Landsmót UMFÍ í sumar

Landsmót UMFÍ, það 26. í röðinni, verður haldið á Akureyri dagana 9. til 12. júlí í sumar. Mótið verður sögulegt því í ár eru liðin eitthundrað ár frá því að fyrsta Landsmót UMFÍ var haldið á Akureyri. Þessara tímamóta verður minnst á ýmsan hátt í tengslum við landsmótið. Landsmót UMFÍ eru fjölmennustu íþróttamót á Íslandi, ætla má að keppendur verði um 2.000 og búast má við að landsmótsgestir verði á annan tug þúsunda. Þetta verður fjórða Landsmót UMFÍ á Akureyri. Fyrri mót voru árið 1909, 1955 og 1981. 

Tólf manna landsmótsnefnd

Undirbúningur landsmótsins á Akureyri hefur staðið yfir síðan síðasta móti, sem var í Kópavogi sumarið 2007, var slitið. Undirbúningur og framkvæmd mótsins er og hefur að stærstum hluta verið í höndum tólf manna landsmótsnefndar, en í henni eru fulltrúar Ungmennafélags Íslands, Ungmennasambands Eyjafjarðar, Ungmennafélags Akureyrar og Akureyrarbæjar.

 

Mikið umfang

Sérstaða Landsmóta UMFÍ felst ekki síst í fjölda keppenda og gesta sem tekur þátt í mótinu. Keppt er í miklum fjölda hefðbundinna keppnisgreina auk svokallaðra starfsíþrótta.

Á landsmótinu á Akureyri verður keppt í: Frjálsum íþróttum, golfi, sundi, badminton, borðtennis, blaki, bridge, dansi, glímu, handknattleik, hestaíþróttum, júdó, knattspyrnu, körfuknattleik, siglingum, skotfimi, skák, fimleikum og íþróttum fatlaðra. Starfsíþróttirnar verða á sínum stað, dráttarvélaakstur, gróðursetning, hestadómar, jurtagreining, lagt á borð, pönnukökubakstur, stafsetning o.fl. Auk þess verður keppt í nokkrum almenningsgreinum sem ekki reiknast til stiga í stigakeppni mótsins.

Nú þegar er búið að tímasetja og staðsetja bróðurpart keppnisgreina á Landsmótinu og er allar upplýsingar um það finna á heimasíðu mótsins.

Keppni hefst á Landsmótinu um hádegisbil fimmtudaginn 9. júlí og því verður slitið um hádegi sunnudaginn 12. júlí.

 

Iðandi mannlíf

Landsmót UMFÍ mun setja mark sitt á Akureyri mótsdagana. Allur bærinn verður iðandi af mannlífi. Öll íþróttamannvirki bæjarins verða undirlögð á meðan á mótinu stendur og á ýmsan annan hátt mun það ekki fara framhjá nokkrum manni að 100 ára afmælismót Landsmóta UMFÍ fer fram í bænum. Til dæmis er stefnt að því að bjóða öllum landsmönnum til afmælisveislu laugardaginn 11. júlí og hundrað ára saga landsmótanna mun birtast bæjarbúum og gestum í mörgum myndum á meðan á mótinu stendur.

 

Í tengslum við landsmótið verða margskonar menningarviðburðir í boði á Akureyri.

 

Ástæða er til að undirstrika að aðgangur að öllum viðburðum undir merkjum Landsmóts UMFÍ er ókeypis.

 

Ákveðið hefur verið að flytja árlegt Akureyrarhlaup KEA, sem var hlaupið í júní í fyrra, og fella það að þessu sinni inn í dagskrá Landsmóts UMFÍ laugardaginn 11. júlí. Af þessu tilefni verður í fyrsta skipti á Akureyri og á Landsmótum UMFÍ hlaupið heilt maraþon. Einnig verður í boði hálft maraþon, tíu kílómetra hlaup og skemmtiskokk.

 

Þá skal það nefnt að í aðdraganda landsmótsins, dagana 6.-9. júlí,  standa Siglingasamband Íslands, SÍL, og Siglingaklúbburinn Nökkvi fyrir æfingabúðum fyrir siglingakrakka af öllu landinu á Pollinum. Í tengslum við þetta er stefnt að því að hafa kynningu á kjölbátasiglingum, kæjakróðri o.fl. Það verður því örugglega mikið líf og fjör á Pollinum alla landsmótsvikuna. 

 

Nýr íþróttaleikvangar miðpunktur mótshaldsins

Þó svo að keppt verði í einstaka landsmótsgreinum í fjölmörgum íþróttamannvirkjum Akureyrar verður miðpunktur mótshaldsins á nýjum íþróttaleikvangi, sunnan Hamars, félagsheimilis Íþróttafélagsins Þórs, sem Akureyrarbær er nú að byggja upp. Síðastliðið haust var lokið við að þökuleggja hinn nýja íþróttavöll. Í vetur hefur verið unnið við byggingu stúku við leikvanginn og þeirri framkvæmd verður fram haldið fram að móti í júlí. Í vor verður lokið við lagningu hlaupabrauta og annan frágang sem þarf að ljúka áður en mótið hefst 9. júlí.

 

Í stórum dráttum er bygging stúkunnar við hinn nýja leikvang á áætlun. Nú þegar er búið að steypa tæplega 70% mannvirkisins. Lokið er við að steypa neðstu hæð byggingarinnar og alla veggi á annarri hæð. Þessa dagana er verið að undirbúa að steypa skáplötu stúkunnar þar sem um eitt þúsund sætum verður komið fyrir. Í framhaldinu verður ráðist í byggingu þriðju hæðar stúkunnar, þar sem verða m.a. salerni, aðstaða fyrir fréttamenn, mótstjórn, tímatökuherbergi og margt fleira. Allar áætlanir miðast við að mannvirkið verði tilbúið þegar flautað verður til leiks á Landsmótinu 9. júlí í sumar.

Ekki er gert ráð fyrir að þakvirki stúkunnar verði komið á sinn stað fyrir Landsmótið í sumar, en að öðru leyti verður hún tilbúin til þess að taka við allt að eitt þúsund áhorfendum. Tveir af fjórum búningsklefum verða tilbúnir til notkunar fyrir Landsmótið sem og dómaraherbergi, sjúkraherbergi o.fl.

Í vor og fram að Landsmóti verður auk stúkubyggingarinnar lokið við frágang sjálfs íþróttasvæðisins – hlaupabrautir, atrennubrautir, stökkgryfjur og kastsvæði

 

Formleg mótsetning verður á hinum nýja íþróttaleikvangi föstudagskvöldið 10. júlí og þar fara mótslit einnig fram sunnudaginn 12. júlí.

 

Heimasíða mótsins

Heimasíða Landsmóts UMFÍ á Akureyri er á slóðinni www.landsmotumfi.is, þar sem er að finna ýmsar upplýsingar um mótið og fram að mótinu í júlí munu stöðugt birtast þar nýjustu fréttir.