Ljóðasund í Þelamerkurskóla
Dagur íslenskrar tungu verður mánudaginn 16. nóvember nk. Eins og venja er til halda nemendur og kennarar Þelamerkurskóla hann hátíðlegan. Í ár verður brugðið út af vananum og haldin sýning í sundlauginni. Á sýningunni verða verk nemenda sem þeir hafa unnið í yfirstandandi viku. Kveikja þeirra er störf og ævi Jónasar Hallgrímssonar. Dagur íslenskrar tungu er fæðingardagur Jónasar og sundlaugin á Þelamörk heitir Jónasarlaug. Með því að smella hér getur þú skoðað yfirlit yfir verkefnin.
Sýningin verður að mestu sett upp á föstudaginn, þannig að helgargestir laugarinnar geta skoðað sýninguna. Á mánudeginum, 16. nóvember, bætast við ljóð eftir Jónas sem nemendur yngstu bekkjanna hafa skrifað með spariskriftinni og myndskreytt. Ljóðin verða plöstuð og þeim dreift um sundlaugarsvæðið. Þá geta laugargestir notið verunnar í Jónasarlaug enn frekar en venjulega með því að lesa ljóð eftir skáldið og það á sjálfum fæðingardegi þess. Sjá hér heimasíðu Þelamerkurskóla.