Þorrablót í uppsiglingu
07.01.2013
Undirbúningur fyrir þorrablótið stendur nú sem hæst. Útsendarar þorrablótsnefndar hafa sést út um alla sveit með kvikmyndatökuvélar og mun þeirri vinnu ekki lokið.
Veislustjóri hefur verið ráðinn sunnan úr Borgarfirði og er það enginn annar en sjónvarpshetjan Gísli Einarsson.
Hljómsveitin er heldur ekki af verri endanum, það eru hinir margrómuðu Veðurguðir með Ingó í broddi fylkingar.
Þorrablótið verður haldið í Íþróttahúsinu á Þelamörk og verður þetta í fyrsta sinn sem það er gert. Þessa dagana er unnið að breytingum á Íþróttahúsinu sem gera samkomuhald af þessu tagi mögulegt.
Þorrablótið verður haldið laugardaginn 9. febrúar. Menn og konur eru hvött til að taka kvöldið frá en miðasala hefst um mánaðamótin.