Vígsla Álfasteins
Vígsla á nýjustu viðbyggingu leikskólans Álfasteins fór fram laugardaginn 30. september síðastliðinn, sveitungum og velunnurum leikskólans var boðið að koma og skoða leikskólann. Klippt var á borða og haldnar ræður að tilefninu, boðið var uppá léttar veitingar og fólki boðið að skoða leikskólann ásamt listaverkum barnanna sem voru víða á veggjum skólans að ræðum loknum.
Leikskólinn Álfasteinn er nú orðinn 4ra deilda leikskóli, húsnæðið tæpir 900m2 sem býður uppá pláss fyrir 90 börn. Ljósálfadeild er nýjasta deildin og er hún ungbarnadeild. Aðrar deildir eru Álfadeild, Trölladeild og Dvergadeild. Þess má geta að þetta var jafnframt fjórða stækkun leikskólans en hann var fyrst opnaður árið 1995 og var þá pláss fyrir um 17 börn. Útisvæði leikskólans hefur einnig verið tekið í gegn, stækkað og bætt. Nefna má t.d. afgirt ungbarna leiksvæði með mjúku undirlagi þar sem eru rólur, rennibrautir og sandkassi svo þau allra minnstu geti leikið sér í öruggu umhverfi. Á aðal leiksvæðinu eru komnar nýjar rólur svo fleiri geti rólað sér í einu einnig nýr kastali, buslustöð, hjólastígur og önnur leiktæki.
Með ört vaxandi sveitarfélagi þarf að bæta innviði og erum við stolt af þeim glæsilega leikskóla sem við höfum í Hörgársveit.