Fundargerð - 28. júlí 2016

Fjallskilanefnd Hörgársveitar

 

17. fundur

 

Fundargerð

 

Fimmtudaginn 28. júlí 2016 kl. 20:00 kom fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Aðalsteinn H. Hreinsson, Jónas Þór Jónasson og Sigríður Kristín Sverrisdóttir nefndarmenn og Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist: 

 

1.        Framtíðar staðsetning fjárrétta í Glæsibæjardeild

Haldinn var fundur með sauðfjárbændum í Glæsibæjardeild 20. júlí sl. varðandi fjárréttarmál á svæðinu.Í framhaldi af þeim fundi voru mættir á fund fjallskilanefndar eigendur Grjótgarðs þau Árni Arnsteinsson og Borghildur Freysdóttir og eigendur Skúta þeir Björn og Þór Konráðssynir. 

Farið var yfir málin og hvaða leiðir væru bestar varðandi staðsetningu.

Fjallskilanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að núna á næstu vikum verði farið í lagfæringar á núverandi rétt og girðingum við hana ásamt færslu á aðkomu í samvinnu við eigendur Skúta.  Kannað verði með að fjáreigendur á svæðinu komi að vinnu við lagfæringar.

Ákvörðun um framtíðar staðsetningu verði ekki tekin að sinni en áfram verði unnið að undirbúningi undir forystu fjallskilastjóra Glæsibæjardeildar.

2.        Tímasetning gangna haustið 2016

Fjallskilanefnd ræddi að nýju tímasetningu gangna haustið 2016.

Í ljósi nýrra upplýsinga varðandi álagsgreiðslur á sláturfé samþykkti fjallskilanefnd að 1. göngur haustið 2016 verði frá miðvikudeginum 7. september til sunnudagsins 11. september og að aðrar göngur verði viku síðar.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22.15