Fundargerð - 29. október 2015

Sveitarstjórn Hörgársveitar

 62. fundur

 Fundargerð

 

Fimmtudaginn 29. október 2015 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir og Jón Þór Benediktsson.

 

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

1.        Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 27. október 2015

Fundargerðin er í fimm liðum. Þar af eru þrír liðir til afgreiðslu sveitarstjórnar, en 4. liður,   aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, er afgreiddur sérstaklega af sveitarstjórn.

a) Í 1.lið, deiliskipulag Dysnes.

Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa deiliskipulagstillöguna fyrir Dysnes ásamt umhverfisskýrslu skv. 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

b) Í 2.lið, deiliskipulag Hjalteyrar.

Sveitarstjórn samþykkti að kynna lýsingu deiliskipulags fyrir Hjalteyri skv. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

c) Í 5.lið, Lækjarvellir, hugmyndir um breytingar á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi og er sveitarstjóra og skipulagsfulltrúa falið að ræða við umsækjenda um mögulega útfærslu breytingarinnar. Breytingin skal unnin í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.        Fundargerð heilbrigðisnefndar 7. október 2015

Fundargerðin er 25 liðum. Þar á meðal er afgreiðsla  á fjárhagsáætlun nefndarinnar 2016. Afgreiðsla er á 14 umsóknum um starfsleyfi. Þar á meðal er afgreiðsla á umsókn um starfsleyfi fyrir Skútaberg ehf. en nefndin samþykkti starfsleyfið til 12 mánaða.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

3.        Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis 15. september 2015

Fundargerðin er í átján liðum.  Sjö liðir varða Hörgársveit, í 12. til 18. lið. 

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

4.        Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024

Tillaga að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 var auglýst frá 24. ágúst 2015 með athugasemdarfresti til 8. október 2015. Auglýst var í Lögbirtingarblaðinu, Fréttablaðinu, Dagskránni Akureyri, heimasíðu sveitarfélagsins og fréttabréfi útgefnu af sveitarfélaginu. Skipulagsgögn voru aðgengileg á skrifstofu sveitarfélagsins, á heimasíðu sveitarfélagsins og hjá Skipulagsstofnun.

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar fjallaði um umsagnir og athugasemdir á fundi sínum þann 27. október 2015 en alls bárust tvær umsagnir og átta athugasemdir og eru þær allar bókaðar og svör við þeim í fundargerð nefndarinnar.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 í samræmi við svör og viðbrögð við athugasemdum sem bárust og fram koma í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar að undanskyldu í því að í stað svars nefndarinnar við athugasemdum 5 og 9 komi eftirfarandi svar:

„Svæði sem skilgreind eru sem aðrar náttúruminjar á náttúruminjaskrá verða teknar út af skipulagsuppdrætti en í staðinn verður gerður skýringaruppdráttur sem settur verður inn í greinargerð sem sýnir afmörkun þessara svæða. Afmörkun svæðis 505 verður leiðrétt m.t.t. athugasemdar og sýnd á umræddum skýringaruppdrætti. Texti um svæðið helst óbreyttur þar sem hann telst vera réttur. „

Skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra er falið að annast gildistöku aðalskipulagsins í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.        Skipulagsfulltrúi

Fyrir fundinum lá samningur við Ómar Ívarsson um að hann taki að sér að vera starfandi skipulagsfulltrúi Hörgársveitar. Samningurinn gildir til 1. janúar 2016 með mögulegu framlengingarákvæði.

Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

6.        Viðauki 02 við fjárhagsáætlun 2015.

Lögð fram tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2015, sem hefur auðkennið 02/2015.

Sveitarstjórn samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2015, sem hefur auðkennið 02/2015, og gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði jákvæð sem nemur 15.782 þús.kr. og handbært fé í árslok verði 28.686 þús. kr.

7.        Laugaland, breyting á eignarhaldi

Farið áfram yfir stöðu mála.

8.        Hraun í Öxnadal ehf, aðalfundarboð

Lagt fram fundarboð á aðalfund félagsins 12.nóvember n.k. ásamt ársreikningi 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að sveitarstjóri fari með umboð sveitarfélagsins á fundinum.

9.        Jafnréttisstofa – jafnréttisáætlun

Lagt fram erindi þar sem Jafnréttisstofa óskar eftir að fá afhenta jafnréttisáætlun sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að fela félagsmála- og jafnréttisnefnd að endurskoða jafnréttisáætlun sveitarfélagsins og afhenda hana Jafnréttisstofu.

10.        Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands – ágóðahlutagreiðsla 2015

Lagt fram bréf frá EBÍ þar sem tilkynnt er að ágóðahlutagreiðsla til Hörgársveitar 2015 er kr. 71.500,-

11.        Verbúðalóð Hjalteyri

Lögð fram umsókn um verbúðalóðina Búðagötu 31 á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að úthluta Bunustokk ehf kt.600794-2219 verbúðalóðinni nr. 31 við Búðagötu Hjalteyri.

12.        Ástand Hlíðarvegar 818, nauðsyn endurbóta. Afrit af bréfi til Vegargerðarinnar.

Lagt fram til kynningar afrit af bréfi frá Lögmannsstofunni Sókn fyrir hönd íbúa á sex bæjum í Kræklingahlíð til Vegagerðarinnar vegna Hlíðarvegar 818.

Sveitarstjórn samþykkti að lýsa yfir stuðningi við áhyggjur íbúa af slæmu ástandi vegarins.

13.        Aflið – styrkbeiðni

Lagt fram erindi frá Aflinu, samtökum þar sem óskað er eftir fjárhagsstyrk.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu til fjárhagsáætlunar 2016.

14.        Stígamót – styrkbeiðni

Lagt fram erindi frá Stígamótum þar sem óskað er eftir fjárhagsstyrk.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu til fjárhagsáætlunar 2016.

15.        Þorrablót 2016, styrkbeiðni

Lagt fram að nýju erindi frá þorrablótsnefnd, þar sem óskað er eftir styrk til niðurgreiðslu á húsaleigu vegna þorrablóts 2016, en afgreiðslu erindisins var frestað á síðasta fundi.

Sveitarstjórn samþykkti að þorrablót ársins 2016 verði styrkt um kr. 75.000,-

16.        Samningur við Hjalteyri ehf.

Fyrir liggur ósk stjórnar Hjalteyrar ehf að gerðar verði breytingar á samningi sem sveitarfélagið gerði við Hjalteyri ehf 2014 varðandi þjónustu við félagið.

Sveitarstjórn samþykkti að ræða við forsvarsmenn félagsins um samninginn.

17.        Flokkun Eyjarfjörður ehf – aðalfundarboð

Lagt fram fundarboð á aðalfund félagsins 10.nóvember n.k.

Sveitarstjórn samþykkti að sveitarstjóri fari með umboð sveitarfélagsins á fundinum.

18.        Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi – umfjöllun og staðfesting

Lögð fram frá verkefnastjórn sameiginleg svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi fyrir tímabilið 2015-2026.

Sveitarstjórn Hörgársveitar staðfestir svæðisáætlunina fyrir sitt leiti.

19.        Fjárhagsáætlun 2016 – 2019, fyrri umræða

Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun ársins 2016 og yfirlit rekstraráætlana fyrir árin 2016-2019. Tillagan gerir fyrir ráð fyrir að á árinu 2016 verði rekstrarafgangur kr. 10,1 millj. kr og að veltufé frá rekstri á árinu verði 31,3 millj. kr.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun áranna 2016-2019 til síðari umræðu.

20.        Trúnaðarmál.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 19.15