Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 28
Aukafundur haldinn í Hlíðarbæ með stjórn Sorpeyðingar Eyjafjarðar miðvikudagskvöldið 22. janúar 2003 kl. 20:00. Allir sveitarstjórnarmenn voru mættir.
1. Jakob Björnsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna og kynnti frummælendur.
2. Guðmundur Sigvaldason flutti stutt erindi um lög um úrvinnslugjald sem samþykkt voru á Alþingi 13. desember 2002. Guðmundur dreifði síðan bæklingi um lögin og um sorpætlun Eyjafjarðar og óskaði eftir að sveitarstjórnarmenn kynntu sér málin.
3. Björn Jóhann Björnsson, verkfræðingur hjá Stuðli verkfræði- og jarðfræðiþjónustunni, kynnti framlagða skýrslu, sem hann hefur unnið fyrir Sorpsamlag Eyjafjarðar, um hugsanlega urðunarstaði og kynnti niðurstöður. Niðurstaðan er sú að það virðist mun hagkvæmari kostur að urða sorp á Gásum heldur en á Bjarnarhól að teknu tilliti til jarðvegs, vatnasvæða og fjarlægðar frá Akureyri. Í Bjarnarhóli eru grunnur mýrarjarðvegur og þar vex sjaldgæf jurt, maríulykill. Einnig er óhagkvæmt vegalengd frá Akureyri og skortur á fylliefnum.
4. Almennar umræður urðu um skýrsluna og fleira. Einnig kom fram að í náinni framtíð verður um stóraukna endurvinnslu inni á heimilum að ræða og er unnið að reglugerð vegna þessa, þar sem sveitarfélögum verður gert skylt að flokka allt sorp. Stjórnarmenn Sorpeyðingar Eyjafjarðar þökkuðu síðan fyrir góðan fund og yfirgáfu staðinn.
Sveitarstjórnarmenn héldu síðan fundinum áfram. Athafnamenn í Reykjavík fyrirhuga að kaupa allar byggingar í Skjaldarvík og setja þar upp 15-20 leiguíbúðir. Óskað er eftir að sveitarstjórn gefi vilyrði fyrir því að slík starfsemi verði samþykkt. Tekið var jákvætt í erindið.
Oddviti upplýsti að leikskólastjóri hafi tekið inn barn úr Arnarneshreppi, 1½ árs og neitar oddviti Arnarneshrepps að greiða framlag hreppsins með barninu þar sem ekki hafi verið leitað eftir samþykki fyrir greiðslunni áður en barnið fékk dvalarpláss. Málinu vísað til næsta sveitarstjórnarfundar.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:00.
Birna Jóhannesdóttir, fundaritari