Fundargerð - 27. október 2011

Fimmtudaginn 27. október 2011 kl. 20:00 kom atvinnumálanefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Aðalheiður Eysteinsdóttir, Bryndís Óskarsdóttir, Guðmundur Sturluson, Jón Þór Brynjarsson og Þórður R. Þórðarson nefndarmenn, svo og Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fjárhagsrammi atvinnumálanefndar

Lagt fram bréf, dags. 23. september 2011, frá sveitarstjórn þar sem gerð er grein fyrir því að fjárhagsrammi nefndarinnar, sbr. 9. gr. erindisbréfs hennar, vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2012 er 2,5 millj. kr. Farið var yfir þau viðfangsefni sem heyra undir nefndina og lögð drög að áætlun um heildarfjárhæð fyrir hvert þeirra.

 

2. Styrkveitingar, reglur

Lögð fram drög að reglum fyrir úthlutun á styrk/styrkjum til eflingar atvinnulífs í sveitarfélagsins í framhaldi af umræðum á síðasta fundi nefndarinnar.

Samþykkt var að auglýsa eftir styrkjum til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu á grundvelli fyrirliggjandi draga að úthlutunarreglum með breytingum á þeim sem gerðar voru á fundinum. Samþykkt var að umsóknarfrestur verði til 10. janúar 2012.

 

3. Málefni verksmiðjuhúseignanna á Hjalteyri

Rætt um málefni verksmiðjuhúseignanna á Hjalteyri í framhaldi af umræðum á síðustu fundum nefndarinnar. Lögð voru m.a. fram drög að rekstraráætlun fyrir einkahlutafélag sem væri eigandi og rekstraraðili húseignanna.

Atvinnumálanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að á þessu ári verði stofnað einkahlutafélag um eignarhald og rekstur verksmiðjuhúseignanna á Hjalteyri þannig að félagið taki við rekstri þeirra um næstu áramót.

 

4. Óskir um aðstöðu í verksmiðjuhúseignunum á Hjalteyri

Lögð fram eftirtalin þrjú bréf þar sem óskað er eftir aðstöðu í verksmiðjuhúseignunum á Hjalteyri: Frá Gústav G. Bollasyni, dags. 5. maí 2010, frá Erlendi Guðmundssyni (Neðansjávar ehf.), dags. 12. september 2011, og frá Erlendi Bogasyni, dags. 20. september 2011.

Atvinnumálanefnd samþykkti að fresta efnislegri afgreiðslu á framkomnum óskum um aðstöðu í verksmiðjuhúsunum á Hjalteyri þar til niðurstaða liggur fyrir um stofnun félags um eignarhald og rekstur húseignanna.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:00.