Jónas Hallgrímsson 200 ára

Á 200 ára afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, föstudaginn 16. nóvember, kemur út á vegum menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ný ævisaga sem Böðvar Guðmundsson rithöfundur hefur skrifað og nefnir Jónas Hallgrímsson Ævimynd. Verður ævisagan afhent öllum nemendum í tíunda bekk grunnskóla landsins að gjöf. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, mun að morgni afmælisdagsins afhenda fyrstu eintök bókarinnar nemendum Þelamerkurskóla sem minnast um leið drengsins sem fæddist og ólst upp í sveitinni og varð skáld, listaskáldið góða.

Í verkinu rekur Böðvar Guðmundsson ævi og störf skáldsins, náttúrufræðingsins og stjórnmálamannsins Jónasar Hallgrímssonar og bregður ljósi á þá þætti í lífi hans sem gerðu hann að skáldi. Inn í ævisöguna er fléttað kvæðum Jónasar og brotum úr bréfum hans og dagbókum sem tengjast sérstaklega þroskaferli hans sem manns og skálds. BYR sparisjóður og Sparisjóður Norðlendinga kosta útgáfu verksins. Ævisagan er prýdd teikningum eftir Halldór Þorsteinsson. Hönnun verksins annaðist Árni Pétursson. Prentsmiðjan ODDI prentar bókina.

 

Minningarstofa á Hrauni í Öxnadal

Um hádegisbil 16. nóvember 2007 opnar forseti Íslands minningarstofu um Jónas Hallgrímsson á fæðingarstað hans Hrauni í Öxnadal.  Ávarp flytur Guðrún María Kristinsdóttir, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri, en safnið hefur haft umsjón með uppsetningu sýningarinnar fyrir hönd menningarfélagsins. Hönnun og uppsetning var í höndum myndlistarmannanna Finns Arnar, Jóns Garðars Henryssonar og Þórarins Blöndals.  Þórarinn Hjartarson sagnfræðingur tók saman handrit fyrir sýningargerðina. Menntamálaráðuneytið veitti styrk til verksins en auk þess tók Saga Capital fjárfestingarbanki þátt í kostnaði við gerð minningarstofunnar.

 

Á Hrauni í Öxnadal verður til frambúðar sýning þar sem brugðið verður upp svipmyndum úr ævi fyrsta nútímaskálds Íslendinga sem með ljóðum sínum fann fegurð íslenskrar náttúru og hefur mótað íslenskar bókmenntir og íslenska list í hartnær tvær aldir. Lýst er ljóðmáli og myndlíkingum í kvæðum hans og gerð grein fyrir nýyrðasmíð hans, bæði í ljóðum og fræðiritum en Jónas Hallgrímsson var fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga og fékk innblástur frá stórbrotinni náttúru heimabyggðar sinnar í Öxnadal. Í minningarstofunni verða m.a. kort af rannsóknarferðum Jónasar um Ísland, en ein þeirra var örlagaríkust, ferðin úr Skagafirði yfir Nýjabæjarfjall í Eyjafjörð haustið 1839 þar sem Jónas hlaut þau áföll sem að lokum leiddu til dauða hans 26. maí 1845, þegar hann var aðeins tæpra 38 ára.  Sýningin er gerð með það fyrir augum að gestir komist í snertingu við manninn Jónas Hallgrímsson á ýmsum æviskeiðum hans.  Þjóðminjasafn Íslands lánar skrifborð úr eigu Jónasar og líkan af húsi því sem hann bjó síðast í í Kaupmannhöfn, við opnun sýningarinnar. Minningarstofan og húsið allt verður opið almenningi til skoðunar helgina 17. og 18. nóv. kl. 13-18 báða dagana. Af því tilefni verður opið veitingahúsið Halastjarna á Hálsi, næsta bæ við Hraun. Þar verður hægt að fá kaffiveitingar þessa daga milli kl. 14 og 17.

           

Minningarstofan er hluti af minningarsetri um Jónas Hallgrímsson sem komið verður á fót á Hrauni í Öxnadal í samvinnu við ýmsar rannsóknar- og menningarstofnanir. Auk minningarstofunnar verður á Hrauni rannsóknaraðstaða fyrir fræðafólk í bókmenntum, náttúruvísindum og stjórnmálum, en Jónas Hallgrímsson fjallaði um alla þessa þætti á stuttri starfsævi sinni. Annar hluti af minningarsetrinu er fólkvangur í landi Hrauns sem nefndur hefur verið Jónasarvangur og opnaður var 16. júní í sumar. Meginhluti jarðarinnar var þá gerður að náttúrulegu útivistarsvæði fyrir almenning og nær yfir sérkennilegar jarðmyndanir dalsins, hólana og hraunin sunnan og ofan við bæinn, Vatnsdalinn með Hraunsvatni, sem myndaðist við berghlaup úr fjallinu fyrir tíu þúsund árum, Hraunsá og hluta Öxnadalsár ásamt hvassbrýndu Drangafjall með hinum sérstaka Hraundranga, sem lengi hefur verið tákn Jónasar Hallgrímssonar, en Hraundrangi kemur fyrir í kvæði hans Ferðalokum, sem nefnt hefur verið fegursta ástarljóð á íslenska tungu, en er um leið óður til landsins og fegurðarinnar.

 

Jónasarfyrirlestur

Á afmælisdaginn föstudaginn 16. nóvember verður haldinn Jónasarfyrirlestur á vegum Akureyrarbæjar og menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal í Ketilhúsinu og hefst hann kl. 17:15. Þar flytur Helga Kress prófessor erindi sem hún kallar: Ég bið að heilsa: Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Öllum er heimill aðgangur að fyrirlestrinum.

 

Í stjórn menningarfélagsins Hrauns í Öxnadalehf sitja Guðrún María Kristinsdóttir fornleifafræðingur, Jón Kr. Sólnes lögmaður og Tryggvi Gíslason magister.