Fundargerð - 22. júní 2008

Sunnudagskvöldið 22. júní 2008 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman við ristarhliðið á Öxnadalsheiði. Mættir eru: Guðmundur Skúlason og Aðalsteinn H Hreinsson, en Stefán L Karlsson  mætti ekki þar sem hann er staddur erlendis.

 

Tilefnið var tölvubréf sem barst frá Ólafi Jónssyni Héraðsdýralækni Skaga- og Eyjafjarðarumdæmis, dagsett þann 21. júní 2008. Erindi bréfsins er að fara þess á leit við fjallskilanefndina að hún fari og skoði vegsummerki við ristarhliðið nyrst á Öxnadalsheiðinni og girðinguna næst þjóðveginum og athugi hvort líklegt sé að fé hafi verið rekið þar í gegn síðustu daga.

Það er mat okkar í fjallskilanefndinni að ekkert bendi til þess að fé hafi verið rekið þarna í gegn nýlega, en girðingin er óviðgerð og mjög léleg þannig að hún er ekki fjárheld þarna við þjóðveginn, að öðru leyti skoðaði nefndin ekki girðinguna. Talsvert er af fé með fram þjóðveginum fremst í Öxnadal og alveg vestur að girðingu, við skoðun í kíki sýndist okkur að meiri hlutinn væri úr Hörgárbyggð, en nokkur slæðingur var þó af skagfirsku fé.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 23:00.