Kirkjukórinn á ferðalagi um Austurland
Kirkjukór Möðruvallaklaustursprestakalls fór í söngferðalag austur á land á dögunum. Helstu viðkomustaðir voru Eskifjörður og Höfn í Hornafirði. Ari Erlingur Arason, formaður kórsins, segir ferðina hafa verið mjög vel heppnaða.
Við lögðum af stað fimmtudaginn 16 ágúst. Fyrsta stopp var Möðrudalur á Fjöllum og þar fengum við sögustund í kirkjunni um staðinn og kirkjuna sjálfa og eftir því fengum við kjötsúpu að hætti staðarins og kaffi á eftir. Að sjáfsögðu var tekið lagið í kirkjunni.
Frá Möðrudal var haldið áfram til Egilsstaða og stoppað var á Egilsstaðbúinu og það skoðað og fengið sér hressingu hjá þeim hjónum. Loks var haldið til Eskifjarðar þar sem við sungum í Eskifjarðarkirkju um kvöldið. Gist var á Mjóeyri við Eskifjörð og gistihúsi í bænum.
Föstudaginn 17. fórum við að skoða Helgustaðanámurnar sem eru silfurbergsnámur norðan við Eskifjörð. Einnig fórum við að skoða gamlan verslunarstað sem heitir Útstekkur.
Næst var stoppað á Djúpavogi og þar fengum við súpu og brauð og svo kaffi á eftir. Síðan var haldið áfram til Hafnar í Hornafirði. Þegar við komum þangað var haldið beint á Hjúkrunarheimilið Skjólgarð og sungum við þar 5 lög fyrir heimilisfólkið. Um kvöldið voru svo tónleikar í Hafnarkirkju og fengum við léttar veitingar eftir tónleikana í boði presthjónana á Höfn, þeirra Kristínar og sr.Sigurðar.
Laugardaginn 18. fórum við vestur að Jökulsárlóni og fórum í siglingu á lóninu. Þaðan var farið til baka austur aftur og stoppað var í Þórbegssetrinu og þar fengum við smá lýsingu á fjallinu fyrir ofan bæinn Hala í Suðursveit. Svo héldum við áfram austur að Smyrlabjörgum í Suðursveit og þáðum hlaðborð að hætti þeirra hjóna á Smyrlabjörgum. Maturinn sem var á borðum var allur úr héraði alls 65 aðalréttir og 12 eftirréttir.
Sunnudaginn 19. var sungin messa í Hafnarkirkju. Sóknarprestarnir sr. Sigurður Kr. Sigurðsson og sr. Stígur Reynisson þjónuðu fyrir altari og nývígði biskupinn okkar sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir predikaði. Organistarnir Kristín Jóhannesdóttir á Höfn og okkar organisti Sigrún Magna Þórsteinsdóttir spiluðu við messuna. Eftir messu var okkur boðið í súpu og brauð á Hótel Höfn í boði sóknarnefnd Hafnarsóknar áður en haldið var heimleiðis.