Fundargerð - 23. ágúst 2002

Föstudaginn 23. ágúst 2002 kl. 17:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla til að ræða við þá fjóra umsækjendur um starf sveitarstjóra sem ákveðið var að taka í viðtal, með vísan í sveitarstjórnarfund 21. ágúst 2002.

 

Mættir voru Ármanna Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir og Sturla Eiðsson. Ásrún Árnadóttir varamaður oddvita Helga Steinssonar sat fundinn þar sem Helgi taldi sig vanhæfan til að taka viðtöl við þá fjóra umsækjendur um starf sveitarstjóra þar sem einn umsækjanda og hann eru bræðrasynir.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Helgi vildi koma að þrem atriðum sem væru fyrirliggjandi áður en hann yfirgæfi fundinn, þ.e. fundargerð byggingarnefndar frá 20. ágúst sem var staðfest samhljóma, erindi frá UMFÍ þar sem óskað er eftir að Hörgárbyggð kaup auglýsingu eða sendi kveðju í blaðið Skinfaxa sem er að gefa út sérblað um fíkniefnavarnir sem verður dreift ókeypis inn á hvert heimili í landinu. Samþykkt að senda kveðju í blaðið fyrir kr. 5.000.

Erindi frá Landbúnaðarráðuneytinu vegna vinnu við reglugerð um búfjáreftirlitssvæði og framkvæmd eftirlits með vísan í 4. tl. 17. gr. laga nr. 103/2002 um búfjarhald og fl. en þar er kveðið á um að sett verði reglugerð um starfssvæði búfjareftirlits og framkvæmd þess, svo sem forðagæslu, eftirlitið sjálft og talningu búfjár. Landbúnaðarráðuneytið hefur skipað nefnd til að útbúa reglugerð sbr. framanritað og óskar eftir að athugasemdir eða tillögur berist nefndinni fyrir 10. september 2002. Sveitarstjórn ákvað að gera ekki athugasemdir við gerð reglugerðar um búfjáreftirlit. Helgi Steinsson yfirgaf síðan fundinn og tók varaoddviti Ármann Búason við fundarstjórn.

 

Síðan komu, með rúmlega klukkutíma millibili, þeir fjórir umsækjendur um starf sveitarstjóra til viðtals sem boðaðir höfðu verið þ.e. þau Helga A. Erlingsdóttir, Sigfús Karlsson, Snorri Finnlaugsson og Guðmundur Sigvaldason. Eftir öll viðtölin ákvað sveitarstjórn, með leynilegri kosningu, að ræða fyrst við Helgu A. Erlingsdóttur og ef ekki næðust samningar við Helgu þá var ákveðið að ræða við Guðmund Sigvaldason. Fékk hann fimm atkvæði, einn seðill var auður og Sigfús Karlsson fékk eitt atkvæði.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23.30.

 

Birna Jóhannesdóttir, fundarritari