Hugrenningar sveitarstjóra á nýbyrjuðu ári.

 

 

 

Í ársbyrjun er gamall og góður siður að líta yfir liðið ár og ekki er síður mikilvægt að horfa til framtíðar.  Í þetta sinn ætla ég að leiða hugann aðallega að stjórnsýslu og  sameiningu sveitarfélaga svo og sorpmálum.

 

Liðið ár var erilsamt hjá sveitarstjórn og sveitarstjóra.  Hið nýja sveitarfélag Hörgárbyggð er enn í mótun og þó flest standi hér á gömlum merg þá þarf að samræma ýmsa hluti og semja um annað upp á nýtt.  Þá hafa verið mjög hraðar breytingar á sveitarstjórnarstiginu undanfarin misseri og er fyrirsjáanlegt að svo verði áfram.   Þessar breytingar hafa í för með sér aukna vinnu við stjórnun og krefjast þess að fólk setji sig inn í hin ýmsu mál sem áður voru á annarra borðum eða ekki inn í myndinni.

Vinna við bókhald og skjöl er tímafrek ekki síst þar sem verið var að flytja allt bókhaldið í forrit sem uppfyllir nýjar reglur í reikningsskilum sveitarfélaga.  Kröfur um ítarlegar fjárhagsáætlanir fram í tímann taka líka sinn tíma svo og vinna við ýmsa nýja þætti.  Má þar nefna alls konar skýrslugerð og upplýsingaöflun.

Mikill tími fer í samstarf við önnur sveitarfélög ekki síst ná­granna­sveitarfélagið Arnarneshrepp enda stór samstarfsverkefni milli þessara sveitarfélaga.   Skóli er stærsta og kostnaðarsamasta verkefni allra minni sveitarfélaga.

Þetta samstarf hefði mátt ganga liðlegrar fyrir sér en vonandi tekst að bæta það í framtíðinni.  Vinna þarf að því að ákvarðanataka um sameiginleg verkefni taki styttri tíma og einhverjar reglur séu til um það ferli.  Þar kæmi samstarfssamningur um skólann svo og íþróttahúsið að góðum notum ef samstaða næðist um slíkt. 

Margt væri léttara hvað varðar rekstur skóla og íþróttahús og jafnvel fleiri þætti í þessum sveitar­félögum ef þau hefðu borið gæfu til að sameinast á sínum tíma.  Þó einingin væri vissulega ekki stór þá væri hún örugglega til bóta fyrir alla stjórnsýslu og eins hvað varðar fjármál. 

Nú er enn hafið átak í sameiningu sveitarfélaga á landsvísu og sameining sveitarfélaga virðist vera stærsta áhugamál hins nýja félags­málaráðherra, Árna Magnússonar og víst er að hann á þar marga stuðningsmenn.  Má nefna það hér að Samfylkingin er með tillögur um það á Alþingi að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 1000. 

Í dag eru sveitarfélögin 104 í landinu.   Rúmur helmingur þeirra eða 54 eru með færri en 500 íbúa.  Þá eru 17 sveitarfélög með 500 til 1000 íbúa, 13 sveitarfélög með 1000 til 2000 íbúa,  11 sveitarfélög með 2000 til 5000 íbúa og 9 sveitarfélög með yfir 5000 íbúa.

Félagsmálaráðherra lætur hafa eftir sér í Fréttablaðinu þann 15.janúar s.l. að hann vilji ekki setja skilyrði um lágmarks íbúafjölda í sveitarfélagi en að þau geti myndað sjálfstæðar einingar og tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu.  Þau verkefni sem hann nefnir í greininni að hann vilji flytja til sveitarfélaga eru málefni fatlaðra og grunnþættir heilbrigðisþjónustu.  Fyrir nokkrum árum stóð til að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaga en hætt var við það þar sem sveitarfélögin sáu ekki fram á að þeim væri tryggt það fjármagn sem þyrfti til að annast verkefnið.  Þó eru málefni fatlaðra þegar í höndum nokkurra sveitarfélaga sem reynsluverkefni s.s. hjá Akureyrarbæ. 

