Með fullri reisn frumsýnd
Leikfélag Hörgdæla frumsýndi leikritið "Með fullri reisn" sl. fimmtudag. Meðal frumsýningargesta var Arnsteinn Stefánsson frá Stóra-Dunhaga og þá varð honum að orði:
Ég mun yfir engu kvarta
ei mér þykir vistin köld
að horfa á bera bændur skarta
brókum einum hér í kvöld.
Leikritið er eftir Terrence McNally og þýtt af Karli Ágústi Úlfssyni. Leikstjóri er Jón Gunnar Þórðarson og hefur hann, ásamt leikhópnum, staðfært verkið heim í sveitina. Það fjallar um bændur og hvernig þrengingar í landbúnaðinum og ferðaþjónustunni reka þá til aðgerða. Þeir ákveða því að halda konukvöld þar sem fötum er fækkað, en hversu langt er gengið? Átján leikarar stíga á svið, allt frá þrautreyndum áhugaleikurum til nýliða.
Upppantað er á níu af fyrstu tólf sýningunum og því er um að gera að panta sæti sem fyrst. Sýningaskipulag má nálgast á vefslóðinni www.horga.is/leikfelag