Hér á ég heima! Munir, myndir og sagnir úr Hörgársveit.

Safn í útrás? Í tilefni þess að 50 ár eru frá fyrstu sýningu Minjasafnsins á Akureyri heldur safnið í sýningarför um Eyjafjörð. Það er frekar óvenjulegt að söfn ferðist um en í tilefni þess að  50 ár eru frá fyrstu sýningu safnsins verða settar upp fjórar sýningar í sveitarfélögum sem safnið eiga. Í sýningunum er lögð áhersla á að sýna ljósmyndir og gripi frá viðkomandi sveitarfélagi fyrir sig, sem safnið hefur fengið til varðveislu undanfarin 50 ár.  Gripi sem fólk tengir sínu nánast umhverfi og nágrönnum, ef ekki eigin fjölskyldu. Með þessu er undirstrikað að safnið er sprottið úr því samfélagi og varðveitir sögu þess um ókomin ár ekki síst fyrir ófæddar kynslóðir og eflir meðvitund um gildi eigin menningar jafnvel þótt hún sé sprottin úr eldhúsinu heima eða úr myndavél áhugamannsins í næsta húsi.

 

Fyrsta sýningin opnar fimmtudaginn 1. ágúst kl. 20  í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit. Auk ljósmynda og merkisgripa úr Hörgársveit verður sýnd kvikmynd úr fórum Sverris Haraldssonar úr Skriðu sem teknar eru á 8. og 9. áratug síðustu aldar.

 

Í tengslum við sýninguna vill safnið efla varðveislu á myndum úr einkaeigu. Hver veit nema í fjölskyldualbúminu leynist myndir sem ættu heima á safni? Föstudaginn 2. ágúst verður Hörður Geirsson, ljósmyndasérfræðingur Minjasafnsins á Akureyri, í Leikhúsinu á Möðruvöllum, og tekur stafræn afrit af myndum milli 13 og 17.

 

Þá fara stórskemmtilegir sagnamenn úr Hörgársveit á flug laugardaginn 9. ágúst, segja sögur úr sveitinni, bæði sennilegar og ósennilegar og spjalla við gesti og gangandi. Heitt verður á könnunni en ekki í kolunum.

 

Aðgangur er ókeypis á sýningarnar sem styrktar eru af Menningarráði Eyþings og Landsbankanum.