Umhverfisvika í Hörgársveit

Umhverfisvika verður haldin í Hörgársveit vikuna 2.-10. júní. Þessa daga eru íbúar hvattir til að huga að umhverfi sínu, snyrta, fegra, mála og þrífa.

Í vikunni verður einnig hugað að öðrum þáttum sem tengjast umhverfismálum. Fyrirlestrar, námskeið, leikþættir og ýmsar kynningar verða í boði. Vikunni lýkur með húllumhæi við Þelamerkurskóla föstudaginn 10. júní kl. 14-17.

Timbur- og málmagámum verður komið fyrir á fjórum stöðum:

Við Mela, Hlíðarbæ, Hof og á Hjalteyri. Að auki er gámur fyrir garðaúrgang á Hjalteyri.

 

Þeir Þóroddur og Bjarni verða með fróðlega og skemmtilega uppákomu sem nefnist Fjöllin og flóran á miðvikudaginn kl.14 við Eggertsfjós á Möðruvöllum. 

Á fimmtudaginn 9. júní heldur Arnór Sigfússon fuglafræðingur erindi um minkaveiðiátakið 2007-2010 í Leikhúsinu á Möðruvöllum kl. 20:30.

Lokahátíðin á föstudaginn hefst við Þelamerkurskóla kl. 14.

Norðurorka kynnir jarðhitaleit í Hörgársveit, Hjördís og Silla selja fjölærar plöntur og gefa góð ráð, Leikfélag Hörgdæla fremur umhverfisverk sem er einkum ætlað börnum, Guðmundur Sigvaldason leiðbeinir um moltugerð.

Það verður heitt í kolunum og börnum boðið upp á pylsu og eitthvað gott að drekka. Öllum er að sjálfsögðu frjálst að koma með ket eða annað til að leggja á grillið.

Að húllumhæinu loknu er kjörið að fjölmenna í sundlaugina.

 

Húsasmiðjan styður við átakið með því að veita íbúum sveitarfélagsins sérstakan afslátt á málningu, garðplöntum og fleiru þessa viku.