Jólaannir í Laufási á sunnudaginn
Jólastemning mun ríkja sunnudaginn 6. desember kl. 13:30-16:30 í gamla bænum Laufási við utanverðan Eyjafjörð. Þá verður hægt að fylgjast með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla sveitasamfélaginu. Jólaundirbúningurinn hefst með fjölskylduguðsþjónustu í Laufáskirkju kl 13:30 þar sem sr. Bolli Pétur Bollason messar. Sungnir verða aðventusálmar og einsöngvari er Óskar Pétursson.
Í gamla bænum mun eldur loga á hlóðum og krauma í feitinni á meðan laufabrauðið er skorið og steikt. Hangikjötsilmur læðist um híbýlin og hægt verður að smakka á kræsingum. Unnið verður að kertagerð og börn á öllum aldri geta föndrað jólaskraut eins og tíðkaðist þegar ömmur, afar, langömmur og langafar voru lítil börn. Þegar margt spennandi er um að vera og ilmur jólanna er um allt er víst að bræðurnir Hurðaskellir og Stekkjastaur drífa sig beinustu leið frá Dimmuborgum í gamla bæinn og þá er nú kátt í höllinni.
Skemmtilegur kvæðasöngur með jólalegum blæ eins og kvæðamannafélagi Gefjunar er einu lagið mun fylla hvern krók og krima í Gamla bænum um leið og yndislegur ilmur hins rómaða kúmenkaffis leikur um vit gesta. Í skálanum verður handverk úr héraði til sölu eins og endranær en þar kennir ýmissa grasa.
Kaffi/Kakó og smákökur verða til sölu í gamla prestshúsinu.
Það er Laufásshópurinn ásamt fjölda annarra velunnara Gamla bæjarins sem gerir það mögulegt að hægt er að upplifa jólaundirbúning gamla sveitasamfélagsins á þennan hátt.
Aðgangseyrir er kr. 500- fyrir fullorðna en ókeypis er fyrir börnin