Fundargerð - 23. ágúst 2007
Fimmtudagskvöldið 23. ágúst 2007 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H. Hreinsson og Stefán L. Karlsson. Auk þess sat Helgi Steinsson oddviti fundinn.
Eftirfarandi fært til bókar á fundinum:
1. Skrifað undir fundargerð síðasta fundar.
2. Þórður Steindórsson frá Þríhyrningi hefur sagt af sér sem gangnastjóri í Auðbrekkufjalli og réttarstjóri í Þorvaldsdalsrétt. Fjallskilanefnd vill þakka honum fyrir vel unnin störf, sem hann hefur gegnt um árabil. Nefndin hefur skipað í hans stað þá Jóhannes Gísla Pálmason Þríhyrningi, sem gangnastjóra í Auðbrekkufjall og Árna Arnsteinsson Stóra Dunhaga, sem réttarstjóra í Þorvaldsdalsrétt.
3. Gengið frá fjallskilaboðum fyrir hverja fjallskiladeild Hörgárbyggðar. Heildar gangnadagsverkafjöldi í Hörgárbyggð er 392. Fjárfjöldi sem dagsverkum er jafnað niður á í sveitarfélaginu eru 5.117 kindur og hefur þeim fjölgað um 16 kindur frá 2006. Að jafnaði eru flestar kindur í dagsverki í Glæsibæjardeild 24,7 í Skriðudeild eru þær 14,6 og fæstar eru þær í Öxnadalsdeild 13,0 kindur. Á einstökum gangnasvæðum eru flestar kindur í dagsverki á Ytri-Bægisárdal 27,2, en fæstar í Auðbrekkufjalli, Illagilsdal og Lambárdal 9,5 kindur. Vegna breyttra reglna um álagningu landdagsverka fækkar dagsverkum, sem eru lögð á landverð jarða verulega milli ára eða úr 72 í 33 dagsverk. Gangnaseðlum verður dreift á öll heimili í Hörgárbyggð, sem fá álögð gangnadagsverk út á fé. Fjárlausum landeigendum verður sent sérstakt bréf um gangnaskyldu þeirra.
4. Rætt var um flutning úrtínings á komandi hausti, ákveðið að hafa hann með svipuðu sniði og undanfarin haust. Greitt verður eitt dagsverk fyrir flutning um Þelamörk í Þórustaðarétt, tvö dagsverk fyrir flutning úr Akureyrarrétt í Þórustaðarétt, eitt dagsverk fyrir flutning úr Skjaldarstaðarétt í Þverárrétt, eitt dagsverk á milli Staðarbakkaréttar og Þverárréttar, fyrir skil um Hörgárdal verður greitt eitt dagsverk og fyrir flutning úr Reistarárrétt verður greitt eitt dagsverk. Fjallskilastjóri Akrahrepps ætlar að sjá um að komið verði með það fé sem kann að koma fyrir í Silfrastaðarétt úr Hörgárbyggð, um leið og féð úr Akrahreppi verður sótt á Þverárrétt. Ákveðið var að taka úrtíningsflutning, sem sveitarfélagið hefur verið að greiða fyrir til endurskoðunar fyrir haustið 2008. Skoðað verði hvort ekki komi til greina, að fella þennan flutning niður að einhverju eða öllu leyti, en þess í stað sjá fjáreigendur sjálfir um að sækja sitt fé.
5. Borist hefur tölvubréf frá Ólafi Jónssyni, Héraðsdýralækni Eyjafjarðar- og Skagafjarðarumdæmis, dagsett 23. ágúst 2007. Erindi bréfsins er að leita umsagnar varðandi tvö atriði: Annars vegar er um að ræða beiðni frá Hauki Jóhannssyni í Bragholti Arnarneshreppi, um að fá að flytja 12 kindur frá Auðnum 2 að Bragholti, eru þetta bæði gimbrar og ær. Hins vegar er beiðni frá Ólafi Ólafssyni Garðshorni um leyfi fyrir að mega kaupa lambhrút í Dagverðartungu. Fjallskilanefnd telur að veita eigi þessi umbeðnu leyfi. Því til rökstuðnings vísar nefndin til verulegs samgangs fjár, t.d. hafi til skammstíma fé frá bæjum í Arnarneshreppi verið flutt til afréttar bæði fremst í Hörgárdal og Öxnadal, auk þess sem alltaf hafi verið um einhverja verslun milli manna að ræða. En almennt séð vill fjallskilanefnd minna á þá orðsendingu sem hún hefur sent út með fjallskilaboði undanfarin ár. Þar segir: að enn sé full þörf fyrir að vera á varðbergi gagnvart riðusmiti og hafa beri fulla aðgæslu með alla flutninga á búfé, heyi, landbúnaðartækjum og öðru því, sem smit gæti borist með og að leita ætti álits og samþykkis Héraðsdýralæknis, ef menn hafa hug á að kaupa sauðfé úr öðrum sveitarfélögum.
6. Borist hafa frá sveitarstjóra frumdrög að Samþykkt um búfjárhald í Hörgárbyggð þar sem óskað er álits fjallskilanefndar. Drögin nokkuð rædd og voru menn sammála um, að á þeim þyrfti að gera nokkrar breytingar, þannig að þau verði betur sniðin að aðstæðum í Hörgárbyggð. Oddviti upplýsti að ekki væri komið að endanlegri ákvarðanatöku varðandi þetta mál af hálfu sveitarstjórnar, þannig að nefndin ákvað að fresta efnislegri álitsgerð þar til síðar.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 01:30.