Gamaldags kvöldvaka á Melum
10.04.2012
Í dymbilviku var haldin gamaldags kvöldvaka á Melum og var það hluti af mánaðarlegum uppákomum sem Leikfélag Hörgdæla stendur fyrir og er að gera tilraunir með. Kvöldvakan tókst með eindæmum vel. Þarna var á boðstólum söngur, hljóðfæraleikur, kveðskapur og frásagnir og skemmtu gestir sér vel.
Vöfflurnar og kleinurnar runnu ljúflega niður og fór mæting fram úr björtustu vonum. 50-60 manns áttu huggulega kvöldstund á Melum við kertaljós og vöffluilm.
Fyrirhugaðar eru tvær uppákomur í viðbót áður en sumarið skellur á og vonandi verður þráðurinn tekinn upp aftur í haust þar til næsta uppfærsla Leikfélagsins altekur hugi manna og kvenna.