Sorpmál

 

Í þriðja sinn á yfirstandandi kjörtímabili hefur Sorpeyðing Eyjafjarðar bs. leitast eftir því að fá stað til að urða sorp Eyfirðinga allra í Hörgárbyggð og sent erindi til sveitarstjórnar þar um.  Jafn oft hefur meirihluti sveitarstjórnarmanna í Hörgárbyggð hafnað erindinu.  Sorpsamlagið hefur einu sinni leitað til annars sveitarfélags með sama erindi á þessu tímabili, nú fyrir skömmu og fekk einnig höfnun.

Þeir þrír staðir í Hörgárbyggð sem um getur eru:

Gásir, í um 500 metra fjarðlægð frá rústum Gásakaupstaðar, þar sem uppgröftur á fornminjum að einum merkasta verslunarstað Evrópu á fyrri öldum hefur staðið yfir.  Þar blasa við tækifæri til menningartengdar ferðaþjónustu auk þess sem staðurinn hefur sögulegt gildi fyrir fræðimenn af ýmsum toga.

Skútar, sem er eyðijörð í eigu sveitarfélagsins, en að hluta til er jörðin leigð til lengri tíma.  Skútar eru ofan þjóðvegar 1 sunnan Moldhaugaháls rétt við vatnsverndarsvæðið, þar sem Akureyringar ásamt íbúum í grenndinni fá sitt neysluvatn.  Langt er til sjávar og jörðin liggur hátt í landinu.  Búskapur er á nágrannajörðunum og Þelamerkurskóli skammt undan.

Þriðji staðurinn var svo Skjaldarvík.  Raunar var ætlun Sorpeyðingarinnar að fá land á nágrannajörðinni Glæsibæ líka en bóndinn þar neitaði því alfarið enda um að ræða skógræktarland og sumarbústaðasvæði.

Í erindi Sorpsamlagisins til sveitarstjórnar Hörgárbyggðar, var svæðið sem það vildi láta rannsaka sem urðunarstað, alfarið í landi Skjaldarvíkur, fast við landamerkin að Glæsibæ. 18 ha urðunarstaður, alls um 40 ha með athafnasvæðinu í kring.  Frá urðunarstaðnum að sumarbústöðunum í Glæsibæ eru uþb. 450 m, skipulagðar lóðir eru enn nær.  Tæpir 400 m eru frá urðunarsvæðinu í byggingarnar í Skjaldarvík, þar sem nú er dvalarheimili aldraðra, jörðin gefin Akureyrarbæ til þeirrar starfsemi af fyrrum eiganda.  Örstutt er að jaðri athafnasvæðisins.     Varpholt, þar sem er skóli, er í ca 500 m fjarlægð frá mörkum urðunarstaðarins, ca 800-900 m eru í félagsheimilið í Hlíðarbæ, um eða innan við  km er í sumar-húsabyggðina í Fögruvík sem er sunnan Skjaldarvíkur og þar við er líka Pétursborg þar sem er ferðaþjónusta.  Norðurskel er með ræktun úti fyrir ströndinni, fyrirtæki sem Akureyrarbær er nýlega búinn að styrkja myndarlega.  Þá er mjög stutt í Sólborgarhól og Moldhauga, en á Moldhaugum er mjólkurframleiðsla. 

Fyrir utan allt þetta má nefna að öll ströndin sem tilheyrir Hörgárbyggð, frá Hörgárósum inn fyrir Brávelli, blasir við skipum sem fara um Eyjafjörð, s.s. öllum skemmti­ferðaskipunum sem alltaf eru að auka komur sínar hingað.

Víst er um það að Akureyrarbær á Skjaldarvík og Akureyri er líka stærsta sveitarfélagið með mesta sorpið.  En Skjaldarvík er afar fallegt svæði, fallegt byggingarland ákjósanlegt til margra hluta, margra annarra en undir sorp.  Þarna er dvalarheimili og atvinna í gangi í nágrenninu sem kæmi til með að skaðast ef sorp yrði urðað á staðnum, s.s. ferðaþjónustan.  Svæðið er þéttbýlt af dreifbýli að vera.  Jarðirnar í kring myndu rýrna að verðmætum og ævistarf ábúenda um leið.

Meirihluti sveitarstjórnarmanna í Hörgárbyggð hafa viljað að Sorpeyðing Eyjafjarðar gerði alvöru úr því að kanna til hlítar kosti þess að brenna sorpið.  Urðun sé ekki góður kostur til framtíðar.  Raunar væri með urðun verið að geyma vandann handa komandi kynslóðum. Orkuna sem hitinn framleiddi mætti nýta.

Sveitarstjórn hefur líka hvatt til samvinnu við nágrannahéruð um úrræði í förgunarmálum en það hefur ekki verið vilji til þess.  Nágrannasveitarfélög hafa einnig óskað eftir samstarfi og eins hefur aðalfundur Eyþings ályktað um samstarf á svæðinu í þessum málum.  Nú ætla Þingeyingar að fara að brenna sitt sorp, en mér vitanlega er ekki ákveðið hvað gert verður vestan við okkur.

Sveitarstjórnin í Hörgárbyggð hefur leitað skýringa á því hvernig Sorpsamlagið hugsi sér að urða sorpið og hvaða frágangur yrði á urðunarstað.  Það hefur ekkert annað komið fram um það nema að urða eigi sorpið laust og á sem ódýrastan hátt.  Það finnst fólki gefa til kynna að urðunarstaðurinn gæti orðið með svipuðu sniði og uppi á Glerárdal, honum myndi fylgja fok og ódaunn ásamt ófagurri ásýnd. Hver vill hafa þannig stað inn í sinni byggð. 

Nokkuð er ljóst að þótt almenningur og stjórnvöld taki höndum saman um að minnka sorpmagnið með endurvinnslu og jarðgerð þá heldur sorpmagn áfram að aukast, fólki fjölgar, framleiðsla eykst. 

Það er skoðun mín sem þetta skrifar að fólk verði að staldra við og hugsa þessi mál upp á nýtt.  Horfa á málið til framtíðar en ekki aðeins fyrir líðandi stund.  Hvaða úrræði séu heppilegust þannig að við sitjum ekki uppi með vandann og/eða færum hann yfir á komandi kynslóðir.  Ætli það verði ekki nógu margt samt sem þær þurfa að kljást við vegna fyrirhyggjuleysis í umhverfismálum okkar tíma.

 

Helga Arnh. Erlingsdóttir