Fundargerð - 27. júní 2013
Fimmtudaginn 27. júní 2013 kl. 20:15 kom fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar í Þelamerkurskóla. Allir nefndarmenn mættir: Aðalsteinn H Hreinsson, Jósavin Gunnarsson, Stefán L Karlsson, Helgi B Steinsson og Guðmundur Skúlason.
Eftirfarandi bókað á fundinum:
1. Tímasetning gangna haustið 2013 rædd. Ákveðið var að 1. göngur í Hörgársveit verða frá föstudeginum 6. september til sunnudagsins 15. september og að seinni göngur verði viku síðar. Vegna óvenjulegs tíðarfars í vor gæti þurft að hnika til þessum dagsetningum ef heyskapur dregst mikið fram í september.
2. Ákveðið að álagning gangnadagsverka og annað skipulag fjallskila verði með svipuðum hætti og 2012. Fjallskil verða eingöngu lögð á sauðfé, en ekki á annan búpening eða land.
3. Ákveðið að þeir sem hafa allt sitt fé í sauðheldum girðingum allt sumarið, geti sótt um til fjallskilanefndar, fyrir 1. ágúst 2013, að vera undanþegnir fjallskilum á komandi hausti.
4. Almenn umræða um göngurnar á síðastliðnu hausti. Þær gengu vel þar sem gengið var þann 8. sept. Það var í Arnarnesdeild og neðsta hluta Skriðudeildar fram að Syðri-Tunguá. Eftir það voru nánast engar hefðbundnar göngur í Hörgársveit, vegna snjós sem kyngdi niður aðfaranótt 10. september og alveg fram á kvöld þess dags. Á sumum svæðum, einkum fram til dala, var miklum erfiðleikum háð að koma fénu til byggða, enda snjódýpt víða um og yfir 50 cm. og öll minni gil full. Auk heimamanna og venslafólks, var fengin aðstoð frá Súlum björgunarsveitinni á Akureyri, til að ná fénu heim. Þrátt fyrir þetta allt urðu ekki nema óverulegir fjárskaðar í Hörgársveit, af völdum þessa mjög svo óvenjulega tíðarfars snemma í september.
5. Fjallskilanefnd skorar á sveitarstjórn að styrkja Súlur um eitthundraðþúsund krónur í þakklætisskini fyrir aðstoðina haustið 2012.
6. Farið var yfir þann fjárfjölda sem tölur lágu fyrir um að komið hafi fyrir utan heimasveitar haustið 2012. Úr Akrahreppi komu til réttar í Öxnadal 342 kindur og í Hörgárdal um 220 kindur. Þetta er fyrir utan það fé, sem rekið var vestur af Hörgárdalsheiði og af fremstu svæðum í Öxnadal. Úr Hörgársveit kom engin kind fyrir í Silfrastaðarétt. Úr Eyjafjarðarsveit komu 58 kindur fyrir í Hörgársveit, en engin kind héðan fór þangað.
7. Rætt um viðhald fjárrétta og girðinga sveitarfélagsins. Ákveðið að fjallskilanefndarmenn ræði við Jón Þór Brynjarsson um viðhald hver í sinni deild. Þorvaldsdalsrétt var lagfærð og fúavarin 2012. Ákveðið að nú 2013 verði Staðarbakkarétt tekin fyrir og lagfærð og fúavarin. Stefnt verði svo að því að taka eina rétt fyrir árlega.
GTS
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 22:00.