting
Tekin fyrir að nýju tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hörgárbyggðar (sbr. fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 22. september 2010, 5. liður), sem lýtur að breyttri legu Blöndulínu 3 að hluta, breyttri legu Hörgárdalsvegar að hluta og lítillegri stækkun verslunarsvæðis við Lónsá, sem var auglýst 1. júní 2010 með athugasemdafresti til 16. júlí 2010.
Skv. ákvörðun sveitarstjórnar Hörgárbyggðar 24. mars 2010 og að fenginni heimild Skipulagsstofnunar, sbr. bréf, dags. 21. apríl 2010, var breytingartillaga við aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026 auglýst og óskað eftir athugasemdum við hana, ef einhverjar væru. Hún var kynnt á heimasíðu sveitarfélagsins og í fréttabréfi þess 23. mars 2010, sbr. 1. mgr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga. Breytingartillagan lá frammi á skrifstofu Hörgárbyggðar/Hörgársveitar frá 4. júní til 2. júlí 2010 og var aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins á sama tíma. Athugasemdafrestur við hana var til 16. júlí 2010. Auglýsingin birtist á eftirfarandi stöðum:
o Fréttabréf Hörgárbyggðar, 1. júní 2010
o Lögbirtingablaðið, 1. júní 2010
o Heimasíða Hörgárbyggðar, 1. júní – 16. júlí 2010
o Dagskráin, 2. júní 2010
Lagðar voru fram umsagnir frá Akureyrarbæ, Fornleifavernd ríkisins, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Landsneti hf., Umhverfisstofnun og Vegagerðinni. Í þeim eru ekki gerðar athugasemdir við breytingartillöguna. Heilbrigðiseftirlit og Umhverfisstofnun benda á að gæta skuli fyllstu varúðar við framkvæmdir innan vatnsverndarsvæða. Þá var lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun þar sem fram kemur að umhverfisskýrsla tillögunnar þurfi að vera ítarlegri en hún var í auglýsri breytingartillögu.
Lögð voru fram eftirtalin bréf, sem fela í sér athugasemdir við breytingartillöguna:
· Lex lögmannsstofa (f.h. níu landeigenda), dags. 14. júlí 2010
· Brynjólfi Snorrasyni, dags. 16. júlí 2010
· Einari Kr. Brynjólfssyni, dags. 16. júlí 2010
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ofangreind breytingartillaga á aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026 verði samþykkt eins og hún liggur fyrir með þeim breytingum á umhverfisskýrslu sem Skipulagsstofnun telur nauðsynlegar og að framkomnum formlegum athugasemdum við hana verði svarað sem segir:
Lex lögmannsstofa, dags. 14. júlí 2010
Í athugasemdinni er mótmælt legu Blöndulínu 3, þar sem hún fari yfir landareignir umbjóðenda bréfritara og valdi sjónmengun í einstökum náttúruperlum.
Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Blöndulína 3 liggi um sveitarfélagið. Breytingartillagan snýst því ekki um hvort gert er ráð fyrir línunni í aðalskipulagi eða ekki. Hún er gerð til að koma til móts við óskir um að línan liggi fjær bæjum en gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi. Nefndin telur mikilvægt að við endanlega staðsetningu línunni verði leitast við að draga eins og hægt er úr sjónmengun vegna hennar.
Brynjólfur Snorrason, dags. 16. júlí 2010
Í athugasemdinni er gerð grein fyrir samskiptum bréfritara við Landsnet hf. um Blöndulínu 3. Þau snérust fyrst og fremst um hönnun væntanlegs mannvirkis, en einnig að hluta um gerð matsáætlunar fyrir umhverfismat framkvæmdarinnar.
Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Blöndulína 3 liggi um sveitarfélagið og því snýr efni athugasemdarinnar ekki að breytingartillögunni sem er breytt lega línunnar að hluta. Gera má ráð fyrir að í framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins fyrir línunni verði ákvæði um hönnun hennar.
Einar Kr. Brynjólfsson, dags. 16. júlí 2010
Í athugasemdinni er lagst gegn lagningu Blöndulínu 3 yfir land bréfritara, þar sem hún sé skaðleg umhverfinu og spilli heildaryfirliti sveitarinnar en bréfritari tekur fram að hann sé ekki á móti uppbyggingu á svæðinu.
Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Blöndulína 3 liggi um sveitarfélagið og því snýr efni athugasemdarinnar ekki að breytingartillögunni sem er breytt lega línunnar að hluta. Með tillögunni er komið til móts við óskir um að línan liggi fjær bæjum í Kræklingahlíð en gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi. Gera má ráð fyrir að í framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins fyrir línunni verði ákvæði um hönnun hennar.