Búið er að skipa í nefndir til undirbúnings sameiningarátakinu þar sem gert er ráð fyrir að kosið verði um vorið 2005.  Tillögur nefndanna eiga að vera tilbúnar nú í vor og hefst í kjölfarið kynning á þeim.   Þær eiga að fjalla um tilflutning á verkefnum  og breytta  skipan sveitarfélaga svo og  tekjustofna.

Fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga (eða meirihluti þess) lagði til í vor að í þessu sameiningarátaki yrði öll atkvæði kjósenda þeirra sveitarfélaga sem kosið væri um að sameinuðust sett í einn pott og  réði samtals meirihluti atkvæða úrslitum en ekki niðurstaða innan hvers sveitarfélags um sig.  Þessu hafa mjög mörg sveitarfélög mótmælt.   Fregnir eru af því að innan félagsmálaráðuneytis sé ekki ánægja með þessa tillögu fulltrúaráðsins.  Margir þingmenn munu líka vera á móti tillögunni.

Þess ber að geta að í fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga eru 60 fulltrúr þar af aðeins 3 frá sveitarfélögum sem eru með innan við 500 íbúa, segir það sína sögu.  Það er nokkuð athyglisvert hvað fulltrúum hinna stærri sveitarfélaga er umhugað um að sveitarfélögum fækki verulega.

Stjórnendur sveitarfélaga hafa lagt áherslu á það, að fyrir liggi útreikningar um tekjur og hverjir tekjustofnarnir verði í fyrirhuguðum sameinuðum sveitarfélögum, þegar kemur að kosningum um sameiningar.  Það er ljóst að þar þurfa að  koma til miklar breytingar miðað við stöðuna í dag þar sem  mörg sveitarfélög, ekki síður af “millistærð” búa nú erfiða fjárhagsstöðu.

Ef það verður niðurstaðan að tilskipaðar nefndir komi með tillögur um hvaða sveitarfélög eiga að sameinast og að sú aðferð verði notuð að atkvæðin úr öllum viðkomandi sveitarfélögum verði sett í einn pott, mun væntanlega víða verða gerð skoðanakönnun innan hvers sveitarfélags um sig hvort íbúarnir vilji taka þátt í þannig kosningu. 

Það er því alveg ljóst að það verða miklar þreifingar varðandi sameiningu á næstu mánuðum og forvitnilegt að vita hvað út úr þeim umræðum kemur.  Mun ég reyna að setja upplýsingar um gang mála eftir bestu getu í Fréttabréf sveitarfélagsins. 

Íbúar Hörgárbyggðar munu væntanlega standa frammi fyrir því að þurfa að gera upp hug sinn um frekari sameiningu innan tíðar og nokkuð er ljóst að síður er að vænta sameiningar við Arnarneshrepp, a.m.k. ekki einan og sér miðað við Fréttabréf Arnarneshrepps  sem kom út í desember.  Þar segir að á fundi um sameiningu sveitarfélaga sem haldinn var á Húsavík um mánaðamótin apríl-maí í vor að frumkvæði Eyþings og Sambands ísl. sveitarfélaga, hafi Hörgárbyggð verið tekin sem dæmi um sameiningu sem engu skilaði.  Að vísu man ég ekki eftir að þetta hafi komið fram á fundinum né þeir sem ég hef haft samband við og sátu þennan sama fund.

 

Eins og komið hefur fram í Fréttabréfi Hörgárbyggðar þá hafa komið erindi til sveitarstjórnar um rannsóknir og breytingar á skipulagi vegna urðunar sorps í sveitarfélaginu. 

