Sæludagur í Hörgársveit heppnaðist vel
Sæludagurinn var að vanda haldinn á laugardegi um verslunarmannahelgina. Hann tókst í alla staði vel. Meiri fjöldi gesta sótti viðburði Sæludagsins en nokkru sinni áður og veðrið var eins og best verður á kosið.
Dagskráin hófst við Möðruvelli með keppni í sveitafitness þar sem bændur kepptu við vinnumenn. Þrautirnar sem keppendur þurfa að leysa eru hluti af daglegum verkum bænda.
Bændur fóru með sigur af hólmi í þessari viðureign.
Einnig var keppt í stígvélakasti og pokahlaupi og voru þær greinar ætlaðar börnum. Traktoraspyrnan var á sínum stað. Dráttarvélarnar voru allar komnar af léttasta skeiði, flestar frá því fyrir 1970. Einnig var keppt í akstri sláttutraktora. Áætlað er að gestir við Möðruvelli hafi verið hátt í 800.
Að dagskrá við Möðruvelli lokinni var boðið upp á margvíslega viðburði víðsvegar um sveitarfélagið. Blómagarðar, smalahundar, fjórhjól og stangveiði var meðal þess sem boðið var upp á. Þátttaka var mjög góð, t.d. mættu um 170 manns í sögugöngu upp að Geirufossi sem Leikfélag Hörgdæla stóð fyrir á slóðum Djáknans á Myrká.
Í Arnarnesi var handverks- og nytjamarkaður, og á Hjalteyri var mikil og fjölbreytileg dagskrá frá miðjum degi og fram yfir miðnætti. Þar voru tónleikar þar sem fjórar hljómsveitir léku, en einnig var opnun myndlistarsýningarinnar Samstarf_5 og var dularfullur tóngjörningur í tengslum við hana.
Sæludeginum lauk með sveitaballi á Melum í Hörgárdal. Var þar mikið dansað og hvergi slegið af.
Alls er áætlað að gestir á viðburðum Sæludagsins hafi verið hátt á annað þúsund.
Ljósmyndari: Halldór Örn Óskarsson.