Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 92
Miðvikudaginn 16. ágúst 2006 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðarsaman til síns 3. fundar í Þelamerkurskóla.
Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.
Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega bauð hann nýráðinn sveitarstjóra velkominn til starfa.
Bætt hefur verið við þrem atriðum á dagskrána þ.e. smölun Hafrárdals og Öxnhólsfjalls, fundargerð leikskólanefndar 14. ágúst 2006 og Myrká, umsögn um sölu jarðarinnar
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
1. Ráðningarsamningur sveitarstjóra
Guðmundur Sigvaldason, nýráðinn sveitarstjóri Hörgárbyggðar, gerði stuttlega grein fyrir sjálfum sér og sínum störfum. Fyrir lágu drög að ráðningarsamningi við hann og var oddvita falið að undirrita ráðningarsamninginn fyrir hönd Hörgárbyggðar.
2. Málefni Skjaldarvíkur
Lagt var fram til kynningar afrit af gjafabréfi Stefáns Jónssonar fyrir Ytri- og Syðri-Skjaldarvík, dags. 22. júní 1965. Þar kemur fram að Stefán gaf Akureyrarbæ Ytri- og Syðri-Skjaldarvík ásamt Elliheimilinu í Skjaldarvík án kvaða, fyrir utan eigin framfærslu. Það var þó ósk hans að elliheimili verði rekið áfram á jörðinni, en ef það yrði einhvern tíma óframkvæmanlegt, var það ósk hans að þar verði rekið heimili eða stofnun í þágu líknarstarfsemi. Nú liggur fyrir að Akureyrarbær hyggst leggja niður starfsemi elliheimilis í Skjaldarvík nú í haust.
Eftirfarandi bókun var gerð:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tekur undir þau sjónarmið núverandi starfsmanna Elliheimilisins í Skjaldarvík, að rekstur elliheimilis í Skjaldarvík sé mjög heppilegur fyrir einstaklinga með minnisglöp og skorar því á bæjarstjórn Akureyrarbæjar að endurskoða þá afstöðu sína að leggja niður starfsemi Elliheimilisins í Skjaldarvík, ekki síst í ljósi þess að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hafa verið að myndast.
3. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga
Fyrir liggur að Lánasjóður sveitarfélaga er reiðubúinn að veita sveitarsjóði byggingarlán að upphæð kr. 20 milljónir til 10 ára á 4,40% vöxtum (þó breytilegum).
Eftirfarandi bókun var gerð:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 20.000.000 til 10 ára, í samræmi við skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til að standa straum af kostnaði við viðbyggingu leikskólans Álfasteins, sbr. 2. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004.
Jafnframt er sveitarstjóra, Guðmundi Sigvaldasyni kt. 140454-4869, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hörgárbyggðar að undirrita lánssamning eða skuldabréf við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita, og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.
4. Landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga
Bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um 20. landsþing sambandsins sem verður 27.-29. september 2006 á Akureyri. Hörgárbyggð á rétt á að senda einn fulltrúa á landsþingið. Sveitarstjóri verður aðalmaður og oddviti til vara.
5. Fundargerð búfjáreftirlitsnefndar 21. júní 2006
Í fundargerðinni er lagt til að þóknun til búfjáreftirlitsmanns hækki um 3% vegna viðbótarverkefnis sem felst í að sannreyna fjölda sauðfjár. Kostnaður Hörgárbyggðar tímabilið 18. október 2005 til 5. maí 2006 er áætlaður kr. 410.151.
Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
6. Fundargerð fjallskilanefndar 26. júní 2006
Lagt er til að viðmiðunarverð fasteignamats, fyrir þá sem eru undanþegnir fjallskilum fyrir land hækki úr kr. 200.000 í kr. 250.000, að greiðsla fyrir gangnadagsverk hækki úr kr. 9.000 í kr. 10.000 og að innheimtar verði kr. 15.000 fyrir hvert gangnadagsverk hjá þeim sem ekki sinna sinni gangnaskyldu.
Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
7. Fundargerð héraðsnefndar 5. júlí 2006, ásamt endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2006
Fundargerðin og fjárhagsáætlunin afgreiddar án athugasemda.
8. Fundargerð bygginganefndar 7. júlí 2006
Erindi nr. 14 og 15 varða Hörgárbyggð, þ.e. erindi Hörgárbyggðar um viðbyggingu við leikskólann Álfastein og erindi frá Akureyrarbæ um að breyta byggingu, í landi Skjaldarvíkur, sem nú er íbúð og vélageymsla í skólahúsnæði, skv. meðf. teikningu frá AVH. Bygginganefnd samþykkti bæði erindin fyrir sitt leyti.
Fundargerðin afgreidd án athugasemda.
9. Refavinnsla í Öxnadal
Á fundi sveitarstjórnar 21. júní 2006 var frestað afgreiðslu á beiðni dags. 29. maí sl. frá Vignis Stefánssonar og Hjörleifs Halldórssonar um áframhaldandi ráðningu við refavinnslu í Öxnadal.
Lagt fram bréf frá Hannesi Haraldssyni og Helga Jóhannessyni, dags. 8. ágúst 2006, þar sem þeir sækja um að annast refavinnslu á ofangreindu svæði. Málinu frestað til næsta fundar en sveitarstjóra og oddvita falið að vinna að málinu í anda umræðnanna á fundinum og leggja fyrir næsta sveitarstjórnarfund.
10. Sparisjóður Norðlendinga, stofnfjáraukning
Bréf stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga, dags 27. júlí 2006, þar sem lýst er þeirri ákvörðun stjórnarinnar að hækka stofnfé hans um 40.000.000 kr. að nafnverði í september 2006. Hækkunin er tíföld. Þessi stofnfjáraukning er til viðbótar stofnfjáraukningunni sem fjallað var um á fundi sveitarstjórnar 3. maí 2006.
Lagt fram til kynningar.
11. Drög að frumvörpum til laga um mannvirki og um skipulag
Bréf umhverfisráðuneytisins, dags. 30. júní 2006, þar sem gefinn er kostur á að koma framfæri athugasemdum við ný drög að frumvörpum til laga um mannvirki og um skipulag. Ennfremur fylgja með yfirlit yfir helstu nýmæli beggja frumvarpsdragana. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemdir við drögin.
12. Smölun Hafrárdals og Öxnhólsfjalls
Hermann Jónsson, Barká, sækir með bréfi, dags. 14. ágúst 2006, um leyfi til að smala Hafrárdal og Öxnhólsfjall í 34. viku.
Eftirfarandi bókun var gerð:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar heimilar Hermanni Jónssyni að smala sitt eigið land í 34. viku, en samþykkir ekki að hann smali annarra manna lönd án skriflegs leyfis frá landeigendum.
13. Fundargerð leikskólanefndar 14. ágúst 2006
Fundargerðin lögð fram og rædd. Liðir 1 og 3 verða athugaðir nánar.
14. Myrká, umsögn um sölu jarðarinnar
Ábúendur Myrkár, Þórólfur S. Ármannsson og Þórunn Ármannsdóttir, hafa óskað eftir að kaupa jörðina af Ríkissjóði. Óskað er umsagnar sveitarstjórnar um málið.
Eftirfarandi bókun var gerð:
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar mælir með því að núverandi ábúendur Myrkár verði eigendur hennar.
15. Bréf frá Bændasamtökum Íslands
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 23:35.