Þann 28. apríl 2002 tók sveitarstjórn Hörgárbyggðar fyrir bréf frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. frá 8. sama mánaðar þar sem Sorpeyðing Eyjafjarðar fer fram á að sveitarstjórn Hörgárbyggðar lýsi því yfir að hún sé reiðubúin að gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi sveitarfélagsins sem heimili starfrækslu urðunarstaðar og tengdrar starfsemi á jörðinni Gásum ef viðbótarrannsóknir á svæðinu breyttu ekki þeirri niðurstöðu frumathugunar að þar mætti reka slíkan stað.....  Meirihluti í sveitarstjórn, 6 af 7,  hafnaði þessari beiðni með rökstuðningi.  Áður höfðu borist mótmæli fá ýmsum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta á svæðinu.  Þarna er víða búið myndarlega og skógrækt stunduð af krafti.  Uppgröfturinn á gamla verslunarstaðnum á Gásum og hin fyrirsjáanlega  menningartengda ferðaþjónusta í tengslum við aðra merka staði í nágrenninu s.s. Skipalón, Hlaðir og Möðruvelli var líka höfð í huga  í umræðunni um þennan stað.  Gásaverkefnið hefur verið tilnefnt á heimsminjaskrá hjá UNESCO....

Síðan leið tíminn þar til kominn var september.  Á fundi sveitarstjórnar 17. september var tekið fyrir bréf frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar frá 4. september þar sem óskað er heimildar að athuga jarðveg á Skútum til að meta þar aðstæður fyrir rekstur urðunarstaðar.   Sveitarstjórn  frestaði ákvörðun á þessum fundi og á fundi þann 2. október er bókað svar til Sorpeyðingar að sveitarstjórn taki sér allan þann tíma sem hún þarf til að athuga hvort hún leyfi athuganir á Skútum og ítrekar jafnframt að skoðað verði í fullri alvöru hvort sorpbrennsla  sé ekki hagkvæmasti kosturinn til framtíðar litið og þá í samvinnu við nágrannabyggðir.

Þann 10. nóvember var fundur sveitarstjórnar með fulltrúum frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar þar sem málin voru rædd frá ýmsum hliðum og síðar í mánuðinum var haldið íbúaþing þar sem m.a. fulltrúi Sorpsamlagsins ræddi úrræði varðandi  eyðingu sorps.  Í lok þessa fundar voru fundargestir spurðir álits á því hvort leyfa ætti frekari athuganir á Skútum.  Samkvæmt fundargerð frá fundinum voru það 9 sem vildu það, aðrir sátu hjá, en enginn hreyfði andmælum.  Það voru 34-35 manns á fundinum með fundarboðendum og frummælendum.  Það var óheppilegt að ekki var ákveðið áður en fundurinn var boðaður að þarna færi fram atkvæðagreiðsla um þetta mál og það auglýst.  Þá hefði fólk e.t.v. mætt betur og þátttakan orðið meiri og fundurinn þá marktækari sem stuðningur við ákvarðanatöku.

Nokkru seinna hafnaði meirihluti sveitarstjórnarmanna frekari rannsóknum á Skútum.  Fulltrúar í sveitarstjórn höfðu þá  athugað  marga þætti varðandi staðsetninguna.  Sá staður sem Sorpsamlagið horfði til var gamla bæjarstæðið og túnið á Skútum.  Þaðan er stutt í næsta býli, grunnskólann og vatnsverndarsvæðin.  Þá hafa ábúendur á Grjótgarði þennan hluta Skúta á leigu út ævina, sbr. leigusamning og stutt er í sumarhús sem verið er að reisa á Moldhaugnahálsinum.

Þetta tel ég að hafa haft áhrif á það að meirihluti sveitarstjórnarmanna hafnaði erindi Sorpsamlagsins.

Þann 22. desember s.l. kom enn erindi til sveitarstjórnar frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar b.s. og nú um leyfi sveitarstjórnar til að rannsaka jarðveg með sorpurðun í huga norðan bæjarins í Skjaldarvík.  Jafnframt kemur fram í því bréfi að sveitarstjórn Arnarneshrepps hafi fengið samhljóða bréf hvað varðar urðunarstað í hreppnum.

Sveitarstjórn hefur óskað eftir frekari upplýsingum um áætlanir Sorpsamlagsins vegna þessa staðar.

