Íbúar Hörgárbyggðar

 

Íbúar Hörgárbyggðar stöndum nú sem áður saman og tryggjum að okkar blómlega sveitafélag eigi bjarta framtíð.

 

Laugardaginn 27.  maí  nk verður kosin ný sveitastjórn fyrir Hörgárbyggð.  Mörg og spennandi verkefni bíða hennar og hvet ég alla, sem kosningarétt hafa, til að mæta á kjörstað og neyta atkvæðisréttar síns og hafa þannig áhrif á hverjir veljast í næstu sveitastjórn.

  

Eins og íbúum er kunnugt um  voru engir framboðslistar lagðir fram og því verða kosningar í Hörgárbyggð óbundnar. 

 

Samhliða kosningunum fer fram skoðanakönnun  meðal kjósenda í Hörgárbyggð, þar sem spurt verður um afstöðu þeirra til hugsanlegrar sameiningar Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps.    Ég tel afar mikilvægt  að þessi tvö sveitarfélög  beri nú gæfu til þess að fara að vinna  að sameiningu þar sem þau eiga sameiginlega hagsmuni s.s. þegar kemur að fjallskilum, skóla- og leikskólamálum svo eitthvað sé nefnt.  Ég sé líka fyrir mér að mikið mætti spara í yfirstjórn og kannski er vænlegra til árangurs  þegar sameina á sveitafélög að taka smærri skref líkt og  gert var  við sameiningu þeirra þriggja sveitafélaga sem runnu saman þegar Hörgábyggð varð til.

 

Íbúar Hörgárbyggðar verða að vanda val sitt á laugardaginn því mikilvægt er að í nýja sveitastjórn veljist hæfir einstaklingar sem auðveldlega geta unnið saman.

Það er líka ljóst að nýrrar sveitastjórnar bíða  brýn verkefni og því er mikilvægt að íbúar velji til þeirra verka kröftugt fólk sem tilbúið er að leggja á sig mikla vinnu og hafi það að markmiði að vinna saman að bjartsýni og heillindum. 

 

Undirrituð hefur búið hér í sveitafélaginu í 10 ár og hefur sl. 4 ár verið í sveitastjórn.

Það hefur á margan hátt verið krefjandi starf en jafnframt á köflum gefandi og lærdómsríkt.  Við sem nú förum frá höfum haft í mörgu að snúast  og hafa þessi fjögur ár síður en svo  liðið án átaka, þar má nefna málefni eins og sorp- og  sameiningarmál sem mikil okra og tími fór í.  Við höfum þó getað samhliða lögboðnum verkefnum horft fram á veginn,  unnið að aðkallandi verkefnum eftir því sem fjárlög hafa leyft, eins og skipulags- og byggingamálum og núna nýverið samþykktum við  Staðardagskrá 21 sem er velferðaráætlun fyrir íbúa Hörgábyggðar og er vert að hvetja íbúa til að kynna sér hana rækilega og leggja sitt að mörkum til  að hún megi nýtast okkur sem best í komandi framtíð.

 

Ég tel að á þessum fjórum árum hafi okkur tekist vel til og að fjármunum sveitafélagsins hafi verið varið  á skynsamlegan hátt.  En ólíkt mörgum smærri sveitafélögum getum við státað að því að viðsnúningur hefur orðið í rekstri sveitafélagsins  sem hefur verð gert upp með hagnaði sl. 2 ár.

 

Brýnt er að haldið sé vel utan um fjármálin og  mikla vinnu þarf  áfram að leggja í umhverfis- og skipulagsmálin.  Í sveitafélaginu er nú mikill lóðaskortur sem hefur hamlað að hægt væri að fjölga íbúum,  það þarf að leita allra leiða til að bæta úr því þar sem eftirspurn  eftir búsetu í sveitarfélaginu er mikil og fer vaxandi.   Ef við ætlum áfram að vera sjálfstætt starfandi sveitafélag þurfum við líka á því að halda að fjölga íbúum til að treysta tekjustofna sveitafélagins og til að ná fram hagræðingu í rekstri  í  því sambandi tel ég mikilvægt  að hlúa  áfram vel að bæði leik- og grunnskóla.

