Heimavist á Þelamörk breytt í íbúðarhúsnæði?
Stefnt er að því að húsnæði að Laugalandi á Þelamörk, sem áður var heimavist fyrir Þelamerkurskóla, verði breytt í hagkvæmt íbúðarhúsnæði á næstunni. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri í Hörgársveit, undirrituðu 23. nóv. s.l. viljayfirlýsingu þess efnis en yfirlýsingin felur í sér aðkomu stjórnvalda að húsnæðisuppbyggingu í Hörgársveit.
Með því að breyta heimavistinni í íbúðarhúsnæði fjölgar leiguíbúðum í sveitarfélaginu. Mikill skortur hefur verið á húsnæði í Hörgársveit um lengri tíma meðal annars vegna nálægðar við Akureyrarbæ, þar sem mikill vöxtur hefur verið undanfarin ár.
Íbúðalánasjóður veitir þriggja milljóna króna þróunarstyrk
Íbúðalánasjóður mun einnig koma að útfærslu verkefnisins og hefur sjóðurinn ákveðið að leggja sveitarfélaginu til þriggja milljóna króna styrk til þróunar þess. Styrkurinn er veittur sem hluti af sérstöku tilraunaverkefni sjóðsins, sem snýr að því að örva húsnæðisuppbyggingu utan suðvesturhorns landsins og bregðast við erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði, ekki hvað síst á landsbyggðinni.
„Að undanförnu hefur samskonar verkefnum verið ýtt úr vör víða á landsbyggðinni og eru fleiri í farvatninu. Eftir langvarandi stöðnun þykir mér afar ánægjulegt að fylgja þeim úr hlaði á hverjum stað fyrir sig. Ég hef lagt ríka áherslu á að húsnæðisskortur standi ekki atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum og bind vonir við að þessar aðgerðir styrki atvinnulíf hringinn í kringum landið,“ er haft eftir Ásmundi Einari í tilkynningu.