Minningarstofan um Jónas í Hrauni
Minningarstofan um Jónas Hallgrímsson í Hrauni í Öxnadal verður opin á sunnudögum í júlí frá kl. 14:00 til 18:00.
Í minningarstofunni eru frásagnir, myndir, uppdrættir og teikningar sem bregða ljósi yfir ævi og störf fyrsta nútímaskálds Íslendinga sem með ljóðum sínum fann fegurð íslenskrar náttúru og hefur með þeim mótað íslenskar bókmenntir og íslenska list allar götur síðan.
Lýst er ljóðmáli og myndlíkingum í kvæðum hans og gerð grein fyrir nýyrðasmíð, bæði í ljóðum og fræðiritum. Einnig er í minningarstofunni lögð áhersla á að Jónas var fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga sem fékk innblástur frá stórbrotinni náttúru heimabyggðar sinnar. Birt eru kort af rannsóknarferðum hans um Ísland, m.a. hinni örlagaríku ferð úr Austurdal í Skagafirði yfir Nýjabæjarfjall til Eyjafjarðar í ágúst 1839 þar sem hann hlaut þau áföll sem að lokum drógu hann til dauða 26. maí 1845, tæplega 38 ára að aldri.