Fundargerð - 29. júní 2014
Sunnudaginn 29. júní 2014 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Jóhanna María Oddsdóttir, Jón Þór Benediktsson og María Albína Tryggvadóttir.
Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.
Þetta gerðist:
1. Fundargerð heilbrigðisnefndar 10. júní 2014
Fundargerðin er í tólf liðum, auk afgreiðslu á tuttuguogfjórum umsóknum um starfsleyfi. Einn þessara liða varða Hörgársveit með beinum hætti, þ.e. 7. liður umsókna um starfsleyfi, sem er um endurnýjun starfsleyfis fráveitu frá sláturhúsi B. Jensen hf.
Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
2. Fundargerð fræðslunefndar 25. júní 2014
Fundargerðin er í fimm liðum. Í henni er tillaga til sveitarstjórnar um að orðið verði við beiðni leikskólastjóra um tímabundna breytingu á stöðuhlutfalli. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um breytingu á stundatöflu Þelamerkurskóla næsta skólaár, um breytingu á gjalddaga leikskólagjalda, um innheimtu gjalda fyrir fæði gesta í leikskóla, og um niðurstöðu foreldrakönnunar í leikskólanum.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu fræðslunefndar um að veita leikskólastjóra launalaust leyfi að hluta frá 1. september til 1. desember 2014, þannig að um verði að ræða 50% starf á því tímabili í stað 75%. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
3. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, auglýsing tillögu
Lagt fram bréf, dags. 18. júní 2014, frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þar sem sveitarfélaginu er gefinn kostur á að afturkalla beiðni, dags. 20. janúar 2014, um samþykki ráðherra fyrir að frestað verði að fjalla um þá þætti sem varða Blöndulínu 3 í fyrirliggjandi aðalskipulagstillögu. Í bréfinu er gefinn frestur til 4. júlí 2014 til að svara erindinu. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að beiðnin verði afturkölluð og að fyrirliggjandi tillaga að aðalskipulagi sveitarfélagsins verði auglýst.
Lögð fram til kynningar bréf, dags. 27. júní 2014, frá Þorsteini Rútssyni um málefni Blöndulínu 3 og tölvubréf, dags 27. júní 2014, frá bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, um dreifikerfi raforku.
Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir fresti til 1. september 2014 til að svara fyrirliggjandi erindi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um málefni Blöndulínu 3 og að fresta til næsta fundar að taka afstöðu til tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um afgreiðslu á erindi ráðuneytisins og um að auglýsa fyrirliggandi tillögu að aðalskipulagi. Jafnframt samþykkti sveitarstjórnin að haldnar yrði upplýsingafundir um málefni Blöndulínu 3 um miðjan ágúst 2014.
4. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 25. júní 2014
Fundargerðin er í þremur liðum, einn þeirra var til afgreiðslu í 3. lið þessarar fundargerðar. Aðrir liðir eru um veitingu umhverfisverðlauna og um fundartíma nefndarinnar.
Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar að öðru leyti en því sem fram kemur í 3. lið þessarar fundargerðar.
5. Fundargerð fjallskilanefndar 26. júní 2014
Fundargerðin er í fimm liðum, þ.e. um tímasetningu gangna haustið 2014, um álagningu gangnadagsverka, um undanþágur frá fjallskilum, um fjallskilastjórn og um utansveitarfé.
Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.
6. Breyting á samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar, síðari umræða
Fyrri umræða um tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar fór fram á fundi sveitarstjórnar 18. júní 2014.
Sveitarstjórn samþykkti fyrirliggjandi tillögu að breytingu á gildandi samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 20:30.