Tíðindi dagsins
Í framhaldi af fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar í gær 16.12.2019, setti ég mig í samband við Tryggva Þór Haraldsson forstjóra RARIK strax í morgun.
Hann brást einstaklega vel við og var mættur hér á skrifstofuna hjá mér í heimsókn kl. 14:00 í dag og fullvissaði mig um, að í það minnsta önnur loftlínan í Hörgárdal sem brást, myndi verða lögð af og jarðstrengur lagður þar í staðinn, eins fljótt og nokkur möguleiki er á því. Gott að fá slík tíðindi. Eftir stuttan fund okkar hér fórum við Jonni með hann hringinn í dalnum þar sem línur brustu og voru þá RARIK menn að störfum við að hreinsa klaka af línunni milli Fornhaga og Lönguhlíðar sem var að sligast og í bráðri hættu að slitna eða staurar að brotna. Rafmagn var að sjálfsögðu tekið af á meðan þessi aðgerð var og var rafmagnslaust í rúma þrjá tíma. Nú er rafmagn komið á að nýju. Tíðindi dagsins eru þau að við treystum því að við förum við ekki inn í annan vetur með ótryggt rafmagn vegna þess að við höfum ófullnægjandi loftlínur til að treysta á til að fá eitthvert rafmagn. Heldur fáum við í það minnsta lágmarks rafmagnstrengi RARIK í jörðu, þannig að tryggður er sá kostur að rafmagn geti farið um alla Hörgársveit í jarðstrengjum.