Fundargerð - 23. ágúst 2005

Fundur haldinn í leikskólanefnd mánudaginn 29. ágúst 2005.  Mættir voru :  Logi Geir Harðarson formaður leikskólanefndar, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Borghildur Freysdóttir,  Hanna Rósa Sveinsdóttir  og Hugrún Ósk Hermannsdóttir  leikskólastjóri.

 

Dagsskrá:

1.   Tilboð í  vöktun á öryggiskerfi leikskólans.

2.   Biðlistar.

3.   Starfsmannamál.

           

1. Tilboð í  vöktun á öryggiskerfi leikskólans.

Öryggismiðstöð Norðurlands og Securitas hafa sent inn tilboð eins og óskað var eftir, varðandi lausnir á bruna- og innbrotakerfi fyrir leikskólann.  

Tilboð Öryggismiðstöðvarinnar hljóðar upp á alls 79.356.- á ári fyrir utan vsk. 

(Inn í því er ein úttekt á ári kr. 9.900.-, mánaðarleiga á innbrotakerfinu  kr.  3.925 og  kr. 1.863.- sem er tenging á brunavarnarkerfinu. )

Tilboð frá Securitas  hljóðar upp á 7.197,76  á mánuði sem gerir kr. 86.373.- á ári.

 

Tilboð Öryggismiðstöðvar Norðurlands  er hagstæðara og auk þess næst með því veruleg lækkun á þessari þjónustu ef mið er tekið af undangengnum árum.  Leikskólanefndin mælir því með að tilboði frá Öryggismiðstöð Norðurlands verði tekið þar sem það er mun lægra og var Hugrúnu  falið að ganga frá samningi við þá.

 

2.   Biðlistar:

Hugrún upplýsti  á fundinum að ný staða væri komin upp varðandi biðlista en nú  eru 8 börn á biðlista eftir því að komast inn á leikskólann, 6 úr Hörgárbyggð og 2 úr Arnarneshreppi:

Biðlisti barna úr Hörgárbyggð:

A) Ósk sem svarar til einu plássi  um áramót þar sem foreldrar tveggja barna vilja  lengja vistunartíma barna sinna.

B) Eitt barn  sem er 5 ára og er að flytja í sveitarfélagið og hefur því forgang vegna aldurs, óskir erum um að það barn verði tekið inn eftir áramót. 

C) Fult pláss eftir áramót fyrir barn sem verður 18 mánaða í desember. 

D) Tvö börn, 4ra og 2ja ára vilja full pláss sem fyrst. 

E) Að lokum er það barn sem verður 18 mánaða í desember  sem  vill fullt pláss um áramót.

Biðlisti barna úr Arnarneshreppi:

A) Foreldrar tveggja barna sem fædd  eru 2004  vilja koma börnum sínum inn  annars vegar um áramót og  hins vegar í febrúar,  þessi börn þurfa  vistun allan daginn.

 

Nú  er leikskólinn fullur og því miður ekki hægt að taka börn inn af biðlistanum. Ekki er séð fram  á að staðan breytist fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár eða þegar 6 pláss vegna barna í árgangi 2000 hætta vegna aldurs. Af þessum 6 plássum eru 3 börn úr Arnarneshreppi.

 

Eitt barn úr Arnarneshreppi fékk tímabundið pláss, fram að áramótum, í leikskólann  og þarf því að öllu óbreyttu  að víkja  núna um áramótin vegna forgangsbarna  á  biðlistanum.

 

Staðan  núna er því sú að það stefnir í að 5 börn úr Hörgárbyggð komast ekki inn á leikskólann þar sem hann er fullsetinn. Sex börn eru úr Arnarneshreppi í 5 og hálfu plássi. Samkvæmt  dvalarsamningi hafa þessi börn 6 mánaða uppsagnarfrest.

 

Leikskólanefnd  telur því óhjákvæmilegt fyrir Hörgárbyggð  að  grípa til þess neyðarúrræðis  að segja börnunum úr Arnarneshreppi upp til að tryggja að börn sem eiga lögheimili í Hörgárbyggð komist að.    Leikskólanefnd harmar  jafnframt að þessi stað sé komin upp og væntir þess að leitað verði allra leiða til að leysa vandann til að þetta komi sem minnst niður á börnunum.

 

Í þessu sambandi hefur sú hugmynd komið upp að  skoðað verði að fullri alvöru hvort Arnarneshreppur geti hugsanlega  komið að rekstri leikskólans Álfasteins og þá með stækkun í huga.  Skoða mætti t.d. þann kost að koma fyrir lausu færanlegu húsi til bráðabirgða til að leysa vandann til skemmri tíma.   

 

Þar sem sú staðreynd liggur fyrir að  íbúum Hörgárbyggðar er sífellt að fjölga og  verið er að vinna að aðalskipulagi í sveitarfélaginu telur leikskólanefnd einnig brýnt að  skoðaður verði  sá möguleiki  að stækka leikskólann varanlega þannig að hann geti betur þjónað íbúum sveitarfélagsins í komandi framtíð. Með stækkun leikskólans ætti jafnframt að geta orðið til hagstæðari rekstrareining sem þjónað gæti sveitarfélaginu um ókomna tíð.

 

Leikskólanefnd vill leggja áherslu á að sveitarstjórn Hörgárbyggðar bregðist fljótt við þeim vanda sem nú er upp kominn í leikskólanum  þar sem þetta kemur til með að koma illa við margar fjölskyldur úr báðum sveitarfélögum.

 

3. Starfsmannamál 

Í byrjun ágúst var auglýst eftir starfsmönnum í 2 stöður, annars vegar fyrir barn með sérþarfir og hins vegar almenna stöðu þar sem 1 starfsmaður í 100% starfi var að fara í skóla.   

Allmargar umsóknir bárust og var Anna Dóra Gunnarsdóttir, sem nýflutt er í sveitarfélagið, ráðin frá 07:30 til 13:00. Þá var Dagný Þóra Baldursdóttir ráðin sem iðjuþjálfi, en hún mun samhliða því að vera almennt á deild og hafa yfirumsjón með þeim börnum sem eru með sérþarfir þ.e. a.m.k. næsta árið en þá breytist staðan aftur.

 

Ýmislegt fleira rætt en ekki fært til bókar,

Fundi slitið kl. 23:00.

Guðný Fjóla Árnmarsdóttir fundaritari.