3. Aðalskipulag Arnarneshrepps 1997-2017, breyting
Tekin fyrir að nýju tillaga að breytingu á aðalskipulagi Arnarneshrepps (sbr. fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 22. september 2010, 6. liður), sem lýtur að því að svæði fyrir stóriðnað, sem kennt er við Dysnes, verði minnkað og skilgreiningu þess breytt, var auglýst 9. júní 2010 með athugasemdafresti til 22. júlí 2010.
Skv. ákvörðun hreppsnefndar Arnarneshrepps 20. apríl 2010 og að fenginni heimild Skipulagsstofnunar, sbr. bréf, dags. 28. maí 2010, var breytingartillaga við aðalskipulag Arnarneshrepps 1997-2017 auglýst og óskað eftir athugasemdum við hana, ef einhverjar væru. Hún var kynnt á heimasíðu sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga. Breytingartillagan lá frammi á skrifstofu Hörgársveitar frá 10. júní til 8. júlí 2010 og var aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins á sama tíma. Athugasemdafrestur við hana var til 22. júlí 2010. Auglýsingin birtist á eftirfarandi stöðum:
o Lögbirtingablaðið, 9. júní 2010
o Heimasíða Arnarneshrepps, 9. júní – 25. júlí 2010
o Dagskráin, 9. júní 2010
Lagðar voru fram umsagnir frá Akureyrarbæ, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Landsneti hf., Siglingastofnun, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni. Í þeim eru ekki gerðar athugasemdir við breytingartillöguna.
Lagt fram bréf frá Rétti – Adalsteinsson & Partners fyrir hönd Þórðar Þórðarsonar, sem felur í sér athugasemd við breytingartillöguna.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ofangreind breytingartillaga á aðalskipulagi Arnarneshrepps 1997-2017 verði samþykkt eins og hún liggur fyrir og að framkominni formlegri athugasemd við hana verði svarað sem segir:
Í athugasemdinni eru rakin samskipti umbjóðanda bréfritara við hreppsnefnd Arnarneshrepps um skipulagsmál svæðisins. Þar kemur m.a. fram að ekki er gerð athugasemd við breytingartillöguna að því leyti að hún gerir ráð fyrir að mörk iðnaðarsvæðis færast út að landamerkjum Hvamms, en bent er á að dráttur hafi orðið á meðferð málsins. Ennfremur segir að skilgreining á landnotkuninni “opið svæði til útivistar, beitar- og ræktarlönd“ sé ekki að finna í skipulagsreglugerð. Þá er í athugasemdinni gerð grein fyrir fyrirhuguðum undirbúningi að frístundabyggð, fiskeldi og íbúðarhússbyggingu á jörðinni Hvammi og sett fram sú skoðun að ganga skuli til samninga við eigendur lands áður sem gert er ráð fyrir í skipulagi að þar verði tiltekin atvinnustarfsemi.
Breytingartillagan gerir ráð fyrir að komið verði til móts við sjónarmið umbjóðanda bréfritara um færslu á mörkum skipulagssvæðsins að mörkum landareignar hans. Í henni eru notaðar þær skilgreiningar á landnotkun, sem gilda í aðalskipulagi Arnarneshrepps 1997-2017, og byggðu á skipulagslögum nr. 19/1964 og skipulagsreglugerð nr. 318/1985 með breytingu á henni nr. 178/1992.
4. Skútar/Moldhaugar, deiliskipulag
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Skúta og landspildu úr landi Moldhauga. Henni fylgir bréf, dags. 29. nóvember 2010, frá Skútabergi ehf. þar sem gerð er grein fyrir deiliskipulagstillögunni og jafnframt óskað eftir að gert verði breyting á aðalskipulagi að því er varðar þann hluta Tréstaðalands, sem liggur næst framangreindu svæði. Tillagan er eftir HSÁ teiknistofu og er dagsett 7. desember 2010.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir Skúta og landspildu úr landi Moldhauga verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998. Jafnframt samþykkti nefndin að óskað verði eftir að deiliskipulagstillögunni fylgi skýringarmynd í þrívídd sem sýnir m.a. fyrirhugaðar húsgerðir á svæðinu og að áskilinn verði réttur til að leggja fram breytingartillögur við tillöguna áður en hún kemur til lokaafgreiðslu.
Nefndin samþykkti að leggja til að hafinn verði undirbúningur að gerð tillögu að breytingu á aðalskipulag vegna landspildu úr landi Tréstaða, sem er sunnan Hringvegar.
5. Skútar, framlenging framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku
Lagt fram tölvubréf, dags. 3. desember 2010, þar sem Skútaberg ehf. sækir um framlengingu á áður útgefnu rannsóknarleyfi vegna efnistöku í landi Skúta/Moldhauga.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að áður útgefið rannsóknaleyfi vegna efnistöku í land Skúta/moldhauga verði framlengt til 30. júní 2012. Heimilað efnismagn verði óbreytt frá fyrri leyfisveitingu, þ.e. 15.000 m3.
Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:30.