Fundargerð - 27. mars 2003
Fimmtudaginn 27. mars 2003 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til sameiginlegs fundar með fjallskilanefnd að Melum.
Mætt voru frá sveitarstjórn: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, ásamt Helgu A. Erlingsdóttur.
Frá fjallskilanefnd voru Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn Hreinsson og Stefán Lárus Karlsson.
Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.
Í upphafi fundar kom fram að u.þ.b. 550 kindur komu til réttar í Hörgárbyggð frá Akrahreppi í Skagafirði og væri kostnaður Hörgárbyggðar vegna 14 dagsverka kr. 126.000 vegna gangna í Seldal og á Almenningi. Skagfirðingar hafa lagt til 3 menn í fyrstu göngur og 2 menn í aðrar göngur. Ekki er ásættanlegt að líða þennan ágang fjár úr Skagafirði án þess að leita eftir því hvort Skagfirðingar vilji ekki koma frekar að gangnamálum. Ákveðið er að stefna að almennum fundi um fjallskilamál í Hörgárbyggð seinni partinn í apríl. Hlé var gert á fundinum á meðan beðið var eftir Akrahreppsmönnum sem voru væntanlegir kl. 21:00.
Frá Akrahreppi komu síðan sveitarstjórnarmennirnir Þórarinn Magnússon, Agnar Gunnarsson, Svanhildur Pálsdóttir og Gísli Konráðsson.
Guðmundur Skúlason fór yfir málið fyrir Skagfirðingana og tíundaði þann fjölda kinda sem komu til réttar á síðastliðnu hausti. Lagði hann áherslu á að Skagfirðingar mönnuðu göngurnar frekar en að þeir greiddu fyrir dagsverkin. Þórarinn tók til máls og sagði að ekki væri farið eftir landverði eða fjárfjölda við álagningu dagsverka í göngur í Skagafirði, heldur byggðust þær á hefðum. Þeir greiða fyrir dagsverkið kr. 2.400 og þeir sem eiga kindur greiða í fjallskilasjóð kr. 140 fyrir hverja vetrarfóðraða kind.
Eftir þó nokkrar umræður um gangnamálin tjáði Þórarinn sig með það að Skagfirðingar væru til viðræðu um að leysa þau í góðri samvinnu við Hörgárbyggð. Fram kom áhugi frá báðum aðilum að leysa málin þannig að Skagfirðingar gangi bæði Almenninginn og Seldalinn með Öxndælum og rækju féð vestur yfir heiði á föstudeginum fyrir aðalgöngur í Hörgárbyggð sem eru á laugardegi.
Ákveðið var að menn væru í góðu sambandi með framhaldið þegar þeir væru búnir að skoða málin nánar með sínu fólki.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:02