Ný deild tekin í notkun í Álfasteini
Föstudaginn 19. mars 2021 var opnuð ný 150 fm deild í leikskólanum Álfasteini sem inniheldur líka sérkennsluherbergi og glæislegan sal með aðstöðu fyrir hreyfingu og samveru. Í ljósi aðstæðna var opnunin lágstemmd í þetta skiptið og við gátum því miður ekki boðið foreldrum og öðrum íbúum að vera með okkur. Stefnt er á að hafa opinn dag í leikskólanum í vor og vonandi munu þá verða betri aðstæður til þess allir sem vilja geti komið og skoðað þessa glæsilegu aðstöðu. Þetta er þriðja viðbyggingin sem bætist við leikskólann sem upphaflega var tekinn í notkun árið 1995. Húsnæðið og aðstaðan er í einu orði sagt frábær og við fullyrðum að Álfasteinn sé einn flottasti og best útbúni leikskóli landsins og við getum verið stolt af því. Nú starfa 18 manns á leikskólanum og börnin verða síðar á árinu orðin um 60 talsins.
Um leið og við þökkum hönnuðum og verktökum fyrir vel unnið verk færum við starfsfólkinu innilegar hamingjuóskir með áfangann og við sendum börnunum góðar kveðjur og vonum að þau fái að eflast og dafna enn frekar í þessari glæsilegu aðstöðu, því það er aðal markmiðið með þessu öllu, að þeim lýði sem best.