 

Því er þetta sett fram hér að sveitarstjórn hefur fengið á sig gagnrýni opinberlega fyrir seinagang á afgreiðslu málsins.    Vissulega hefur stjórn Sorpsamlagsins lengi leitað úrræða um förgun sorps en ekki kom formlegt erindi  til Hörgárbyggðar fyrr en í apríl s.l. og þá um Gásir...  Það er því ekki eingöngu við forsvarsmenn Hörgárbyggðar að sakast hvað þetta hefur tekið langan tíma þó vissulega hafi verið tekinn tími til að kanna allar hliðar á kostum og göllum urðunarstaðar á Skútum.  En hann er varla langur miðað við þann gang sem hefur verið í sorpmálum á svæðinu.

 

Akureyrarbær hefur ákveðið að hætta urðun á Glerárdal.  Ekkert sveitarfélag hefur sýnt áhuga á að fá sorpið til sín nema Grýtubakkahreppur sem hefur haft áhuga á að  láta byggja sorpbrennslu á Grenivík og nota hana til kyndingar og svo Arnarneshreppur sbr. Mbl. í s.l. mánuði, þar sem talið er líklegt að sveitarstjórn vilji frekar fá sorp á Dysnesið en stóriðju.  Til eru sveitarfélög við Eyjafjörð  sem hafa alfarið hafnað því að þar yrði urðunarstaður.

 

Hörgárbyggð og fleiri sveitarfélög hafa viljað kanna betur kosti þess að brenna sorpið og einnig að lausn á förgun sorps verði unnin í samvinnu við  nágrannahéruðin beggja vegna.  Það hafa  verið samþykktar ályktanir á fundum Eyþings um að stuðla að samvinnu á stærra svæði um lausn á þessum málum.

 

Það er ljóst að stofnkostnaður er allmiklu meiri við brennslu en  þó er tækninni alltaf að fleygja fram svo ódýrari lausnir eru að líta dagsins ljós.  Reglur og lög um eyðingu og meðferð á sorpi hafa verið að taka sífelldum breytingum þannig að erfitt hefur verið að átta sig á hvað eru bestu úrræðin sem þó uppfylla hvort tveggja.  Reglugerðir um skilagjöld á ýmsum úrgangi hafa verið að koma fram og kröfur um endurnýtingu aukast jafnt og þétt.  Þessar sífelldu breytingar hafa orðið til þess að erfiðara er að átta sig á hvaða úrræði eru best til framtíðar.

Vonandi tekst að lokum að finna ásættanlega lausn hvað varðar förgun sorps.

 

Nú á þessu ári verður lagt á sorpgjald í Hörgárbyggð, enda er það svo að samkvæmt gildandi reglum eiga íbúarnir að greiða þann kostnað sem hlýst af því að eyða sorpi.  Sveitarstjórn hefur rætt þann möguleika að hafa lægra sorpgjald hjá þeim sem fara út í það að endurvinna sorpið heima hjá sér og þar með að minnka það magn sem fer á urðunarstað.  Margir hafa náð langt í að jarðgera sorp í viðeigandi ílátum.  Fróðlegt væri að heyra álit íbúa á endurvinnslu heima fyrir.  Þá hefur líka komið til tals að hafa sérstaka gáma undir pappír (dagblöð), timbur og minni háttar járnarusl, sem íbúarnir hafa aðgang að hér í sinni heimabyggð.

 

Í framtíðinni mun ég reyna að halda áfram að koma ýmsum upplýsingum um starfið í sveitarfélaginu á framfæri og málefni sem þar eru á döfinni eftir sem kostur er.  Þá eru fundargerðir sveitarstjórnar vissulega vitnisburður um það sem sveitarstjórn er að fást við hverju sinni.  Ég vil líka minna á að heimilt er að mæta á opna fundi og þannig er hægt að fylgjast með umræðum og afgreiðslu mála.

 

Að lokum óska ég öllum íbúum Hörgárbyggðar gæfu og gengis á nýju ári og þakka fyrir það liðna.

 

Helga A. Erlingsdóttir