Samstarf um uppbyggingu á Gásum

Í gær, 18. desember, var undirritað samkomulag milli Hörgárbyggðar, Akureyrarbæjar og Minjasafnsins á Akureyri um uppbyggingu ferðamannastaðar á Gásum.  Undirskriftin fór fram í skötuveislu um borð í Húna II sem liggur við Torfunesbryggjuna á Akureyri.

Samkomulagið kveður á um áframhald þeirrar vinnu að gera minjar hins forna Gásakaupstaðar aðgengilegar og koma fót góðri aðstöðu og sýningu fyrir gesti og gangandi. Mjög miklir möguleikar eru taldir liggja í því fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Eyjafirði. 

Hörgárbyggð mun annast stjórnsýslu verkefnisins, Minjasafnið mun stýra því faglega og leggja til verkefnisstjóra og Akureyrarstofa mun koma að þróun verkefnsisins fyrir hönd Akureyrarbæjar. Stefnt er að því að í framtíðinni verði verkefnið rekið stjálfstætt og að því komi þeir fjölmörgu aðilar sem hagsmuni hafa af því að það takist vel.

 

Gásir er best varðveitti miðaldakaupstaður á Íslandi en Minjasafnið á Akureyri hefur staðið fyrir fornleifauppgreftri þar síðustu fimm ár. Stefnt er að því að í framtíðinni verði Gásakaupstaður lifandi sýning þar sem handverksfólk verður að störfum og leik í endurgerð af hluta kaupstaðarins. Áherslan verður á verslun og viðskipti ásamt handverki og iðnaði þessa tímabils. Gásir verður um leið minjagarður með menningarlegu ívafi sem byggir á fornleifum, sögu og náttúru staðarins sem miðlað verður með ólíkum hætti.

 

Á myndinni eru Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri Hörgárbyggðar, Þórgnýr Dýrfjörð menningarfulltrúi Akureyrarbæjar og Guðrún M. Kristinsdóttir, forstöðumaður Minjasafnsins, sem undirrituðu samninginn.