Fræðslunefnd fundur nr. 49

19.03.2024 16:30

Þriðjudaginn 19. mars 2023 kl.16:30 kom fræðslunefnd Hörgársveitar saman til fundar í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn voru, Jóhanna María Oddsdóttir formaður, Sigurbjörg L Auðbjörnsdóttir varaformaður og Ásgeir Már Andrésson fulltrúar í nefndinni og auk þeirra, Hugrún Ósk Hermannsdóttir leikskólastjóri, Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir skólastjóri, Sigríður Gréta Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna Álfasteini, Eva Hilmarsdóttir fulltrúi foreldra Álfasteini, Jónína Sverrisdóttir fulltrúi kennara Þelamerkurskóla, Inga Bryndís Bjarnadóttir fulltrúi foreldra Þelamerkurskóla og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Málefni Álfasteins:

1. Skýrsla leikskólastjóra
Í skýrslu leikskólastjóra kom m.a. fram að veturinn hafi gengið vel í heild sinni. Talsvert hefur verið um veikindaleyfi starfsmanna. Lögð hefur verið áhersla á að æfa börnin í sjálfshjálp og valdeflingu. Í haust er stefnt að þátttöku í Blæ, forvarnarverkefni Barnaheilla.

2. Stytting vinnuvikunnar – áhrif / hvernig gengur
Leikskólastjóri fór yfir fyrirkomulag á styttingu vinnutíma. Umræða um 5 vikna sumarlokun eða lokunardaga yfir skólaárið.

3. Niðurstöður úr foreldrakönnun 2024 / foreldrakönnun á hverju ári?
Leikskólastjóri kynnti niðurstöður. Mjög góð þátttaka var í könnuninni og ánægja með starfið. Umræða um tíðni foreldrakannana og hvort þær ættu ekki að vera á hverju ári.

4. Fjöldi barna fram að sumarfríi og í haust
Fram kom að 61 barn var í leikskólanum fyrri hluta vetrar og verða þau orðin 68 í vor. 12 börn fara í grunnskóla og 7 börn koma inn í haust og 4 um áramót og verða því þá aftur 67. Farið var yfir fjölda í hverjum árgangi.

5. Breyting á starfsmannahópnum í haust
Leikskólastjóri kynnti að starfsmenn væru nú 25. Breytingar verða á starfsmannahaldi í haust m.a. vegna fæðingaorlofa.

Sameiginleg málefni:

6. Tillaga um breytingu á gjaldskrám 2024 í tengslum við kjarasamninga - kynning
Kynnt var, að í tengslum við kjarasamninga verði lagt til að gjaldskrár er varða leikskóla og grunnskóla yrðu lækkaðar úr því að hækka um 4,9% milli áranna 2023 og 2024 í að hækkunin verði um 3,5%. Breytingin taki gildi 1. apríl 2024.

7. Skóladagatal Álfasteins 2024 – 2025
Lögð fram drög að skóladagatali Álfasteins 2024 – 2025. Afgreiðsla á næsta fundi.

8. Skóladagatal Þelamerkurskóla 2024-2025.
Lögð fram drög að skóladagatali Þelamerkurskóla 2024 – 2025. Afgreiðsla á næsta fundi.

9. Hugmynd að reglulegum föstum tíma fyrir fræðslunefndarfundi
Leikskólastjóri kynnti þá hugmynd að festa fundartíma fræðslunefndar. Formanni falið að skoða málið og koma með tillögu á næsta fundi.

10. Skólastefna Hörgársveitar
Unnið verði að endurskoðun skólastefnu á þessu ári.

Málefni Þelamerkurskóla:

11. Skýrsla skólastjóra
Í skýrslu skólastjóra kom m.a. fram að starfið hefur gengið mjög vel. Nemendur eru nú 97 en enginn nemandi hefur komið nýr í skólann eftir að skólaárið hófst, sem er óvenjulegt. Í vor útskrifast 14 nemendur og 12 koma úr leikskóla í haust og búast má við öðrum nýjum nemendum fyrir haustið. Til skoðunar er að breyta skipulagi og tímalengd skóladaga. Ný námsrými verða tekin í notkun á efstu hæð heimavistarálmu í haust.

12. Mat á tímabundinni breytingu á nýtingu stjórnendahlutfalls við ÞMS
Skólastjóri fór yfir reynsluna af skipulagi stjórnunar á þessu skólaári, tækifærum til úrbóta og ósk um framhaldið. Farið verður yfir tillögurnar og þær metnar m.a. með tilliti til kostnaðar.

13. Frumvarp til laga um inngildandi menntun
Skólastjóri kynnti frumvarpsdrögin.

14. Ráðning skólastjóra í eitt ár í afleysingum, umsögn fræðslunefndar
Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir skólastjóri verður í námsleyfi skólaárið 2024-2025 og var auglýst eftir skólastjóra til afleysinga þann tíma. Sex umsóknir bárust.
Fræðslunefnd mælir með því við sveitarstjórn að Anna Rósa Friðriksdóttir verði ráðin skólastjóri Þelamerkurskóla til afleysinga frá 1. ágúst 2024 til 31.júlí 2025.

15. Hljóðver í skólanum
Ásgeir Már Andrésson lagði til að unnið verði að því að koma upp hljóðveri í skólanum.

16. Umferðarhraði við Þelamerkurskóla
Fræðslunefnd mælist til þess að skorað verði enn og aftur á Vegagerðina að sjá til þess að umferðarhraði við Þelamerkurskóla verði lækkaður og umferðaröryggi við skólann verði bætt nú þegar. Rökstudd áskorun verði send á forstjóra Vegagerðarinnar og Innviðaráðherra.

 

Fundi slitið kl.18:55