 

Ég sem íbúi í Hörgárbyggð tel það  forréttindi að  búa í sveitafélagi eins og Hörgárbyggð.  Ég bjó hér í nokkur ár til að sannfærast um að hér og hvergi annars staðar væri betra að búa.   Í framhaldinu byggðum við fjölskyldan okkur hús og sjáum ekki eftir því.   Ég tel að  íbúar  Hörgárbyggðar geti verið stoltir af því að búa hér í  okkar fjölskylduvæna samfélagi  en hér tel ég að sé mjög góð aðstaða til að ala upp börn.   Hér er góður grunn- og leikskóli og  mannvænt samfélag sem og öflugt félagslíf sem  íbúar taka virkan þátt í.  Hörgárbyggð er hæfilega langt frá þéttbýli og hér er einstök náttúrufegurð.  Hér eru líka miklir framtíðarmöguleikar og í sveitafélaginu býr kröftugtfólk sem er tilbúið að  leggja sig fram við að gera gott sveitafélaga ennþá betra.  Gaman er í því samandi að fylgjast með hvað áhugasamt fólk er hér í skógrækt.  Hér  má sjá myndalega skóga sem komandi kynslóðir eiga eftir að kunna vel að meta.

 

Þrátt fyrir að Hörgárbyggð teljist ekki fjölmennt sveitafélag tel ég að ef rétt er á málum haldið sé  framtíðin björt.  Hér eru mikil verðmæti fólgin í landi.  Landi sem t.d. má nýta til að byggja upp frístundhús, útivistasvæði, golfvelli og síðast en ekki síst til íbúðabygginga.

Ég sé fyrir mér á komandi árum huggulegt bryggjuhverfi  við strandlengjuna og held að komandi kynslóðir verði sáttari við það en að nýta það land t.d. sem en sorpurðunarstað margir hafa viljað.

 

Vert er líka að geta þess að hér er að fara af stað stór verkefni sem tengjast menningartengdri ferðamennsku og tel ég mikilvægt að við séum vakandi fyrir  mikilvægi þess að nýta okkur stór og smá verkefni sem því tengist.  Aukning í ferðamannaiðnaði  kemur til með að draga til sín fólk og skapa mikla atvinnu í komandi framtíð. Það er ekki sjálfgefið að t.d. allar rútur sem aka erlendum ferðamönnum sem koma hér inn Eyjafjörðinn á skemmtiferðaskipum á hverju sumri, fari allar yfir Vaðlaheiðina.  Við hér í Eyjafirði eigum að stefna á  að  eitthvað að þessu fólki staldri við í okkar sveitafélögum.

 

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín mikið lengri en að framansögðu ætti öllum að vera ljóst að spennandi tímar eru framundan og fjöldamörg verkefni til að fást við ef við nýtum okkur þau tækifæri sem við okkur blasa.   Í því sambandi er ljóst að allir íbúar þurfa að leggja hönd á plóg við  uppbyggingu hér í okkar ágæta sveitafélagi.

Að lokum vil ég þakka Helgu Erlingsdóttur sveitastjóra, fráfarandi sveitastjórn sem og þeim fjöldamörgu  sem unnið hafa í nefndum og víðar fyrir sveitafélagið síðastliðin 4 ár, fyrir gott samstarf.

Kæri íbúár Hörgárbyggðar nýtið kosningarétt ykkar og takið með því á virkan og lýðræðislegan hátt, þátt í því hverjir veljast í næstu sveitastjórn.

 

Sunnudaginn 21. maí 2006,

Guðný Fjóla Árnmarsdóttir,

sveitarstjórnarmaður í Hörgárbyggð