Fundargerð - 24. ágúst 2010

Þriðjudaginn 24. ágúst 2010 kl. 20:00 kom fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar á Staðarbakka. Allir nefndarmenn mættir: Aðalsteinn H Hreinsson, Guðmundur Skúlason, Helgi B Steinsson, Jósavin Gunnarsson og Stefán L Karlsson.

 

     Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.    Fundargerð 2. fundar nefndarinnar og fundargerð fundar með fulltrúum úr Akrahreppi þann 20. ágúst sl. í Héðinsminni undirritaðar.

2.    Vinnureglur fjallskilanefndar: Sveitarstjórn afgreiddi á fundi sínum þann 18. ágúst sl. vinnureglurnar athugasemdalaust eins og fjallskilanefnd samþykkti þær á fund þann 5. júlí sl. Fjallskilanefnd gerir nú tillögu um breytingar er varða samninga við aðliggjandi sveitarfélög  um sameiginleg fjallskil.

 

3.    Borist hafa beiðnir frá eigendum sauðfjár á jörðunum: Árhvammi, Bitru og Bitrugerði um að vera undanþegnir fjallskilum í haust, þar sem þeir hafi haft allt sitt sauðfé í fjárheldum girðingum sumarlangt. Fjallskilanefnd samþykkir beiðnirnar. Einnig er sauðfé í Bragholti undanskilið fjallskilum þar sem í gildi er bann frá MAST um að því fé sé ekki sleppt út úr girðingum. Alls eru þetta 97 kindur, sem ekki koma til álagningar fjallskila á þessum fjórum jörðum.

 

4.    Umræður um fund sem haldinn var 20. ágúst sl. með fulltrúum Akrahrepps um sameiginleg fjallskil. Ekki hefur borist svar frá Akrahreppi varðandi aukna aðkomu þaðan að fjallskilum í Hörgársveit, fyrir það fé sem hér gengur úr Akrahreppi, en það er væntanlegt á næstunni. Fjallskilanefnd veitir Guðmundi Skúlasyni og Aðalsteini Hreinssyni, heimild til að annast frágang þessara samninga í samráði við sveitarstjóra og til að breyta fjallskilaboðum fyrir Öxnadals- og Skriðudeild ef niðurstaða samninga gefur tilefni til.

5.    Álagning fjallskila í sveitarfélaginu. Þau eru lögð á í samræmi við 4. lið fundargerðar 1. fundar fjallskilanefndar Hörgársveitar frá 5. júlí 2010. Heildarfjöldi gangnadagsverka í Hörgársveit er 463. Alls eru 6.702 kindur í sveitarfélaginu samkvæmt síðustu forðagæsluskýrslu. Fjárfjöldi sem dagsverkum er jafnað niður á í sveitarfélaginu eru 6.542 kindur. 160 kindur koma ekki til útreiknings fjallskila: 97 voru innan girðingar, samanber 2. lið fundargerðarinnar og í Arnarnesdeild er eins og venja hefur verið þar ekki lögð fjallskil á hrúta, þeir eru að þessu sinni 63. Að jafnaði eru flestar kindur í dagsverki í Glæsibæjardeild 24,7, í Öxnadalsdeild eru þær 16,1, í Arnarnesdeild 15,6 og fæstar eru þær í Skriðudeild 13,5 kindur. Á einstökum gangnasvæðum eru flestar kindur í dagsverki í Ytri-Bægisárdal 31,2 en fæstar á Myrkárdal 11,1 kind. Sveitarfélög munu kosta 60 dagsverk á eyðilendum þar sem enginn sleppir. Gengið frá fjallskilaboðum fyrir hverja fjallskiladeild Hörgársveitar. Fjallskilaboð verða send sauðfjáreigendum og þau munu líka verða aðgengileg á heimasíðu Hörgársveitar.

 

6.    Rætt var um flutning úrtínings á komandi hausti. Ákveðið að hafa hann með svipuðu sniði og verið hefur síðustu haust, það er að dregið skuli upp á hverri auka- og heimarétt í sveitarfélaginu og ber réttarstjórum að tilkynna um aðkomufé til eiganda innan Hörgársveitar, sem ber þá að sækja sitt fé. Sé um utansveitarfé að ræða skal tilkynna það til eiganda eða fjallskilastjóra viðkomandi fjallskiladeildar í Hörgársveit. Samið verði við ákveðna menn, um að sækja fé úr Hörgársveit, sem kemur fyrir í skilaréttum í nágranna sveitarfélögum. Kostnaður við það greiðist úr sveitarsjóði eins og verið hefur, nema í Arnarnesdeild þar sem úrtíningsflutningur er lagður á sem gangnadagsverk.

 

7.    Ákveðið að senda út með fjallskilaboði aðvörun er varðar búfjársjúkdóma, eins og undanfarin haust.

 

8.    Önnur mál: Að tillögu Stefáns Lárusar, leggur fjallskilanefnd til og áréttar þar með eldri samþykkt fjallskilanefndar Hörgárbyggðar, um að sveitarstjórn boði til fundar með þeim bændum sem rétta í Þórustaðarétt, um framtíð réttarinnar.  

 

 

Fleiri ekki bókað og fundi slitið kl. 23:33.