Fundargerð - 30. október 2002

Miðvikudaginn 30. október  kl. 20:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

 

Mættir voru Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson og Helga Erlingsdóttir sveitarstjóri.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Engin formleg dagskrá lá fyrir fundinn, heldur leiddi eitt af öðru. Ævar Ármannson frá VST og Haraldur Helgason byggingarverktaki mættu á fundinn, en tilboð hefur borist í lóðirnar austan Skógarhlíðar, sunnan lækjar frá Haraldi Helgasyni byggingarverktaka. Þar kemur fram áhugi Haraldar á að fá allar lóðirnar og sjá um alla vegagerð og lagnir sem tilheyra slíkum byggingarframkvæmdum og yrði sú vinna greiðslan sem Hörgárbyggð fengi fyrir lóðirnar.
Haraldur sér fyrir sér að þarna yrðu byggð 3. herbergja raðhús á bílskúra og lítil parhús með góðum bílskúrum. Hann hefur áhuga á að hefja framkvæmdirnar strax í vor og að veturinn yrði nýttur til frekari undirbúnings. Ævar Ármannsson sagði að heimilt væri að úthluta Haraldi umrætt svæði án þess að það þyrfti að auglýsa eftir tilboðum. Málið vísað til áframhaldandi vinnslu til oddvita og sveitarstjóra.

 

Erindisbréf fyrir leikskólanefnd lagt fram til kynningar.

 

Styrkbeiðni frá Gigtarfélagi Íslands var hafnað en samþykkt að veita Félagi hjartasjúklinga á Eyjafjarðarsvæðinu styrk að fjárhæð kr. 25.000 til kaupa á segulómtæki.

Bréf frá Lögþjónustunni fyrir hönd eiganda Krossastaða og er enn óskað eftir frekari rökstuðningi vegna álagðs gangnadagsverks. Svarbréf til Lögþjónustunnar lagt fram til kynningar. Þar kemur fram hvernig landverð er reiknað og að grunnverð lands sem tilheyri jörð og er notað sem skattstofn geti aldrei orðið mínustala.

 

Fundargerð Tónlistarskóla Eyjafjarðar lögð fram til kynningar.

 

Bréf frá Þóroddi Sveinssyni Möðruvöllum, var lagt fram til kynningar. Málefnið er stuðningur við uppbyggingu á Fræðasetri á Möðruvöllum. Þar komu fram tvennskonar óskir það er að Hörgárbyggð skipi fulltrúa í undirbúningsnefnd sem á að sjá um undirbúning að stofnskrá setursins og svo er óskað eftir fjárstuðningi við endurbyggingu Leikhússins á Möðruvöllum.

 

Bréf frá Sigfúsi Karlsyni vegna útsendra mötuneytisreikninga í lok maí síðastliðin með gjalddaga 1. mars og eindaga 4. júní en um það bil 13 aðilar þurftu að greiða dráttarvexti þar sem eindaginn var svo skammur frá þeim tíma sem seðlarnir voru sendir út. Samþykkt að endurgreiða alla dráttarvexti vegna þessa máls að fengnu samþykki Arnarneshrepps.

 

Send hafa verið út harðorð innheimtubréf til u.þ.b. 10 aðila sem ekki hafa orðið við tilmælum um að greiða skuldir sínar við sveitarfélagið. Oddviti um hringja í viðkomandi aðila eftir að greiðslufrestur er liðinn og ef ekki er enn greitt eða samið um skuldirnar verða þær settar sem fyrst í lögfræðiinnheimtu.

 

Sveitarstjóri mun sjá um að taka við óskum um snjómokstur eftir 1. nóvember og sjá um að mokað sé eftir það er beðið. Gunnar Gunnarsson í Bitru sér um að hafa samband við sveitarstjóra fyrir þá sem eru við veginn frá þjóðvegi 1 til Ásláksstaða. Klængur Stefánsson sér um Skottið og Sigurður Skúlason um Hörgárdalinn niður Torfuna.

 

Bráðabirgðahúsnæði er fengið fyrir sveitarstjórann á svokölluðum efri gangi í Þelamerkurskóla. Kaupa þarf skrifborð og stóla og ýmislegt fleira svo að sveitarstjóraskrifstofan standi undir nafni. Helgu falið að tryggja fartölvuna og kaupa faxtæki og ljósritunarvél, einnig þarf að skoða símamálin. Auglýsa í næsta fréttabréfi viðverutíma sveitastjóra á skrifstofunni.

 

Ákveðið er að framkvæmdanefnd falli út þegar sveitarstjóri er kominn til starfa en starf oddvita verður sem næst óbreytt til áramóta á meðan sveitastjóri er að koma sér inn í málin.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið 11:45.

 

Birna Jóhannesdóttir, fundarritari.