Steinunn er meðal þeirra spretthörðustu
Steinunn Erla Davíðsdóttir í Umf. Smáranum keppti á Íslandsmeistaramóti unglinga (MÍ 15-22 ára ) um nýliðna helgi í 60 m hlaupi og 200 m hlaupi. Hún keppti í 15-16 ára flokki og náði mjög góðum árangri. Steinunn vann silfur í 60 m hlaupi (8,28 sek) og í 200 m hlaupi á persónulegri bætingu (26,64 sek). Steinunn Erla hefur æft gríðarlega vel að undanförnu og er búin að skipa sér meðal fljótustu kvenna á landinu. Hún tekur einmitt þátt í Íslandsmeistaramóti fullorðinna um næstu helgi. Þá hefur Steinunni verið boðið að taka þátt í opna danska meistaramótinu sem fram fer í Skive í Danmörku um næstu mánaðamót. Á MÍ 15-22 ára náði UMSE 7. sæti í heildarstigakeppninni sem er besti árangur UMSE í langan tíma. Þjálfari UMSE í frjálsum íþróttum er Ari H. Jósavinsson. Hann hefur náð mjög góðum árangri með keppnislið sitt á undanförnum misserum og spennandi verður að fylgjast með því á næstu mánuðum og í sumar.